Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:04:57 (2726)


[22:04]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er nú komið fram frv. þar sem gert er ráð fyrir því að ráðstafa aflaheimildum Hagræðingarsjóðs til að vega upp á móti skerðingu þorskveiðiheimilda. Ég verð að lýsa hér stuðningi við það að svo miklu leyti sem það mun gilda. Þetta er orðinn árviss viðburður að fram komi frv. sem gengur í þá veru sem við kvennalistakonur höfum lagt til að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sé úthlutað á þennan hátt til þess að koma til móts við þá skerðingu sem orðið hefur.
    Ég vil samt sem áður beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvernig sé með umsóknir sveitarfélaga, hvort sveitarfélög geti einnig fengið úthlutað úr Hagræðingarsjóði núna endurgjaldslaust þar sem hér segir að útgerðum sé úthlutað en það kemur fram í greinargerð að sveitarfélagi hafi verið boðinn áður forkaupsréttur að þessum veiðiheimildum. Ég vildi vita hvernig það mál er núna, hvort þau koma þá til greina hér alveg eins og útgerðir.
    Svipað mál var inni á þingi í haust og var fellt. Það er nokkuð sérstök aðstaða að standa frammi fyrir því að það sé verið að leggja til sams konar mál sem ríkisstjórnin stendur að og vill fá samþykkt.
    En eins og ég segi, það var mjög nauðsynlegt að þetta kæmi fram og þó fyrr hefði verið, að hægt væri að ráðstafa þessum aflaheimildum Hagræðingarsjóðs.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um það í framhaldi af þessu frv. þar sem hér er um sjávarútvegsmál að ræða, hvort leyfa eigi í raun og veru sölu veiðiheimilda. Ég tel að það sé nokkuð sem þyrfti löngu að vera búið að taka á í sambandi við stjórn fiskveiða, þ.e. að leyfa ekki sölu veiðiheimilda á milli skipa. Það er það sem við stöndum frammi fyrir í dag og vegna þess að þetta sjómannaverkfall sem líklega mun skella á er einmitt til komið vegna þess að hér er verið að mótmæla þeirri sölu veiðiheimilda sem sjómenn þurfa nú í sívaxandi mæli að taka á sig. Ég vil koma því hér á framfæri í örstuttu máli að ég tel að sú stefna að selja óveiddan fisk í sjó sé m.a. ein af ástæðunum fyrir því hvernig útgerðarfélög í landinu standa núna. Og ábyrgðin á því er vissulega stór hjá Framsfl. Ég mótmæli því algerlega að Kvennalistinn hafi hingað til haldið því fram að það eigi að leggja auðlindaskatt á útgerðina. Það er sú stefna sem við höfum mælt á móti að óveiddur fiskur í sjó væri seldur, hvort sem það væri á milli skipa eða hvernig sem það er nú gert, en það var fyrir forustu Framsfl. að þetta ákvæði er inni í lögunum. Og það er vissulega rétt sem hefur komið fram í þessum umræðum að í dag er auðlindaskattur. Menn geta ekki komist fram hjá því, það er auðlindaskattur og hann er kominn á fyrir tilstuðlan Framsfl. sem hér stendur svo og mótmælir auðlindaskatti. En auðlindaskatturinn fer bara ekki í sameiginlegan sjóð. Hann fer aðeins á milli þeirra sægreifa sem hafa efni á því að kaupa þessar heimildir.
    Það sem Kvennalistinn hefur lagt til er eins og hér hefur komið fram áður að úthlutað sé meiri hluta af veiðiheimildum til sveitarfélaga sem síðan ráðstafi þeim. Hins vegar hefur Kvennalistinn lagt það

til að t.d. 20% af heildarafla geti runnið í veiðileyfasjóð sem sé þá til ráðstöfunar vegna sérstakra ástæðna, þ.e. eins konar hagræðingarsjóður, eða ef ekkert annað þarf þá er hægt að ráðstafa honum í sameiginlegan sjóð sem sé til ráðstöfunar fyrir sjávarútveginn sjálfan. En að við viljum leggja á auðlindaskatt á allan sjávarútveg og selja allar veiðiheimildir er alger rangfærsla og það vil ég ítreka hér.