Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:03:02 (2745)


[23:03]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eitt var afar merkilegt og kannski er það kjarni málsins í ræðu hv. þm. því að hann sagði: Togararnir hafa flæmst úr landhelginni af heimamiðum í Smuguna og annað, ekki vegna kvótakerfisins heldur vegna aflaleysis. Og það er kannski kjarni málsins að að hluta til eru þau vandræði sem við stöndum frammi fyrir ekki að kenna einhverjum mannanna verkum, þ.e. slæmu stjórnkerfi, heldur vegna þess að aflinn, það sem við höfum í að sækja, fiskstofnarnir eru það litlir. Það er einn af kjörnum málsins í þessu.
    Það er alveg rétt. Hv. þm. lagði í það stórvirki að útfæra sóknarmarkskerfið. Ég las þá útfærslu. Ég verð hins vegar að viðurkenna að mér fannst hlutirnir rekast æðimikið hver á annars horn og ég verð að segja að með þeirri leið sem þar var lögð til voru menn ekkert að komast fram hjá öllum annmörkum þess kerfis sem við erum með í dag, síður en svo. Og margt af því fannst mér þess eðils að það þyrfti ærið mikið meiri útfærslu áður en það yrði framkvæmt og ýmislegt sem er mjög vafasamt að stæðist dóm reynslunnar ef að því kæmi að menn legðu í að framkvæma þessi ósköp.