Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:04:12 (2704)

[21:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði að því hver væri helsti munurinn á því frv. sem hér er til umræðu og þeim tillögum sem þingmenn úr stjórnarandstöðu fluttu fyrir ekki löngu síðan. Það er rétt að upplýsa það hér, því af ræðu hv. þm. mátti ráða að hann hefði ekki farið yfir efnisatriði frv. á þann veg að hann hefði glöggvað sig á þeim mismun, að mismunurinn er m.a. í því fólginn að nú koma loðnuskipin ekki inn í þessa úthlutun, en í þeim brtt. sem stjórnarandstöðuþingmennirnir fluttu hér á dögunum var gert ráð fyrir því að loðnuskip fengju hluta af þessum uppbótum. Í þessu frv. er það ekki á þann veg. Uppbæturnar koma ekki til þeirra, þannig að hin hefðbundnu bolfiskveiðiskip fá stærri hluta af þessum uppbótum en hefði orðið ef brtt. stjórnarandstöðunnar hefði verið samþykkt á dögunum. Þetta er helsti munurinn á þessum tveimur tillögum, hv. þm.