Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:33:18 (2714)


[21:33]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þm. sagði seinast þá get ég upplýst það að ég hef verið m.a. í sjútvn. í góðu yfirlæti með hv. þm. og sótt þar alla fundi sem boðaðir hafa verið. Þeir hafa að vísu verið færri en skyldi. Mér er það bæði ljúft og skylt að gefa hv. þm. eintak af stefnuskrá okkar kvennalistakvenna ef hann velkist eitthvað í vafa um stefnu okkar því ég kalla það ekki að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn að vilja að kvóta sé ráðstafað til byggðalaga án þess að gjald komi fyrir. Ég skil ekki hvað hv. þm. er að fara og ég held að það sé ekki nokkur vegur að sitja uppi með það í þessari umræðu að hv. þm. segi af því bara og ég skal útskýra það seinna þegar hann kemur ekki með nokkur rök, neinar tilvísanir eða neitt sem styður hans mál. Þetta er eina ástæðan fyrir því að ég kem aftur upp í þessari umræðu því ég hafði ekki hugsað mér að lengja hana, við erum að fjalla um allt annað mál. En það er algjörlega óviðunandi að hér sé með farið með staðlausa stafi.