Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:39:58 (2751)

[23:39]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þegar verðjöfnunarsjóður var fyrst stofnaður minnir mig að hann hafi heitið Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins. Þá var hann stofnaður fyrir tilhlutan fiskiðnaðarins í landinu sem vildi fá slíkan sjóð til þess að jafna verðsveiflur. Sá sjóður starfaði í allmörg ár með venjulegum hætti og að mörgu leyti stóð hann undir sínu hlutverki. Síðan kom í ljós að ef aðilar féllu frá þá fékkst ekkert úr sjóðnum og eins ef menn hættu atvinnurekstri. Ýmsir voru óánægðir, þeir töldu að það hefði aldrei átt að stofna til sjóðsins með þessum hætti heldur hinu að það yrði lagt inn á reikning hvers og eins. Hver atvinnurekandi, eða hvaða grein sem er, ætti því það fé sem hann legði í sjóðinn á hverjum tíma. Þetta sjónarmið studdi ég eindregið. Ég studdi einnig þegar Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var stofnaður og flestir atvinnurekendur voru velunnarar þess verðjöfnunarsjóðs. Eiginlega má segja að þeir sem lengst héldu tryggð við sjóðinn hafi verið Landssamband íslenskra útvegsmanna þangað til fyrir örfáum árum að það sneri allt í einu við blaðinu. Þá var líka búið að breyta því að hver átti það sem hann lagði inn í sjóðinn og það dróst frá hans inneign þegar hann fékk bætur úr sjóðnum. Þessi sjóður var að mínum dómi mjög merkilegur og hafði mjög góð áhrif til þess að mæta verðsveiflum í sjávarútvegi. Ég segi til gamans og fróðleiks að samkvæmt tölum frá Þjóðhagsstofnun þá sýnir verð hvers mánaðar mælt í SDR, sem hlutfall af vegnu markaðsverði í janúar 1989 af rækju, sem er afskaplega viðkvæmt verð, að verð hennar núna er liðlega 60% af því sem var í marsmánuði árið 1989. Þetta súlurit sýnir þessa miklu verðlækkun og þetta er auðvitað eitt af því sem þessi þjóð tekur eiginlega ekkert tillit til, þær miklu verðsveiflur sem hafa átt sér stað. Ég nefni nú þessa tegund sjávarafurða þar sem sveiflurnar hafa verið einna mestar fyrir utan loðnu og lýsi. En við verðum að líta svo á að fiskverð í heiminum er almennt að lækka en ekki hækka. Það eru því litlar líkur á því að inngreiðslur í þennan sjóð verði á næstunni. Og þegar aðstandendur sjóðsins, þeir sem báðu um þessa löggjöf, þeir sem hafa lagt til hans, eru eiginlega allir farnir að syngja í sama kórnum, að það eigi að leggja Verðjöfnunarsjóð niður, þá segi ég fyrir mitt leyti, þrátt fyrir að hafa alltaf verið stuðningsmaður þess að taka sveiflur inn í sjóð og útgreiðslur þegar lækkanir verða, að mín skoðun er sú: Það er best að þeir hafi þá sitt. Fyrst þeir vilja þetta ekki sjálfir þá á ekki að vera að pína þá til þess. Þeir fóru sjálfir fram á það að Verðjöfnunarsjóðurinn yrði stofnaður og ég er sammála síðasta ræðumanni hvað það snertir, að það er röng aðferð að leggja hann niður. En því á að vera að pína þessa veslings menn sem vilja ekki hafa þennan sjóð lengur? Eru þeir ekki píndir nóg á öllum öðrum sviðum? Þannig að ég ætla að greiða atkvæði með því að leggja hann niður, bara fyrir þá. En það þýðir ekkert að koma svo aftur. Vonandi verður Alþingi þannig skipað að það hleypur ekki eftir duttlungum nokkurra manna hverju sinni, hvað þeir vilja og hvað þeir vilja ekki, þegar þeir telja sér það henta.
    Hér kemur í ljós að í nóvember eða núna er búið að greiða alls 650 fyrirtækjum tæplega 2 milljarða 526 millj. kr. Óafgreidd eru erindi að upphæð u.þ.b. 15 millj. kr. og heildarútgreiðslan af reikningum framleiðenda nemur því rúmlega 2,5 milljörðum kr. Hér er lagt til að það sem eftir verður í sjóðnum, þegar búið er að borga þeim sem eru eyrnamerktir, að þá áætlar fjmrn. að 190 millj. kr. fari til reksturs Hafrannsóknarstofnunar árið 1993, verði frv. samþykkt.     Það er hárrétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að Hafrannsóknastofnun hefur fengið sín framlög á fjárlögum. Nú höfum við staðið frammi fyrir því í allmörg ár að geta ekki afgreitt fjárlagafrv. nema með gífurlegum greiðsluhalla. Ég sé því ekkert á móti því, við slíkar aðstæður, að sú stofnun fái verulegan hluta af þessu fjármagni. Þó vil ég þegar við 1. umr. lýsa því yfir að Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda telur að sú grein eigi inni rúmar 13 millj. kr. og þeir eru að undirbúa stórfellt markaðsátak sem kemur til með að kosta 21--22 millj. kr. Það var einu sinni búið að heita, ég held á árinu 1991, 8 millj. kr. til markaðsátaks sem aldrei varð úr og var því ekki notað. Mér finnst að þessi atvinnugrein, sem er mjög vaxandi og hefur stóraukið sína framleiðslu vegna aukningar á úthafsrækjuveiðum, eigi að fá þarna hlutdeild til þessarar markaðskönnunar og markaðsleitar. Ég veit ekki hver þarf frekar á því að halda að fara út í stórfellda markaðsleit ef það er ekki framleiðsla sem hefur tapað frá 1988 tæpum 40% af verðmæti sínu per kg þegar reiknað er í SRD. Þess vegna vona ég að hvað sem líður niðurstöðu ákveðinna nefndarmanna til frv. í heild þá geti menn orðið sammála um það að leggja u.þ.b. 10 millj. kr. í þessa markaðskönnun og markaðsátak undir forustu Félags rækju- og hörpudisksframleiðenda.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, það gefst tækifæri til að ræða þetta mál í nefndinni. Ég endurtek að ég hefði kosið að þessi sjóður hefði starfað áfram og þá hefðu innstæður verið skráðar á nafn, en ég sé enga ástæðu til að neyða þennan sjóð upp á menn sem vilja endilega losna við hann. Þess vegna ætla ég að styðja þetta frv., en legg á það mikla áherslu að nefndarmenn og þingið sjálft komi sér saman um að leggja þetta litla framlag til markaðsöflunar.