Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:32:01 (2733)


[22:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Í tilefni af ræðu hv. 8. þm. Reykn. vil ég taka þetta fram. Í fyrsta lagi hef ég margsinnis lýst því yfir, allt frá því í vor sem leið, að ég væri tilbúinn til þess að ræða við sjómenn og reyndar útvegsmenn einnig, um þau atriði sem helst hefur verið deilt um þeirra í milli. Þessi yfirlýsing stendur enn þó að það boð hafi ekki verið þegið. Í annan stað vil ég taka mjög sterklega undir orð hv. 1. þm. Vestf. Þessi deila er á milli tveggja sjálfstæðra samningsaðila. Hún lýtur nú stjórn ríkissáttasemjara sem er sjálfstæður og óháður embættismaður og Alþingi þyrfti að breyta lögum um ríkissáttasemjara til þess að taka deiluna úr höndum hans.
    Í þriðja lagi, vegna ræðu hv. þm., þá finnst mér að hann ætti að hætta þeim barnaskap að vera að þenja sig hér og telja að þingmenn Alþb. séu betur til þess fallnir en sáttasemjari að leysa þessa deilu því þó að deilt sé um fiskveiðistefnu í öllum flokkum þá er ástandið svo slæmt í Alþb. að þeir geta ekki einu sinni deilt. Þeir hafa ekki einu sinni mismunandi skoðun. Þeir hafa enga skoðun. Slíkir menn eru ekki líklegir til þess að leiða þetta mál frekar en önnur farsællega til lykta.