Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 14:32:34 (2677)


[14:32]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir áliti heilbr.- og trn. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 10. þm. Reykv., er fulltrúi Kvennalistans í heilbr.- og trn. og þurfti hún að fara til útlanda á vegum Alþingis og gat því ekki verið við þessa umræðu. Ég ætla þess vegna að segja nokkur orð um það frv. sem hér er til umræðu en ætla ekki að fara ofan í málið með sama hætti og kannski hefði þurft að gera ef hún hefði verið hér sem hefur unnið þetta mál á vegum nefndarinnar. En eins og þingmenn muna þá var þetta frv. á dagskrá í gær en var frestað þangað til í dag sem gerði það að verkum að hún gat ekki verið vistödd þessa umræðu.
    En það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni var í fyrsta lagi að lýsa ánægju minni með þær breytingartillögur sem minni hluti nefndarinnar hefur lagt til að gerðar verði á frv. Mér heyrist nú hæstv. ráðherra vera harla ánægður með þær líka og get ég ekki annað en lýst ánægju minni með það hversu vel hann tekur í þær beytingartillögur sem þarna koma fram. Enda held ég að þær horfi allar til verulegra bóta. Vona ég að það verði til þess að meiri hluti nefndarinnar geti einnig mælt með samþykkt þeirra. Velti ég fyrir mér hvort það hefði ekki verið eðlilegt að nefndin liti aðeins nánar á þessar breytingartillögur. En þarna er lagt til m.a. að settur verði á stofn tryggingaskóli og eins og kom fram í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar þá hefur það verið nefnt einnig á fundum í Tryggingastofnun að því er hann hefur upplýst hér. Þannig að þetta mál virðist njóta víðtæks stuðnings. Ekki aðeins á hinu háa Alþingi heldur innan Tryggingastofnunar. Þarna er því verulega gott mál á ferðinni. Tryggingamálin eru geysilega flókinn og ég vil segja erfiður málaflokkur og í Tryggingastofnun eru mjög margir sem hafa mikla þekkingu en það er eins og annars staðar að ráða þarf nýtt fólk og það er nauðsynlegt að það fái þá þekkingu og færni með sem skjótustum hætti fyrir stofnunina sjálfa sem og fyrir það sjálft.
    Einnig er fólk Tryggingastofnunar margt hvert illa launað og þetta mundi þá geta hjálpað því til að fá ákveðna hækkun á sínum launum. Mér er kunnugt um að það eru fjölmargar konur sem vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins sem hafa verið þar um langan tíma og hafa mjög mikla þekkingu og færni og það væri auðvitað eðlilegt að ef slíkum skóla yrði komið á að það yrði gert eins konar stöðumat þannig að það fólk sem þar væri þyrfti ekki að byrja í fyrsta bekk heldur yrði reynt að koma því þannig fyrir að þeir sem hafa ákveðna þekkingu geti byrjað á þeim stað í þessum skóla, ef honum yrði komið á fót, sem passaði fyrir þá. Þannig að ég legg áherslu á að þessi breytingartillaga verði samþykkt.
    Það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni varðaði brtt. nr. 9, uppihaldsstyrkur til sjúklings og fylgdarmanns. Ég vildi minna á frv. sem flutt var á 110. löggjafarþingi og var vísað til ríkisstjórnarinnar en 1. flm. þess frv. var hv. þáv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Þetta var 363. mál þess þings og vildi ég minna á það þar sem þar er einmitt gert ráð fyrir að ferðastyrkur fari til uppihaldskostnaðar sjúklings og fylgdarmanns. Þetta mál er því gamall kunningi og fagna ég því að þetta er nú komið á þann rekspöl að það er komið inn í þessar breytingartillögur hér. Ég minni á að þessu frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og þá með því fororði að það væri verið að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og þess vegna væri eðlilegt að taka þessar tillögur inn í þá endurskoðun. Hæstv. ráðherra sagði einnig núna að það væri eðlilegt að taka þessar tillögur inn í þá endurskoðun sem nú væri verið að gera á almannatryggingalöggjöfinni og er ég búin að heyra þetta núna á hverju ári í nokkuð mörg ár. Eða held ég öll þessi sex ár sem ég hef setið hér á Alþingi og er nú mitt sjöunda ár hálfnað nærri því og enn heyri ég það frá hæstv. núv. ráðherra að nú sé verið að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og það sé von á henni innan tíðar en þetta hef ég heyrt eins og ég segi svo oft áður. Þetta er ekki neitt nýtt. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera bætur á tryggingalöggjöfinni eins og minni hluti heilbr.- og trn. hefur lagt til.
