Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:01:22 (2744)


[23:01]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það á auðvitað ekki við alla togara að þeir hafi veitt hömlulaust. Hins vegar hlýtur hv. þm. að vera kunnugt um það að mikið af aflaheimildum sem togarar eiga hafa verið notaðar til þess að láta bátaflotann veiða uppi á grunnslóðinni vegna þess að þar hefur fiskurinn veiðst frekar. Vegna þess að þrátt fyrir að aflaheimildir togaranna hafi skroppið saman í þorski, þá hafa fjölmargir af þeim ekki náð honum. Og margir þessara togarar sem eru svona illa settir með veiðiheimildir hafa verið að veiðum mest allt árið og hafa flæmst af veiðunum við Ísland í Smuguna vegna þessa aflaleysis, ekki vegna þess að þeir væru búnir með kvótann heldur vegna aflaleysis. Þetta veit hv. þm. vel.
    En það sem ég kom ekki að áðan var þessi uppsláttur hans um að menn væru hér að ræða um sjávarútvegsmál og slægju um sig með einföldum patentlausnum og legðu það ekki á sig að reyna að útfæra þær nánar. Ég mótmæli þessu. Ég veit ekki betur en í þinginu hafi verið dreift útfærðri lausn á sóknarstýringarkerfi til umræðu. Hv. þm. hefur væntanlega skoðað það vegna þess að hann fullyrti að hann hefði fylgst mjög vel með öllum umræðum hér og skoðað það sem hefur verið lagt fram til umræðunnar. Hvort sem honum hefur líkað betur eða verr það sem þar var lagt fram, þá var það a.m.k. verk sem hafði verið unnið og menn höfðu lagt eitthvað á sig til þess að koma til umræðunnar með eitthvað til að tala um. Það var gert, hv. þm.