Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 15:15:54 (2686)


[15:15]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn. um frv. til laga um félagslega aðstoð. Nál. er á þskj. 372. Minni hlutann skipa auk þess sem hér stendur hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Brtt. eru einnig fluttar af minni hluta nefnarinnar og þær eru á þskj. 373.
    Eins og fram hefur komið hjá hv. formanni heilbr.- og trn. þá stendur minni hluti nefndarinnar einnig að þeim brtt. sem nefndin í heild flytur. Það voru gerðar nokkrar breytingar á frv. í meðförum nefndarinnar og allar eru þær að mati minni hlutans til bóta þannig að nefndarmenn sem nú skipa minni hluta standa að þeim brtt. með meiri hlutanum.
    Það kom hér fram í umræðunni um almannatryggingalagafrv. að sú regla sem sett hefur verið upp um þau skilyrði sem talið er nauðsynlegt að séu fyrir því að hægt sé að flokka bætur sem bætur félagslegrar aðstoðar standast ekki í öllum tilfellum þegar menn fara að raða bótaflokkunum upp eftir almannatryggingum eða frv. um félagslega aðstoð. Það sem vakti fyrir minni hlutanum með þeim tillöguflutningi sem hér er lagður til í brtt. á þskj. 373 er fyrst og fremst það að það voru þó nokkrir bótaflokkar í almannatryggingalögunum sem flytjast yfir þar sem bótaréttur einstaklinganna var tryggður. En með þeirri breytingu sem nú er gerð með þessu frv. þá er sá réttur þurrkaður í burtu en heimildir koma í staðinn. Í ljósi þess að nú er verið að skipta almannatryggingalögunum upp í almannatryggingar og frv. um félagslega aðstoð og félagslegi þáttur málsins gæti hugsanlega seinna meir lent yfir á verkefnansviði sveitarfélaganna þá fannst minni hlutanum það eðlilegt til að tryggja réttinn örugglega gagnvart þessum einstaklingum þannig að ef þetta flyttist yfir til sveitarfélaganna að einstaklingarnir byggju ekki við mismunandi rétt eftir því í hvaða sveitarfélögum þeir byggju ef heimildarákvæðin gilda. Það væri auðvitað mjög alvarlegur hlutur.
    En þær brtt. sem minni hlutinn leggur til við frv. eru:
    1. Lagt er til að niður verði felld heimild til tekjutengingar í 2. mgr. 1. gr. Talið er varasamt að fela stjórnvöldum á hverjum tíma, með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir, að ákvarða forsendur fyrir rétti manna til að njóta grundvallarbóta almannatrygginga með þessum hætti. Þ.e. það er verið með þessum hætti að fá almenna heimild til tekjutengingar á öllum þeim bótum er um getur í því frv. sem hér er til umræðu.
    2. Lagt er til að ákvæðum 2.--7. gr. og 9. gr. verði breytt á þann hátt að bótagreiðslur byggist á rétti bótaþega, en ekki verði einungis um heimildarbætur að ræða eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Um þetta efni vísast að öðru leyti til nefndarálits minni hlutans með frumvarpi til laga um almannatryggingar sem áður hefur verið gerð rækilega grein fyrir í umræðunni um almannatryggingalagafrv.
    3. Lagt er til að 5. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að kveðið verði á um að sá sem annast elli- eða örorkulífeyrisþega á heimili sínu og getur af þeim sökum ekki stundað fulla vinnu sér til framfæris eigi rétt á umönnunarbótum. Slíkar umönnunarbætur eru nýmæli og er ætlað að koma í stað makabóta. Upphæð bótanna er samanlögð upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar almannatrygginga. Um þetta mál hafa hér áður komið fram frv. á Alþingi að ég hygg bæði frá Ástu R. Jóhannesdóttur, varaþingmanni Framsfl., og Málmfríði Sigurðardóttur, fyrrv. hv. þm. Kvennalistans. Þannig að sú tillaga sem minni hlutinn leggur hér til er efnislega samhljóða þeim lagafrv. sem hafa áður komið fram. Það er gert ráð fyrir því í brtt. að umönnunarbæturnar verði 35.013 kr. á mánuði sem er sú upphæð er tekjutrygging og ellilífeyrir samanlagt gera. Hugsunin er sú að í staðinn fyrir að oft og tíðum þurfi að senda fólk beint inn á stofnanir þá geti aðstandendur þessa fólks annast það heima og fengið greiðslur fyrir. Það eru svokallaðar makabætur í núgildandi almannatryggingalögum sem gera ráð fyrir því að maki viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþega geti fengið greitt 80% af ellilífeyri og tekjutryggingu samanlagt en það er einskorðað algerlega við það að um maka sé að ræða. Með þessu er því verið að útvíkka heimildina og greinin orðast svo í brtt. minni hlutans:
