Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 15:48:25 (2691)

[15:48]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst langar mig í örfáum orðum að gera að umtalsefni vangaveltur hv. síðasta ræðumanns vegna 12. gr. frv. um félagslega aðstoð er lýtur að endurgreiðslu vegna lyfja- og læknishjálpar er talin sé umtalsverð eða óhófleg ef menn vilja orða það svo. Eins og fram hefur komið hér í hinu háa Alþingi hef ég þegar gert grein fyrir því hvernig staðið var að framkvæmd þessarar endurgreiðslu sem forveri minn í embætti, hæstv. fyrrum heilbrrh., auglýsti eftir eins og fyrri ræðumaður gat réttilega um. Á þeim reglum sem þar var farið eftir geta ýmsir haft ólíkar skoðanir um hvar skurðarpunktar eigi að vera í þeim efnum. Ég gat um það að umsækjendur voru í kringum 500 talsins og endurgreiðslu nutu að hluta um 120 einstaklingar.
    Ég gat þess líka að það yrði fróðlegt að fylgjast með því hvort fullyrðingar á borð við þær sem hér komu fram áðan standast, að einstaklingar hefðu ekki haldið til haga kvittunum og nótum sem nauðsynlegar eru til þess að sýna fram á sannanlegan útlagðan kostnað. Fullyrt var að þær hefðu farið forgörðum og því verður fróðlegt að átta sig á því þegar seinni sex mánuðir þessa árs verða gerðir upp með sviplíka hætti í ársbyrjun 1994, hvort sá fjöldi sem um sækir verður meiri en í þessari fyrstu umferð. Auðvitað er þarna verið að stíga áður óþekkt skref og heilbrrn. mun sýna ákveðinn sveigjanleika og breyta að breyttu breytanda og væntir þess að það geti átt gott samstarf við þingið um það og þá einkanlega hv. heilbr.- og trn. um aðlögun að þeim efnum.

