Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 14:03:23 (2675)

[14:03]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn. sem er á þskj. 370. Minni hlutann skipa auk þess sem hér stendur, hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Á sérstöku þskj., sem er nr. 371, flytjum við brtt. við frv. eins og það liggur fyrir, en eins og kom fram í máli hv. formanns heilbr.- og trn. þá styður minni hlutinn þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til.
    Við gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þarf að gera tilteknar breytingar á íslenskri almannatryggingalöggjöf til að hún samræmist þeim reglum sem gilda munu á því sviði. Þannig er nauðsynlegt að mæta með einhverjum hætti svonefndri útflutningsreglu, sem felur í sér að bótaþegi eigi rétt á að fá almannatryggingabætur greiddar úr landi, á grundvelli nánar tiltekinna reglna. Til að mæta þessu hafa stjórnvöld kosið að aðgreina bætur almannatrygginga og skipa þeim í tvö frumvörp, annars vegar í frumvarp til laga um almannatryggingar og hins vegar í frumvarp til laga um félagslega aðstoð.

    Í frumvarp til laga um almannatryggingar hefur verið skipað þeim bótum sem ótvírætt eru taldar hafa yfirbragð tryggingabóta og falli þar af leiðandi undir útflutningsregluna. Í frumvarpi til laga um félagslega aðstoð hefur svo verið skipað þeim bótum sem þykja bera keim af félagslegri aðstoð og þurfi þar af leiðandi ekki að greiða úr landi. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu eru skilyrði þess að bætur teljist til félagslegrar aðstoðar einkum þríþættar. Í fyrsta lagi að einstaklingsbundið mat ráði hvort viðkomandi fái bætur. Í öðru lagi að tekjustaða hafi áhrif á bótarétt og í þriðja lagi að bætur greiðist beint úr ríkissjóði. Þrátt fyrir þetta fær minni hlutinn ekki séð að ástæða sé til að gera þær grundvallarbreytingar að ýmsir bótaflokkar, sem nú er skylt að greiða samkvæmt lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, breytist í heimildarbætur sem jafnframt verði tekjutengdar.
    Við samanburð á frumvörpunum tveimur kemur í ljós að skilin á milli þeirra eru hreint ekki jafnglögg og talið hefur verið. Þannig má finna heimildarákvæði í frumvarpi til laga um almannatryggingar sem og heimild til tekjutengingar og bætur almannatrygginga eru að auki að öllu leyti greiddar beint úr ríkissjóði. Því má segja að í raun og veru séu í frumvarpi til laga um almannatryggingar ákvæði sem bera keim af bótum félagslegrar aðstoðar, þannig að einstaklingsbundið mat og tekjustaða geti haft áhrif á bótarétt. Þá eru bætur, sem kveðið er á um í frumvarpi til laga um félagslega aðstoð, fjármagnaðar af ríkissjóði á sama hátt og bætur í frumvarpi til laga um almannatryggingar. Minni hlutinn fær því ekki séð hvaða rök mæla með því að gera þá gjörbreytingu sem boðuð er með frumvarpi til laga um félagslega aðstoð. Því leggur minni hlutinn til að heimildarákvæðum frumvarpsins um félagslega aðstoð verði breytt í skylduákvæði en það mál kemur hér til frekari umfjöllunar síðar.
    Benda má á að við meðferð nefndarinnar hafa stjórnvöld ítrekað haldið því fram að markmið með þessum breytingum sé ekki að draga úr útgjöldum til almannatrygginga. Því verður ekki séð að þær breytingar, sem minni hlutinn leggur til, muni leggja auknar byrðar á ríkissjóð. Þá telur minni hluti nefndarinnar að framangreindar breytingar beri vott um þróun í þá átt að færa bætur, sem hingað til hafa tilheyrt almannatryggingakerfinu, yfir á sveitarfélög og telur ástæðu til að stemma stigu við því.
    Nú er það ekki svo að núverandi hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi boðað slíkt, en með því að aðgreina þetta í þessi tvö frv. og hafa heimildarbæturnar í frv. sem verður væntanlega að lögum um félagslega aðstoð, þá er þessi hætta til staðar.