    ,,Maki eða sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum einungis stundað vinnu utan heimilis að takmörkuðu leyti á rétt á umönnunarbótum er nemi allt að 35.013 kr. á mánuði. Bæturnar skerðast sem nemur tekjum af vinnu utan heimilis og öðrum greiðslum skv. lögum þessum.``
    Með þessu er í raun og veru verið að spara stórkostlega fjármuni í heilbrigðis- og tryggingamálunum. Það er verið að koma í veg fyrir það í mörgum tilfellum að þurfa að senda elli- og örorkulífeyrisþega inn á stofnanir þar sem vistun getur verið mjög dýr. Það er verið með þessu að spara í atvinnuleysistryggingunum líka með því að fólk sem er úti á vinnumarkaðnum finnst jafnvel betra að fara að vinna inn á heimili og annast þann sem er kannski þar sjúkur heima og rýma þannig til fyrir öðrum á vinnumarkaði sem jafnvel hafa verið á atvinnuleysisbótum. Þannig að þarna er um tillögu um sparnað að ræða og ekki síður tillögu sem veitir aukinn rétt og þegar það tvennt fer saman, aukinn réttur og sparnaður, þá er það vafalaust af hinu góða og ekki síst vonast ég til að það hljómi vel í eyrum sannra jafnaðarmanna. ( GunnS: Allra flokka.) Allra flokka, það er rétt hjá hv. form. heilbr.- og trn., hvar í flokki sem þeir ágætu jafnaðarmenn nú eru.
    4. Lagt er til að gerð verði sú grundvallarbreyting á 7. gr. frumvarpsins að í stað réttar til ekkjulífeyris verði kveðið á um rétt til makalífeyris. Fram að þessu hafa konur einar átt rétt á lífeyri frá hinu opinbera vegna fráfalls maka síns. Sú skipan sem frumvarpið gerir ráð fyrir og verið hefur í lögum um langt skeið samræmist ekki þeim hugmyndum sem fólk hefur í dag um jafnrétti kynjanna, sem hlotið hafa staðfestingu í lögum nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Draga verður í efa að 7. gr. frumvarpsins standist ákvæði þeirra laga. Þá má telja líklegt að ákvæði frumvarpsins standist ekki jafnréttistilskipun EB 76/207. Þá er lagt til að brott verði felld heimild til niðurfellingar ekkjulífeyris ef ekkja tekur upp óvígða sambúð. Samkvæmt íslenskum rétti skapast ekki gagnkvæm framfærsluskylda með óvígðri sambúð og því verður að telja óeðlilegt að óbreyttu að ekkjulífeyrir falli niður við þær aðstæður.
    Þessi brtt. skýrir sig nú að öllu leyti sjálf að mínu viti.
    5. Lagt er til að 8. gr. frumvarpsins verði skipað í frumvarp til laga um almannatryggingar ásamt öðrum ákvæðum um bætur til öryrkja. Ekki verður séð hvaða rök mæla með því að skilja í sundur þær bætur sem öryrkjum eru ætlaðar með þeim hætti sem frumvörpin gera ráð fyrir.

    Þetta fjallaði ég örlítið um hér áðan í mínu máli þegar ég var að benda mönnum á hvað þetta þýddi í raun og veru ef menn vildu horfa á sjúkradagpeningana, endurhæfingarlífeyrinn og örorkulífeyrinn eða örorkustyrk heildstætt og velta því fyrir sér hvaða tímabil getur myndast þarna á meðan viðkomandi einstaklingur er á endurhæfingarlífeyri þar sem hann yrði bótalaus ef þessu er skipað með þessum hætti.
    Þrátt fyrir að nefndarstarfi heilbr.- og trn. sé lokið í þessu máli og eins og hv. formaður kvaddi okkur á fundinum í morgun að nú væri þessu lokið fyrir jól þá tel ég þegar menn hafa þetta í huga og til þess að það væri hægt að skapa kannski enn ríkari samstöðu um þetta mál þá væri skynsamlegt að mörgu leyti að menn settust niður og veltu því fyrir sér hvort ekki mætti færa þarna til eða öllu heldur að samþykkja þessa einu brtt. minni hlutans og ég held að það gæti nú ekki talist glæpsamlegt athæfi af hálfu meiri hlutans þó að svo sem ein brtt. væri nú kannski samþykkt hér fyrir jólin sem jólagjöf til þeirra sem þurfa við að búa. En ég vil að lokum þakka formanni nefndarinnar sem og meiri hlutanum og ekki síst þeim ágæta minni hluta sem flytur þær brtt. sem hérna eru og þó ekkert síður meiri hlutanum fyrir samstarfið í nefndinni það sem af er þessu þingi.