Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:35:38 (2735)


[22:35]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Við hv. 1. þm. Vestf. erum alveg sammála í þessu efni og ef hv. 8. þm. Reykn. hefði hlustað á ræður okkar með opin eyrun þá hefði hann komist að því að við erum sammála um hvernig rétt er að taka á þessu máli að því er vinnudeiluna varðar. Okkur getur greint á um ýmislegt í sjálfri sjávarútvegsstefnunni og það er bæði gömul saga og ný. En kjarni málsins er sá að þessi deila er hjá ríkissáttasemjara. Það eru tvær vikur þangað til boðað verkfall á að koma til framkvæmda. Það hefur ekkert komið fram enn í þessum viðræðum sem gefur tilefni til þess fyrir stjórnvöld að hafa afskipti þar af og taka fram fyrir hendurnar á ríkissáttasemjara. Og ég minnist þess ekki að það hafi nokkru sinni gerst að ríkisstjórn hafi reynt að taka fram fyrir hendur á ríkissáttasemjara og samningsaðilum tveimur vikum áður en boðuð vinnustöðvun skellur á. Það er hvergi nærri þrautreynt í viðræðum aðila að þeir nái samkomulagi. Og vegna þess að hv. þm. fór svo að miklast af því að Morgunblaðið hefði birt langloku þeirra um sjávarútvegsmál þá segir það auðvitað ekkert um innihald þeirra skrifa. Þvert á móti hefur engin stefna komið út úr þeirri moðsuðu nema síður sé. Ég tók það sérstaklega fram að það eru skiptar skoðanir innan Sjálfstfl. en menn hafa þar skoðanir. (Gripið fram í: Er það?) En innan Alþb. hafa menn engar skoðanir og treysta sér ekki til þess að hafa skoðanir og ákalla Alþingi (Gripið fram í.) um að koma saman til þess að koma Alþb. til bjargar því öðruvísi geta þeir ekki talað um þessi efni. Þess vegna flytja þeir allar þessar ræður um að allt Alþingi verði að koma saman og sameinast.