    Það eru aðeins nokkur atriði sem ég vil koma á framfæri varðandi frv. sjálft. Ég vildi líka spyrja hv. formann nefndarinnar um 15. og 16. gr. frv. eða reyndar aðra, sem hafa fjallað um málið í nefnd þar

sem ég kom ekki að þessu máli. Það eru þær greinar fyrst og fremst sem ég er að tala um í sambandi við þetta atriði. Þar stendur að fæðingarstyrks skulu þeir njóta sem lögheimili eiga hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði. Ég held að það séu engar breytingartillögur við þetta. Síðan kemur aftur í 16. gr. að foreldrar eigi fæðingarorlof sem lögheimili eiga hér á landi. Þetta vildi ég spyrja um vegna þess að þegar ég kom að þessu máli á sínum tíma --- nú hefur ýmislegt breyst reyndar á þessum árum, þ.e. þegar ég kom að þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði þá var lögð mikil áhersla á það af hálfu Evrópubandalagsins að t.d. fæðingarorlofs ætti fólk að njóta í því landi þar sem viðkomandi byggi. Þá var ekki talað um að það mætti áskilja lögheimili. Um þetta vildi ég spyrja hv. formann, því nú hlýtur nefndin að hafa farið ofan í þetta mál, hvort heimilt sé að áskilja með þessum hætti að fólk hafi lögheimili, að það sé ekki nóg að það hafi flust og hafi haft búsetu í ákveðinn tíma. Ég man sérstaklega eftir þessu með fæðingarorlofið þegar verið var að ræða um þetta. Þetta kemur einnig fyrir í 32. gr. frv. og þar er reyndar brtt. við það af hálfu nefndarinnar, þar sem kemur fram eins og segir í greininni, með leyfi forseta: ,,Sá sem eignast lögheimili í landinu, sbr. 1. gr. laganna um lögheimili, nr. 21/1990, verður sjúkratryggður einu ári eftir að lögheimilisbreytingin er tilkynnt`` og það er tillaga um að breyta þessu í sex mánuði. Ég vildi bara spyrja hvort það hafi verið sérstaklega kannað af því að eins og fram hefur komið hér af hálfu hæstv. ráðherra og kemur fram í frv. og lögð áhersla á að frv. sé vegna þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé að taka gildi um áramótin. Þannig að þetta vildi ég spyrja um.
    Síðan er það ein grein sem ég á mjög erfitt með að fella mig við og það er 66. gr. Nú sakna ég aftur formanns nefndarinnar hér í salinn til að geta spurt um þetta atriði. En í 66. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt`` --- og það er akkúrat þetta atriði sem ég vildi vekja sérstaka athygli á --- ,,að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar.``
    Þetta finnst mér gífurlega opin heimild. Ég átta mig eiginlega ekki á hvað í þessu getur falist. Ég veit að það eru ákveðnar tilskipanir sem sjálfsagt falla undir þetta og ég fletti í gegnum athugasemdirnar við frv. og það kemur ekki fram nægjanlega að mínu mati hvað þarna er á ferðinni. Ég tel þetta vera mjög opið. Það er raunverulega bara þannig að ef Evrópubandalagið breytir einhverri reglugerð um almannatryggingar þá eigum við að taka við því. Þá getur ráðherra, ef ég skil þetta rétt, birt þetta sem reglugerð án þess að um breytingar á lögum sé að ræða og það komi ekki fyrir Alþingi á neinn hátt. Þarna finnst mér vera farið fram hjá Alþingi nokkuð gróflega. Ég hef verið ein af þeim sem telja að það sé farið með þessum EES-samning mjög fram hjá Alþingi að því er varðar alla lagasetningu. Þ.e. að Alþingi sé stillt upp gagnvart þeim breytingum sem Evrópubandalagið krefur okkur um að gera. En í þessu er ekki einu sinni ætlast til þess að komi inn á Alþingi þær reglugerðir sem Evrópubandalagið setur á sviði almannatrygginga. Þetta langar mig til að spyrja hv. formann nefndarinnar um af því að þetta fannst mér nokkuð óskiljanlegt. Ég tók ekki eftir því að það væri gerð breytingartillaga að því er varðaði þetta og nú verð ég að spyrja þá sem hafa unnið þetta mál í nefndinni því ég trúi ekki öðru en einmitt þetta atriði hafi komið til umræðu.
    Síðan verð ég að viðurkenna það að mér er alltaf jafnilla við þessa grein um að lög þessi öðlist gildi um leið og samningurinn um EES. Það má vel vera að það sé nauðsynlegt í þessu tilviki en ef talið er nauðsynlegt og hægt er að færa rök að því að þetta sé góð breyting þá tel ég eiginlega ekki hægt að hafa slík ákvæði í lagasetningu. En þetta hefur nú greinilega ekki farið fyrir brjóstið á nefndarmönnum því að það er engin breytingartillaga gerð um að þetta ákvæði hljómi t.d. öðlast gildi 1. jan. 1994 eða eitthvað þess háttar sem hefði nú kannski verið eðlilegra að mínu mati. Og mér finnst svona alltaf leiðinlegt í lagasetningu. Þetta eru nú kannski svona viðbótarathugasemdir við það sem annars hefur komið fram bæði í nefndaráliti og framsögu fyrir minnihlutaálitinu og nokkrar spurningar sem ég vona að hægt sé að leysa úr hér á eftir í umræðunni.