Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:52:27 (2721)


[21:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er nú nokkuð hissa á orðum hv. formanns sjútvn. hér. Í fyrsta lagi vona ég að ekki beri að skilja orð hans um það að þingmenn hafi farið út um víðan völl í umræðum um þetta mál og rætt sjávarútvegsmál almennt sem svo að formaður sjútvn. amist við því að sjávarútvegsmál séu tekin hér á dagskrá og þyki það svo heldur óþarfi að vera að ræða meira um efni þessa merkilega frv. um Hagræðingarsjóð sem hv. þm. er áreiðanlega stoltur af að styðja sem stjórnarliði, þröngt.
    Í öðru lagi er það auðvitað þannig að þetta er ekki venjuleg vinnudeila, hæstv. forseti, sem hér er á ferðinni. Það vita allir hv. þingmenn. Það að fjalla um þetta eins og einhverja óviðkomandi og venjulega vinnudeilu úti í bæ þar sem verið væri að fjalla um krónur eða aura á tímann er ósköp einfaldlega barnalegt því að það ættu allir hv. alþm. að vita og a.m.k. þeir sem eitthvað sérhæfa sig í sjávarútvegsmálum hér á þinginu að þessi deila snýst um annað og það væri harla sérkennilegt og mikill heilagleiki, verð ég að segja, af hv. alþm. og sjávarútvegsnefndarmönnum að vísa því með öllu frá sér að það sé Alþingi á nokkurn hátt viðkomandi hvað þessi deila fjallar um. Þessi deila er sprottin af afleiðingum þeirra laga um stjórn fiskveiða, sem eru í gildi í landinu, laga sem átti reyndar að vera búið að ljúka endurskoðun á fyrir ári síðan. Og ég segi það alveg eins og er að mér þykja menn almennt séð orðnir nokkuð heilagir gagnvart vinnudeilum í landinu ef það er allt í einu orðið svo að Alþingi má hvergi nálægt því koma og hvergi hafa þar nein áhrif á, hvað þá að reyna nú að leysa deiluna eins og ég skildi orð hv. seinasta ræðumanns. Þessu er ég ósammála. Ég fullyrði að það getur enginn nema Alþingi í raun og veru leyst efni þeirrar deilu sem risin er vegna sjávarútvegsstefnunnar vegna þess að þetta eru átök um afleiðingar þeirra laga sem gilda um framkvæmd mála í sjávarútvegi. Það hljóta allir menn að viðurkenna.