Félagsleg aðstoð

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:03:34 (2693)


[16:03]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. svaraði fyrirspurn minni varðandi það hvaða reglum yrði farið eftir varðandi óhóflegan kostnað vegna lyfja og læknisþjónustu og ef ég skildi hann rétt þá sagðist hann fara eftir þeim sömu reglum og var farið eftir í haust. Mér finnst nauðsynlegt í því sambandi að þessar reglur séu auglýstar vel og eflaust hefur hann undirbúið það því að það er mikilvægt að fólk haldi þessum reikningum sínum til haga og viti nákvæmlega hvernig þessar reglur eiga að vera og eru.
    Varðandi umönnunarbæturnar þá hefur hv. þm. Finnur Ingólfsson farið yfir kostnaðinn varðandi það eða bent á gögn sínu máli til stuðnings en ég minni aftur á hvað það getur verið mikill sparnaður af þessum umönnunarbótum. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um það að þetta er mjög viðkvæmt mál og sönnunarbyrðin getur verið erfið í þessu tilviki. Og það kann að vera að það sé rétt að þetta séu heimildarbætur. En varðandi jafnréttið, sem hann kom inn á, þá er þetta auðvitað jafnt fyrir karla og konur, þann aðila sem sér um sinn nánasta og hefur ekkert með konur sérstaklega að gera þó það sé þannig og verði að viðurkennast að þær eru seigari við það að hjúkra heima heldur en karlarnir svona almennt, þá er þessi tillaga okkar þannig uppfærð að hún er fyrir bæði kynin.
    Það er líka rétt sem kom fram hjá ráðherra varðandi heimahjúkrun að hún hefur aukist verulega og hún er mjög til góðs gagns. En það má ekki gleymast að það er ekki til nein heimahjúkrun sem heitir sólarhringshjúkrun og þar kemur aðstandandinn einmitt til skjalanna og þessar umönnunrbætur sem við er um að leggja hér til að verði samþykktar.