    Varðandi frv. almennt þá hygg ég að það sé ástæðulaust að orðlengja frekar um það álitaefni sem efst er á baugi varðandi þetta frv. og það gengur aftur í þeim orðum sem féllu hér í umræðum um almannatryggingalöggjöfina að menn skiptast nokkuð í sveitir um það hvort um eigi að vera að ræða heimildarákvæði og í annan stað hvort það eigi að vera ákvæði um heimild til tekjutengingar. Mér heyrist á öllu að þarna sé nokkur vík milli vina þó að í andanum tali nú flestir ræðumenn í þá veru, hvort heldur þeir eru frá meiri eða minni hluta heilbr.- og trn., að tekjutengingarákvæði sé ákveðið réttlætismál, ekki síst í ljósi þess að fyrri ríkisstjórnir hafa gengið þann veg. Því læt ég frekar ósagt um þær efnisbreytingar sem fram koma frá minni hluta heilbr.- og trn. og koma fram í 1. og 2. gr.
    Hvað varðar 3. gr. í greinargerð heilbr.- og trn. og lýtur að umönnunarbótum þá er þar auðvitað um mjög stórt mál að ræða, ekki einasta er lýtur að ákveðnum grundvallarspurningum varðandi jafnrétti eins og hv. þingmenn fyrr í umræðunni hér tóku tal saman um. Þessu svipar að sumu leyti til þeirra hugmynda sem hafa átt sér rætur hér í henni Reykjavík hjá meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur að greiða mæðrum ákveðna mánaðarlega upphæð til að vera heima hjá börnum sínum og ég hef ekki heyrt betur en um það séu býsna skiptar skoðanir svo ekki sé meira sagt. Þannig að það sem hér er verið að leggja til er í því samhengi ekki ósvipað og út af fyrir sig ekki aðalatriði málsins. Og eins og réttilega hefur hér komið fram þá er tiltölulega nýtt af nálinni að umönnunarbætur sem nú er í gildi og unnið er eftir og lúta að sjúkum eða foreldrum sjúkra og fatlaðra og það var vissulega mætt þar knýjandi þörf. Þær eru tiltölulega nýjar af nálinni en þar er verið að opna mjög þennan rétt og ef ég skil tillögu minni hluta heilbr.- og trn. rétt þá er ekki gerð tillaga um tekjutengingu eða að skoða aðstæður hverju sinni, heldur sé þarna um skilyrðislausan rétt að ræða.
    Maður spyr líka um það hvernig meta eigi sönnunarbyrði í því sambandi þegar væntanlega einstaklingar halda því fram að þeir geti ekki stundað fulla vinnu eða hlutavinnu vegna þess að skyldmenni eða foreldrar eru sjúkir og hann þurfi að líta til með þeim og hafi þar með skýlausan rétt til greiðslu umönnunarbóta. Þetta eru auðvitað tæknileg atriði sem vissulega væri hægt að vinna sig fram úr með reglugerðarsmíð og með yfirlegu. En kannski er nú lykilspurningin þessi hvort tillöguflytjendur hafi reynt að leggja mat á það hversu mikið umfang þetta kynni að verða, bæði í krónum talið og að öðru leyti til.
    Sá samanburður sem átti sér stað hjá hv. síðasta ræðumanni varðandi vistun á Skjóli annars vegar og þjónustu sem sinnt yrði með þessum hætti á auðvitað ekki alls kostar við eða a.m.k. ekki í öllum tilvikum. Hvað Skjól varðar er verið að tala um hjúkrunarheimili og þar með sjúka aldraða. Hins vegar er miklu lægri kostnaður meðfylgjandi vistrými þannig að kannski ætti sá samanburður frekar við í þessu sambandi heldur en sá er þingmaðurinn gerði hér grein fyrir.
    Ég vil líka rifja það upp í þessu samhengi að það er ekki eins og ekkert sé gert í þessum efnum og hér vil ég nefna til sögu heimahjúkrun sem er eitt af mörgum úrræðum samfélagsins til þess að mæta þörfum þessa fólks. Ég held að flest séum við um það sammála að það sé nokkur nauðsyn og raunar brýn nauðsyn á því að breyta um áherslur hér í öldrunarmálunum hvað þessu viðvíkur og gefa öldruðum kost á því að vera heima hjá sér eins lengi og nokkrar aðstæður eru til. Sveitarfélögin koma þar líka inn í og veita heimilishjálp og ýmsa félagslega hjálp raunar líka þannig að það er raunar sitthvað sem þegar fyrir liggur. Þess vegna árétta ég það að hér er auðvitað á ferðinni gríðarlega stórt mál. Og kannski mál sem maður horfir til að verði í heild og breidd a.m.k. hvað aldraða varðar á vettvangi sveitarfélaga fyrr en síðar. Það eins og raunar hefur komið fram hér fyrr í umræðunni á raunar við um nokkra fleiri bótaflokka þessa frv. til félagslegrar aðstoðar og ber að skoða í því samhengi. Þess vegna vil ég árétta það að ég held að þetta stóra mál sé auðvitað eitt af þeim sem eiga að koma til skoðunar á nýju ári og ég vil taka af öll tvímæli í því að það hlýtur að liggja í hlutarins eðli og ég mun beita mér fyrir því að svo verði að þegar heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar fer fram á nýju ári þá hljóta þau ákvæði sem hér eru í því frv. sem við hér ræðum, frv. til félagslegrar aðstoðar, að koma til skoðunar líka, ekki kannski síst í ljósi þess að það eru uppi álitamál um hvar þessir skurðarpunktar eigi að vera og kannski verða þau álitamál alltaf uppi og eiga kannski alltaf að vera uppi, ég skal ekki fullyrða um það.
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ástæða sé til þess að fara mörgum orðum um þær brtt. sem hér hafa komið fram varðandi ekkjulífeyri. Undir öðrum formerkjum hafa þau mál nokkuð verið rædd og þar hefur komið fram í forsendum fjárlagafrv. fyrir komandi ár að fyrirhugað er að tekjutengja þær bætur. Kann að vera að ýmsir séu því ósammála en allt að einu er það til samræmis við aðra bótaflokka og ekki síst þegar þetta frv. sem hér um ræðir verður að lögum. Hér er hins vegar gerð sú grundvallarbreyting að bæði kynin standi jafnfætis í þessu sambandi og það er auðvitað réttlætismál að vissu marki. Spurning er hins vegar sú við þá endurskoðun sem ég talaði um áðan hvort þessi bótaflokkur í heild sinni eigi ekki með öðrum orðum að taka breytingum og jafnvel hverfa og menn mæti þeim erfiðleikum sem þarna skapast með öðrum hætti.
    Ég vek auðvitað á því athygli sem ég hygg að flestum sé kunnugt að ekkla- og ekkjubætur eru ákveðin tilraun samfélagsins til þess að milda þau fjárhagslegu áföll sem ekkjur og ekklar verða fyrir strax við fráfall maka. Ekkjulífeyririnn hefur hins vegar verið hugsaður þannig að hann geti staðið jafnvel hátt á annan áratug og sé til þess að mæta því fjárhagslega áfalli sem viðkomandi kann að verða fyrir við ákveðnar aðstæður. Ég gat þess hins vegar að sá bótaflokkur varð kannski til fyrst og síðast vegna þess að áður fyrr voru konur meira og minna heimavinnandi í miklu ríkara mæli en nú er og það gaf auga leið

miðað við þær aðstæður að þegar fyrirvinna féll frá urðu gerbreytingar á högum og fjárhagslegri stöðu þessara kvenna. Ég veit því ekki hversu skynsamlegt er á þessu stigi málsins að ganga til þessara verka eins og hér er lagt til að færa þetta einfaldlega yfir á bæði kynin og að öðru leyti vera með status quo á þessum bótaflokki. Ég held að þvert á móti eigum við að skoða mjög gaumgæfilega stöðu þessa hóps og kanna það til hlítar hvort jafnvel sé ekki skynsamlegra að mæta þeim þörfum sem vafalaust eru þar ríkar í ákveðnum tilvikum með öðrum hætti. Þessu varpa ég hér fram til umhugsunar og vænti þess að fulltrúar allra flokka geti tekið þetta atriði og önnur þau sem hér hafa verið nefnd og enn önnur sem ekki hafa verið nefnd hérna til ítarlegrar skoðunar við heildarendurskoðun þessara mála á nýju ári.