Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:49:01 (2738)


[22:49]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var nú nokkuð, ég veit ekki hvort segja á dæmigert innlegg frá framsóknarmanni í sjávarútvegsumræðunni, en ekki langt frá því a.m.k. Aðalerindi ræðumanns í stólinn var að kvarta yfir því hvað allt sem aðrir segðu um sjávarútvegsmál væri yfirborðslegt og í raun ómerkilegt og óábyrgt þegar menn væru að daðra við þetta og daðra við hitt og gæla við hinar og þessar hugmyndir og útfærðu það síðan ekkert nánar hvað fyrir þeim vekti, köstuðu hlutunum fram án ábyrgðar og kæmu sér hjá því að útskýra hvað þeir ættu við.

    Þetta er ekki mjög merkileg umræða satt best að segja og ég held að framsóknarmenn hafi ekkert frekar efni á því en aðrir stjórnmálamenn á Íslandi að tala svona um sjávarútvegsmálin því að satt best að segja tel ég að Framsfl. hafi ekkert meiru að flagga í þessum efnum en aðrir flokkar nema síður sé. Ég veit ekki betur en Framsfl. hafi verið hér í alls konar málamiðlunum og reddingum og skáskotið málum í gegnum þingið og samið út og suður rétt eins og aðrir flokkar. Og ég man ekki betur en t.d. sömu sérsjónarmið Vestfirðinga hafi fundist innan Framsfl. og í öðrum flokkum. Og ég man ekki betur en núv. og enn þá verandi a.m.k., hvort sem hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni líkar það betur eða verr, formaður Framsfl. hafi lýst því yfir opinberlega að hann hefði miklar efasemdir um kvótakerfið og það er hægt að draga fram viðtöl við þann ágæta formann Framsfl. því til sönnunar.
    Ég held að þeir menn sem hafa rætt sjávarútvegsmál af hreinskiptni og með rökum á undanförnum árum, þó að þar séu vissulega fráhvörf frá, verðskuldi ekki svona einkunnagjöf almennt séð. Ég tel að hv. þm. hafi sett sig á of háan hest gagnvart umræðunni hér í kvöld og almennt talað umræðunni í öðrum flokkum um sjávarútvegsmál. Það er ekki þannig að þessi mál séu einföld. Það er ekki þannig að það sé sátt í þjóðfélaginu um núverandi ástand og ég tel að tíminn sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson valdi til þess að setja sig á háan hest í þessum efnum hafi verið afar óheppilega valinn með tilliti til þess að það vofir yfir allsherjarverkfall vegna ástandsins í sjávarútvegsmálunum og stefnunnar sem þar er við lýði.