Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:45:16 (2670)


[13:45]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar stjórn þingsins á þessari 3. umr. fjárlaga, þá er það orðið árvisst hér að þann 15. desember er tilkynnt á dagskrá 3. umr. um fjárlög og hún efst ævinlega með sömu orðunum, að henni sé frestað vegna þess að málið sé ekki tilbúið. Ég vil bara vekja athygli þingmanna og þeirra sem heyra mál mitt á því að í allt haust höfum við verið að fást við mál sem aðallega hafa komið frá þingmönnum minni hluta eða stjórnarandstöðuflokka hér í þinginu. Það hafa ekki komið fram þau frumvörp sem þarf að vinna fyrir afgreiðslu fjárlaga. Þau hafa ekki komið fram fyrr en síðustu daga og efh.- og viðskn. er að sjálfsögðu upptekin við að vinna þau mál núna og hefur ekki enn þá komist í að sinna því að vinna tekjuhlið fjárlaga, eins og þarf auðvitað að gera sem allra fyrst. Þannig að það er fyrst og fremst vegna þess sem þarf að fresta 3. umr. fjárlaga að ríkisstjórnin hefur ekki unnið sitt starf, hún hefur ekki skilað þeim frumvörpum hingað inn sem þurfti að ræða nógu tímanlega fyrir þessa afgreiðslu og það er það sem ég geri athugasemd við.