Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:56:59 (2723)


[21:56]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn átti sig á því að þessi deila og þessi verkfallsboðun er mjög sérstaks eðlis. Menn hafa væntanlega frétt af fundahöldum forustumanna sjómanna um allt land á undanförnum vikum þar sem þeir hafa kynnt sína afstöðu og sína kröfugerð. Menn muna væntanlega viðbrögð forustumanna sjómannasamtakanna við tvíhöfða skýrslunni. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Vestf. að þessi deila er að forminu til vinnudeila og að forminu til beinast kröfurnar að viðsemjendum sjómanna enda hafa þeir ekki aðra til þess að beina kröfum sínum gegn samkvæmt lögum um vinnudeilur. Og þessi deila er að forminu til vinnudeila og snýst um kjör vegna þess að afleiðingar kvótakerfisins hafa kjaraáhrif gagnvart sjómönnum. Það er ekki á valdi Vinnuveitendasambandsins að leysa þann hluta málsins því það fer ekki með lagasetningarvaldið og ég held að það væri óvenjumikill barnaskapur miðað við kjaradeilur almennt að reikna með því að þessi deila hljóti ekki að þurfa að koma til kasta þingsins ef hún á að leysast eins og hún er fram sett, kröfurnar í þessar deilu eru fram settar. Auk þess sem ég kannast ekki við annað en að Alþingi og ríkisstjórnir hafi á undanförnum árum nánast sem regla en ekki sem undantekning komið að vinnudeilum á hinum ýmsu stigum þeirra með því hugarfari að reyna að leysa þær. Mér finnst menn fjalla um þessa stöðu sem uppi er nokkrum dögum fyrir áramót og verkfallsboðunina með býsna miklu andvaraleysi, það verð ég að segja. Enn hefur ekki dregist orð upp úr hæstv. sjútvrh., ekki orð um þetta mál, sem þegir þunnu hljóði þó aðrir séu farnir að ræða það og ég er ekki sammála þeirri uppstillingu formanns sjútvn. að það væri óeðlileg íhlutun þó að til að mynda sjútvn. kallaði deiluaðila til sín og fengi frá þeim upplýsingar um stöðu deilunnar og þreifaði fyrir sér um það hvort hægt væri að afstýra því stórslysi sem allsherjarverkfall er.