Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:47:00 (2717)


[21:47]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrst um þetta síðasta að Alþb. vilji láta borga aðgang að miðunum. Ég held að það sé ekki nema eðlilgt að það komi upp raddir í öllum flokkum því að það er verið að borga stórkostlega fyrir aðganginn að miðunum. Ég held að það sé ekki nema eðlilegt að það komi upp raddir í öllum flokkum því að það er verið að borga stórkostlega fyrir aðganginn í miðunum að kerfinu sem Framsfl. hefur verið hvað samheldnastur í að styðja. Og menn eru ekki að borga neitt smávegis. Það er ekki verið að tala um nokkrar krónur. Menn hafa t.d. verið að borga núna 42 kr. fyrir að fá að fiska eitt kg af þorski núna í haust. Hvað kallar hv. þm. það? Er það ekki auðlindaskattur? Er þar ekki verið að borga fyrir aðganginn að miðunum? Og hvaða peningar eru notaðir til þess? Það er verið að nota skiptahlut sjómannanna til að borga það. Og það er um það sem verkfallið stendur sem er að fara af stað núna um áramótin. ( StG: Hefur Framsfl. lagt það til?) Framsfl. hlýtur að hafa lagt það til ( StG: Er það þá löglegt?) því að kerfið sem nú er í gildi hefur verið varið af Framsfl. a.m.k. fram að þessu. Þeir hafa að vísu ekki mætt mjög margir til umræðunnar hér í hv. Alþingi þegar verið er að ræða um galla kvótakerfisins. Þeir hafa svo sem ekkert verið að ómaka sig allt of mikið við það. En það er nú svona samt að undir þessu kerfi hefur þessi auðlindaskattur verið borgaður og ég held að þeir sem hann hafa fundið upp ættu kannski að tala minna og varlegar um auðlindaskatt en þeir gera. En hitt er annað mál að ég var alls ekki að tala um það hvernig hefði verið staðið að stjórnun að öðru leyti gagnvart sjávarútveginum. Hún var í góðum farvegi þegar síðasta ríkisstjórn fór frá. Ég tek undir með þingmanninum í því efni. Ég var að tala fyrst

og fremst um það að það þarf að nást samstaða um að breyta þessu stórháskalega kerfi sem kvótakerfið er.