    Minni hlutinn mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Jafnframt stendur minni hlutinn að breytingartillögum ásamt meiri hluta nefndarinnar eins og hér hefur áður komið fram á þskj. 312.
    Nú ætla ég að gera í örfáum orðum grein fyrir því í hverju þær efnisbreytingar eru fólgnar sem minni hluti nefndarinnar vill gera á frv. eins og það liggur fyrir.
    Fyrst á annað borð var farið að taka til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi frv. til laga um almannatryggingar þá var það skoðun minni hlutans að rétt væri að nota tækifærið og gera ýmsar breytingar sem horfa til bóta fyrir bótaþega, ýmis konar réttarbætur til að tryggja stöðu þeirra sem búa við erfiðustu aðstæðurnar og jafnframt örlítið er snýr að skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins.
    Í fyrsta lagi er lagt er til að við ákvörðun launa starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins verði tekið tillit til þess að þeir hafi stundað nám við tryggingaskóla stofnunarinnar, en gerð er tillaga um að kveðið verði á um stofnun slíks skóla í 9. gr. frumvarpsins, þ.e. í þeim brtt. sem minni hluti nefndarinnar leggur fyrir. Fyrir liggur að starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins búa almennt við léleg launakjör í samanburði við aðra opinbera starfsmenn. Samhliða því að gerðar verði til þeirra auknar kröfur um þekkingu og bætta þjónustu er hér lagt til að kjör þeirra verði bætt.
    Í þessu samhengi má minna á að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hélt ekki alls fyrir löngu fund með öllu starfsfólki stofnunarinnar þar sem hann lýsti yfir sérstökum áhuga sínum á því að hægt væri að ganga til móts við starfsmenn stofnunarinnar þar sem þeir byggju við sérstaklega bág kjör og erfiða starfsaðstöðu og tryggja þeim betri laun. Benti hann m.a. á samlíkingu við það sem gert var gagnvart starfsfólki sem starfandi er í fiskvinnslunni þar sem komið var á sérstökum starfsfræðslunámskeiðum sem er leið til kjarabóta. Því er það er lagt til hér að breyting verði gerð á 3. gr. og við hana bætist nýr málsl. sem hljóði svo: Nám við tryggingaskóla skal metið starfsmönnum til launahækkunar.
    2. Hér er lagt til að gert verði að skilyrði að trúnaðarmenn Tryggingastofnunar ríkisins hafi lokið námi frá tryggingaskóla stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að þeim starfsmönnum, sem þegar starfa sem trúnaðarmenn stofnunarinnar, verði gert að sækja námskeið við skólann og að námið verði metið þeim til launahækkunar, sbr. breytingu sem lögð er til á 3. gr.
    3. Lagt er til að í frumvarpið bætist ný grein, 9. gr., þar sem kveðið verði á um að á vegum Tryggingastofnunar ríkisins skuli starfræktur tryggingaskóli. Slíkir skólar eru starfræktir í nágrannalöndum okkar, oft í tengslum við aðrar menntastofnanir. Svið almannatrygginga er mjög flókið. Auk þeirra lagaákvæða, sem gilda á þessu sviði, hafa verið settar fjölmargar reglugerðir sem kveða nánar á um útfærslu einstakra bótaþátta. Mikilvægt er að opinberir þjónustuaðilar séu færir um að veita þeim sem til þeirra leita áreiðanlegar upplýsingar með litlum fyrirvara. Það á ekki síst við um bætur almannatrygginga þar sem þeir sem þeirra njóta byggja iðulega framfærslu sína á þeim. Lögð er áhersla á að haft verði fullt samráð við menntamálayfirvöld við stofnsetningu tryggingaskóla.
    4. Breytingin, sem lögð er til á 10. gr., er til samræmis við þá breytingu sem lögð er til varðandi skipan endurhæfingarlífeyris.
