Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:24:54 (2709)


[21:24]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er tilbúinn til þess að liðka fyrir afgreiðslu þessa máls og ég hefði svo sannarlega viljað sjá það fyrr á borðum okkar þingmanna, því hér er um réttlætismál að ræða miðað við þá stöðu sem nú er í sjávarútveginum. Ég ætla ekki að hefja hér almennar umræður um stjórn fiskveiða, en ég vil þó segja að það er undrunarefni hversu erfiðlega það hefur gengið fyrir núv. ríkisstjórn að koma frá sér þýðingarmiklum málum sem snerta sjávarútveginn og fyrst og fremst er ég að tala um stjórn fiskveiða. Menn eru að kvarta yfir því, einnig þeir ræðumenn sem hafa talað á undan mér um þetta mál. En eitt virðist mér þó hafa unnist með þeim tíma sem farið hefur í að vinna í þessu máli hjá núv. ríkisstjórn að mér sýnist og harma það að allir flokkar hér á Alþingi hafi náð samstöðu um eitt atriði í þessu frv. ríkisstjórnarinnar nema Framsfl., en það er að koma því fram að leggja auðlindaskatt á íslenskan sjávarútveg. Ég sé ekki betur en allir flokkar á Alþingi hafi náð saman um það mál. Ég verð að segja að það eru mér mikil vonbrigði ef það skyldi vera svo að mikill meiri hluti skuli orðinn fyrir því í flokki sjálfstæðismanna, eins og mér virðist koma fram nú síðustu daga.
    Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um stjórn fiskveiða, en við framsóknarmenn munum gera það þegar það kemur til umræðu. Það er greinilegt að samstaðan í ríkisstjórninni er ekki enn þá nægjanleg fyrir þessu máli og yfirlýsingar, ekki bara þingmanna heldur ráðherra ríkisstjórnarinnar, eru svo misvísandi að ég sé það raunverulega ekki eða skil hvernig hæstv. sjútvrh. ætlar að koma málinu í gegnum þingið að óbreyttu. En ég vil undirstrika að það er þá umhugsunarefni fyrir þá sem í þessari atvinnugrein starfa að nú við þær aðstæður sem í þjóðfélaginu eru og við þær aðstæður sem þessi grein, sjávarútvegurinn, hefur mátt búa allan þann tíma sem núv. ríkisstjórn hefur starfað, vonlausa rekstrarstöðu, að þá skuli menn láta sér detta það í hug og það allir flokkar á Alþingi, nema framsóknarmenn, að ætla að fara að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn.
    Ég spyr hér einu sinni enn, ég er búinn að spyrja oft um það úr ræðustól: Með hvaða peningum á íslenskur sjávarútvegur að borga þennan auðlindaskatt þegar hann er rekinn með endalausu og stjórnlausu tapi, þannig að það blasir við að ævistarf manna er að brenna upp í höndum þeirra sem í þessari atvinnugrein starfa?
    Virðulegur forseti. Það er umhugsunarefni fyrir okkur, en það mál er í sjálfu sér ekki hér á dagskrá, ég gæti haldið langa tölu um það og mun gera það þegar það kemur á dagskrá, en það er ljóst að öll þessi mál, í höndum núv. ríkisstjórnar, eru í uppnámi.
    En, virðulegi forseti, ég sagði að ég mundi liðka fyrir afgreiðslu þessa máls sem hér liggur fyrir á þskj. 361, um aflaheimildar Hagræðingarsjóðs, og ég hef trú á því að það mál ætti að eiga þokkalega greiða leið í gegnum þingið vegna þess að í ágúst og september árið 1992, ef ég man rétt, þá flutti Framsfl. frv. um Hagræðingarsjóðinn. Alþb. og Kvennalistinn stóðu einnig að öðru frv. um málið. Þannig að mér sýnist að málið ætti þess vegna að eiga hér greiða leið í gegn, nema þá að stjórnarliðar komi í veg fyrir það og tefji það í meðferð sjútvn. eins og þeir hafa gert í langan, langan tíma í þeirri vinnu sem fram hefur farið hjá hæstv. sjútvrh. við að reyna að koma þessum málum í gegnum núv. ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Mér finnst menn hafa eytt of skömmum tíma í að spjalla um sjávarútvegsmálin. Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að það er nöturlegt fyrir okkur alþingismenn að þurfa að fara heim í jólaleyfi og eiga ekki að koma aftur saman fyrr en einhvern tímann upp úr miðjum janúar, undir þeim kringumstæðum sem nú eru í þessari atvinnugrein. Þar er allt í uppnámi, verkföll blasa við og eins og ég sagði áðan, það sem er kannski ekki síður alvarlegt er sá rekstrarvandi sem að þessari grein steðjar.