Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 15:27:25 (2687)


[15:27]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Hv. 11. þm. Reykv. Finnur Ingólfsson hefur gert grein fyrir áliti minni hlutans í þessu máli. Það gildir sama um þetta mál og það fyrra að fulltrúi Kvennalistans í hv. heilbr.- og trn. er fjarri í dag vegna starfa erlendis á vegum Alþingis og þess vegna ætla ég að segja nokkur orð hér þar sem hún getur ekki tekið þátt í þessari umræðu.
    Ég vil leggja áherslu á það sem kemur fram í nál. og hv. 11. þm. Reykv. er búinn að gera grein fyrir að við kvennalistakonur teljum ekki hægt að hafa þetta frv. með þeim hætti sem hér er en eins og fram kemur þá er í hverri einustu grein nánast talað um heimilt er, heimilt er, heimilt er. Við teljum að þetta eigi að vera réttur eins og breytingartillögur gera ráð fyrir. Það verði að vera réttur til bóta. Þetta er ákaflega mikilvægt og raunar ótrúlegt að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi lagt þetta til með þessum hætti sem fram kemur í þessu frv. og meiri hluti nefndarinnar skuli hafa tekið undir það álit.
    Við treystum okkur ekki til að styðja að þetta sé inni í þessu frv. með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og vonumst nú til að meiri hluti Alþingis sjái að þetta gengur ekki upp og það verður að gera þetta frv. þannig úr garði að hagsmunir öryrkja og fleiri séu ekki fyrir borð bornir eins og ég tel að þetta frv. feli í sér. Því breytir ekki sú yfirlýsing sem kom fram hjá ráðherra við 1. umr. þegar hann sagði að ekki væri meiningin að breyta fyrirkomulaginu frá því sem nú er. Það er yfirlýsing frá þeim ráðherra sem nú situr en þetta frv., ef að lögum verður, stendur áfram hvort sem þessi ráðherra verður áfram í þeim stóli sem hann nú situr í eða ekki þannig að það verður að gera lög þannig úr garði að þau séu með þeim hætti sem meiri hluti Alþingis telur rétt að þau séu. Og samkvæmt því sem ráðherrann sagði við 1. umr. þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fella burtu öll þessi heimildarákvæði og gera þau að ákveðnum rétti.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson gerði einnig grein fyrir brtt. og vil ég aðeins gera að umtalsefni eina breytingartillöguna en það er brtt. nr. 5, um að maki eða sá sem heldur heimili, eigi rétt á umönnunarbótum. Eins og hv. þm. sagði frá var flutt á 112. löggjafarþingi frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem Málmfríður Sigurðardóttir, hv. þm. Kvennalistans, ásamt öðrum kvennalistakonum sem þá voru í neðri deild fluttu hér, þar sem gert er ráð fyrir að maki eða annar heimilisfastur einstaklingur sem annast elli- og örorkulífeyrisþega eigi rétt á umönnunarbótum.
    Mig langar einnig að segja frá því, ekki síst í ljósi þess að nú á að fara fram endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni, að Kvennalistinn gerði á sínum tíma einnig ráð fyrir, í því frv. sem ég nefndi áðan, að einstaklingur sem ekki hefur getað stundað vinnu vegna umönnunar elli- og örorkulífeyrisþega eigi eftir ákveðinn árfjölda rétt á styrk til starfs- eða endurmenntunar vegna þess að í mörgum tilvikum eru þeir sem hafa þurft að taka á sig störf á heimili vegna barna, foreldra eða annarra veikra einstaklinga eða örorkulífeyrisþega oft mjög illa settir þegar út á almenna vinnumarkaðinn kemur og þurfa á endurhæfingu að halda. Ég vil bara nefna þetta hér til þess að minna á þetta ákvæði sem hv. þáv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir vakti athygli á. Hún benti á að það væru víða svokallaðar foreldraekkjur, konur sem oft hafa ílengst heima eða nánast frosið heima vegna þess að þær hafa ekki komist frá vegna aldraðra foreldra. Þetta er sem betur fer í minna mæli núna en var, þetta var mjög algengt hér áður fyrr og þess vegna legg ég mikla áherslu á að þetta verði tekið upp eins og gert er ráð fyrir með brtt. minni hlutans.
    Ég vil hins vegar leggja áherslu á að með þessu og ég vil taka það sérstaklega fram vegna orða hv. þm. Finns Ingólfssonar að ég tel ekki eins og mátti skilja hans orð, að með þessu sé verið að fjölga störfum á almennum vinnumarkaði. Ég lít ekki svo á vegna þess að þarna er alls ekki verið að senda konur heim heldur er verið að auka rétt þeirra sem þegar eru bundnir yfir þeim sem eru elli- eða örorkulífeyrisþegar. Þarna er því verið að veita fólki sjálfsagðan rétt en alls ekki verið, og það tek ég sérstaklega fram, að ætlast til þess að fólk og þá oftast konur fari heim af hinum almenna vinnumarkaði til þess að hugsa um aldraða öryrkja eða börn. Ég lít ekki svo á að það sé rétt stefna. Auðvitað á það að vera val þeirra sem vilja hugsa um foreldra sína eða aðra sem búa á heimilinu að þeir geti þá fengið bætur til þess

að geta gert það, en ég lít jafnframt svo á að þetta megi alls ekki notast á þann hátt að konum sé ýtt út af vinnumarkaðinum inn í slíkt hlutverk.
    Þetta vildi ég taka fram, virðulegur forseti, og kannski ekki síst í ljósi þess að ákveðin umræða hefur farið fram, t.d. hér í Reykjavíkurborg og jafnvel víðar, að rétt sé eins og það hefur stundum verið kallað að greiða konum fyrir að vera heima. Ég lít ekki svo á, að það sé verið að gera það með þessari brtt. eða því frv. sem Kvennalistinn lagði fram á sínum tíma.
    Þetta vildi ég nú bara taka fram hér, virðulegur forseti, og tel að þær brtt. sem minni hluti og reyndar meiri hluti líka að hluta til lagði til á þessu frv. séu til bóta. Það verður að breyta þessum heimildarákvæðum í frv. það er það mikilvægasta og síðan þessu ákvæði um tekjutengingu í 1. gr. frv. Það tel ég að sé nauðsynlegt til þess að hægt sé að greiða þessu frv. atkvæði.