Afgreiðsla frumvarps um almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 20:50:45 (2701)


[20:50]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Hér rétt í þessu var afgreitt við 2. umr. frv. til laga um almannatryggingar og þar kom til atkvæðagreiðslu ákvæði 66. gr. þess frv. sem eins og hv. alþm. þekkja hljóðar svo:
    ,,Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar.``
    Þegar athugasemd við þessa frvgr. er skoðuð kemur í ljós að hér er ekki aðeins verið að tala um þær reglugerðir sem nú liggja fyrir, heldur er ljóst af orðalagi athugasemdanna að hér er átt við reglugerðir sem síðar kunna að verða settar. Ráðherra hefur með þessu fengið heimild til þess að gefa út reglugerðir sem öðlast lagagildi án þess að til þess sé aflað sérstakrar lagaheimildar hér á Alþingi.
    Ég held að sérhver lögfróður maður sem skoðar þetta mál geti ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að hér sé um alveg skýrt og ótvírætt stjórnarskrárbrot að ræða. Það er alveg útilokað mál að að sé hægt með lagaheimild að veita ráðherra vald af þessu tagi. Þess vegna fer ég eindregið fram á það við virðulegan forseta að hann sjái til þess að þetta mál verði skoðað nánar milli 2. og 3. umr. og nefnd fái það til athugunar og gengið verði úr skugga um það að ekki sé hér um berlegt stjórnarskrárbrot að ræða, eins og mér persónulega sýnist. Ég vildi eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta, vegna þess að ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða og það megi ekki dragast að þetta mál sé skoðað áður en frv. gengur hér til lokaafgreiðslu.