    5. Lagt er til að brott falli 3. mgr. 11. gr. Breytingin er byggð á sanngirnissjónarmiðum þar sem um er getið í almannatryggingalögum að svokölluð 90% regla er við lýði, þ.e. að ellilífeyrir einstaklinga sem eru í sambúð eða giftir skuli skerðast um 10%. Það eru ýmiss konar önnur atriði inni í almannatryggingalöggjöfinni, hvort sem er í lögum eða reglugerðum, sem gera ráð fyrir því að mismuna mjög milli þeirrar stöðu sem fólk hefur í þjóðfélaginu, þ.e. hvort fólk er í vígðri sambúð, gift eða einhleypingar. Dæmi má nefna um frítekjumörk hjóna sem eru hjá báðum hjónum 36.832 kr. á mánuði en hjá einstaklingi 26.308 kr. Þarna er augljóslega verið að mismuna. Í öðru lagi hafa einhleypingar eða þeir sem ekki njóta hagræðis af sambýli eingöngu og einvörðungu rétt á heimilisuppbót. Þegar á bótaflokka almannatrygginga og sérstaklega lífeyristrygginganna er litið þá er alveg ljóst að það eru mjög mörg skerðingarákvæði inni í almannatryggingalögunum gagnvart hjónum og fólki sem býr saman. Því er þessi breyting lögð til.
    6. Lagt er til að ákvæði um endurhæfingarlífeyri í 8. gr. frumvarps til laga um félagslega aðstoð verði skipað í frumvarp til laga um almannatryggingar. Öryrkjabandalag Íslands hefur gagnrýnt tilflutning bótanna og telja verður óeðlilegt að slíta í sundur örorkulífeyri og örorkustyrk annars vegar og endurhæfingarlífeyri, sem greiddur er öryrkjum, hins vegar. Þá er lagt til að greiðsla endurhæfingarlífeyris verði skyldubundin en ekki heimild eins og 8. gr. frumvarps til laga um félagslega aðstoð gerir ráð fyrir. Þess má einnig geta að endurhæfingarlífeyririnn er einn hlekkurinn í langri keðju fyrir það fólk sem er svo óheppið að verða fyrir slysum eða sjúkdómum, sem byrjar með því að fólk fær greidda sjúkradagpeninga sem eru í almannatryggingalögunum. Síðan tekur oft og tíðum við endurhæfingarlífeyrir sem færi þá út úr almannatryggingalögunum eins og frv. meiri hlutans eða ríkisstjórnarinnar og hæstv. heilbrrh. gerir ráð fyrir, inn í frv. um félagslega aðstoð. Síðan tekur við örorkulífeyrir eða örorkustyrkur sem er þriðja stigið í þessu en sá bótaflokkur er inni í almannatryggingalögum. Það er því eðlilegt að hafa endurhæfingarlífeyrinn inni í almannatryggingalöggjöfinni sem hluta af því ferli sem þarna er um að ræða.
    7. Hér er lagt til að foreldrum skuli tryggðar dánarbætur slysatrygginga við fráfall barna sinna hafi þeir á annað borð notið stuðnings þeirra. Heimild þessa efnis er í lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, og óeðlilegt þykir að fella hana niður, ekki síst þar sem slysabætur byggjast á iðgjaldagreiðslum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er hér um fámennan hóp að ræða. Því er um sáralítinn sparnað í raun og veru að ræða í því frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lagt hér fyrir þingið.
    8. Lagt er til að bætt verði við 36. gr. ákvæði um uppihaldsstyrk. Þetta ákvæði er nýmæli en ekki leikur vafi á því að landsmenn búa við mjög ójafnar aðstæður að þessu leyti. Ekki er einungis um það að ræða að íbúar í dreifbýli þurfi mjög oft að leita sér læknisþjónustu til höfuðborgarinnar heldur þarf stór hluti þjóðarinnar einnig að sækja þjónustu á milli staða innan síns landsvæðis. Af þessu getur hlotist verulegur kostnaður.
    Það má áætla að þessi útgjaldaauki Tryggingastofnunar ríkisins yrði í kringum 30 millj. kr. ef þessi tillaga gengi eftir. En þetta snýr kannski fyrst og fremst að lagtímasjúku fólki er þarf að dvelja hér langdvölum á stofnunum eða til að sækja læknisþjónustu utan sinna heimabyggðar, þeim einstaklingum sem með eru í för og verða fyrir tekjumissi.