Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:51:18 (2739)


[22:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Einhverra hluta vegna kom ég illa við kaunin á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég veit ekki af hverju. En það er svolítið merkilegt eftir að vera búinn að hlusta á það hér, ég hef fylgst nokkuð vel með þeirri sjávarútvegsumræðu sem hér hefur farið fram þar sem rauði þráðurinn, m.a. hjá þingmönnum Alþb., hefur verið sá að það væri nánast Framsfl. einn sem bæri ábyrgð á núverandi sjávarútvegsstefnu og síðan koma menn allt í einu og segja: Framsfl. hefur af engu að státa. Þetta var ekkert Framsfl. frekar en aðrir. Þetta er vægast sagt afar sérstakur málflutningur.
    En ég sagði líka, hv. þm., að sú stefna sem var lögfest meðan Framsfl. fór með þessi mál væri langt frá því að vera neitt endanlegt og auðvitað verða menn að stilla kompásinn. Það hefur núv. hæstv. ríkisstjórn ekki gert og það er stór hluti af ástæðunni fyrir því að nú vofir yfir verkfall hjá togaraflotanum.