Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 16:27:37 (2695)

[16:27]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda.
    Eins og alkunna er var leyfilegur heildarafli af þorski lækkaður úr 205 þús. lestum á síðasta fiskveiðiári niður í 165 þús. lestir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þessi samdráttur hefur í för með sér mjög alvarlega tekjuskerðingu fyrir sjávarútveginn í heild og þá einkum þær útgerðir sem háðar eru þorskveiðum. Þessi 40 þús. lesta samdráttur leyfðs heildarafla er mun tilfinnanlegri vegna þess að hann kemur til viðbótar þeirri skerðingu á þorskafla sem þurft hefur að grípa til á undanförnum árum vegna lélegrar nýliðunar þorskstofnsins.
    Þegar ákvörðun var tekin í lok júní sl. um leyfðan heildarafla á því fiskveiðiári sem nú stendur yfir ákvað ríkisstjórnin að grípa til ýmissa aðgerða til að mæta áhrifum aflasamdráttarins á afkomu sjávarútvegs og þjóðarbús. Var þar um að ræða 7,5% lækkun á gengi krónunnar og frestun afborgana á lánum sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt var boðað að flutt yrði frv. um ráðstöfun á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs til að jafna mismunandi áhrif aflaskerðingarinnar. Skv. lögum nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, ræður sjóðurinn árlega yfir 12.000 þorskígildislestum. Er með frv. þessu lagt til að þessum aflaheimildum verði úthlutað án endurgjalds til útgerða þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári. Hrökkva þær til að bæta að fullu þá skerðingu aflamarks milli fiskveiðiáranna sem umfram er 9,8% í þorskígildum talið. Ganga aflaheimildir sjóðsins á yfirstandandi ári nær óskertar til þessara bóta en sveitarfélögum nýttist í haust forkaupsréttur á aðeins 162 lestum. Er aðferðin við ákvörðun bótanna nákvæmlega sú sama sem viðhöfð var sl. vor þegar hliðstæðum bótum var úthlutað með bráðabirgðalögum nr. 86/1993, sbr. lög nr. 112/1993, vegna skerðingar aflaheimilda á fiskveiðiárinu sem hófst 1. sept. 1992. Eru það fyrst og fremst þær útgerðir sem háðastar eru þorskveiðum sem bótanna munu njóta en alls mun 781 fiskiskip fá úthlutað viðbótaraflamarki nái frv. fram að ganga. Við úthlutunina er miðað við aflahlutdeild einstakra skipa 7. þessa mánaðar og tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á leyfðum heildarafla frá upphafi þessa fiskveiðiárs. Hefur þar nokkur áhrif úthlutun viðbótarkvóta af loðnu sem fram fór í upphafi þessa mánaðar sem veldur því að loðnuskip eru nú almennt ekki meðal þeirra skipa sem verða aðnjótandi bótanna.
    Frú forseti. Ég legg svo til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.