Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:53:11 (2753)

[23:53]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil í byrjun taka fram, vegna þeirra orðaskipta sem fóru fram hér síðast, að forsvarsmenn rækju- og hörpudisksframleiðenda hafa jafnframt kynnt mér sínar hugmyndir um ráðstöfun á

þessum innstæðum greinarinnar í Verðjöfnunarsjóði. Ég styð þá tilhögun og mun standa að því, ef um það getur orðið samstaða í sjútvn., að heimild verði veitt til að ráðstafa þessum hluta eftirstöðvanna í átak á þessu sviði. Ég held að það mæli öll rök með því og reyndar sanngirnissjónarmið að þessi grein, sem á þarna inni og hefur lagt til þessara hluta, fái að nýta sér það með þessum hætti.
    Ég vil svo í öðru lagi, sérstaklega vegna orða hv. 1. þm. Austurl. um auðlindaskatt og reyndar umræðu sem varð hér fyrr á fundinum um þau atriði, taka fram, til að taka af allan vafa og öll tvímæli, að Alþb. hefur ekki ályktað um upptöku slíkra hluta. Það hefur engin slík samþykkt verið gerð í Alþb. Hins vegar hefur orðið ekki verið bannorð og það kemur fram á einum stað í texta, svo ég man eftir, að ein þeirra hugmynda sem menn séu að ræða um og þurfi að athuga í þessu sambandi, þegar farið er yfir allt litrófið varðandi stjórn fiskveiða og mögulegar útfærslur á því sviði, sé auðlindagjald. Þó ég sé býsna harðdrægur í skoðunum í þessum efnum þá er ég ekki svo ofstækisfullur að ég þoli ekki orðið á prenti, það er ekki svo. Hins vegar vil ég að það sé alveg ljóst að ég hef í mínum flokki lagst hart gegn öllum hugmyndum um að taka upp slíka flata skattlagningu á sjávarútveginn sérstaklega sem atvinnugrein. ( MB: Það væri betra . . .  ) Já, og í sjálfu sér væri ég því fegnastur að þurfa aldrei að sjá þetta orð á prenti, því þetta er afar illa ígrundað og vitleysislega framsett af flestum og engir hafa þó verið fíflalegri í þessu en kratar. Staðreyndin er auðvitað sú að þrátt fyrir allt röflið í krötum um auðlindaskatt þá hafa þeir aldrei lagt í það vinnu að útfæra hvað þeir ættu við. ( HÁ: Þeir komu nú flestir úr Alþb.) Já, við höfum verið blessunarlega lánsamir á undanförnum árum, það er rétt hv. frammíkallandi, að það hefur verið ágætis samvinna milli Alþb. og Alþfl. að þessu leyti. Þeir hafa verið tilbúnir að taka við svona ýmsu frá okkur og þökk sé þeim. En mér finnst það mjög merkilegt, þrátt fyrir alla umræðuna um þetta, að menn skuli ekki hafa lagt í það vinnu að útfæra hvað þeir eigi við. Svo er verið að tala um að Alþb. hafi ekki alltaf lagt í það vinnu að útfæra eldklára stefnu í einstökum atriðum í sjávarútvegsmálum. Hvar er útfærsla Alþfl. á auðlindaskattinum? Hvar er hún? Ég reyndi fyrir einu eða tveimur árum að kanna hvernig þetta lægi í Alþfl. Ég lagði þau ósköp á mig. Ég komst í grófum dráttum að þeirri niðurstöðu að þarna væru hugmyndir manna mjög á reiki og í raun og veru ættu menn ekkert sameiginlegt nema þetta nafn. Þeir hefðu fundið þarna nafn, auðlindagjald, auðlindaskattur, og þeim féll það vel í geð, krötum. En hugmyndirnar virtust ýmist ganga út á það að fram færi eitt allsherjaruppboð á veiðiheimildum og hæstbjóðandi fengi allar veiðiheimildirnar. Aðrir voru með þær hugmyndir að þetta væri einfaldlega flatur skattur sem væri lagður ofan á núverandi kvótakerfi. Og hvaða vanda leysir það? Ekki neinn. Þá sitja menn eftir uppi með alla sömu vankantana og núverandi kerfi býður upp á og þessa skattlagningu á sjávarútveginn í viðbót. Þannig að þetta er rugl. Það hefur ekki verið útfærð nein heildstæð og ein tillaga um það hvernig svona skattur eigi þá að vera. Þetta eru því bara hugmyndir út og suður án þess að neinn hafi lagt vinnu í að útfæra þetta.
    Hæstv. forseti. Er ekki sjútvrh. viðstaddur og hlustar á umræðuna? Ég geri ráð fyrir að svo sé.
    Það væri ástæða til að afgreiða hér í leiðinni þennan þróunarsjóð sem á að fara að setja á. Ég held í raun og veru að hann sé jafnlangt úti í loftinu á margan hátt og jafnlítil speki á bak við það eins og auðlindaskattinn sjálfan, þessa áformuðu gjaldtöku af sjávarútveginum frá og með miðju næsta kjörtímabili eða svo í einhvern samdráttarsjóð sem hæstv. ríkisstjórn hefur sem keppikefli að koma á fyrir sjávarútveginn (Gripið fram í.) sem er auðvitað ákveðin tegund auðlindaskatts, því miður, sem hæstv. sjútvrh. hefur verið vélaður inn á að styðja af Alþfl. En við munum ræða það viðfangsefni síðar.
    Varðandi frv. sem er hér sérstaklega til umræðu, hæstv. forseti, um að leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þá get ég sagt að ég er að mörgu leyti sammála því sem fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl. um það efni. Ég er þeirrar skoðunar og ég tel að sagan sýni að það er rík þörf fyrir sveiflujöfnun í sjávarútvegi á Íslandi. Þessi atvinnugrein er einfaldlega þannig í eðli sínu, sem sambland í raun og veru af veiðimennsku og iðnaði, að bæði vegna þeirrar hliðar sem snýr að mismunandi veiðum og hinnar sem snýr að mismunandi verði á afurðunum að þá er rík þörf fyrir sveiflujöfnun í sjávarútegi. Ég held að það sé líka rík þörf fyrir þetta tæki eða tæki af þessum toga vegna greinarinnar sjálfrar en einnig sem hagstjórnartæki. Ég spái því að menn eigi eftir að átta sig á því að það að hafa engan möguleika til verðjöfnunar innan sjávarútvegsins dregur úr möguleikum stjórnvalda á hverjum tíma til að beita skynsamlegri sveiflujöfnun í greininni sem hluta af hagstjórnartækjum í landinu. Það var t.d. nákvæmlega það sem gert var þegar afkoman batnaði í sjávarútvegi á árunum 1989--1990, bæði með bættri efnahagsstjórn og þeim tökum sem þá náðust á verðbólgu og vöxtum og öðru slíku og aðgerðum sem gripið var til af hálfu stjórnvalda til að bæta stöðu greinarinnar og einnig vegna batnandi verðs. Í staðinn fyrir að sá afkomubati færi umsvifalaust út í veltuna þá var hluta af þeim bata veitt inn í sjóð sem menn áttu síðan upp á að hlaupa þegar aftur harðnaði á dalnum. Hvað var það sem hélt sjávarútveginum gangandi á síðasta ári? Hvað var það, þegar í ljós kom á vordögum 1992 og lá náttúrlega fyrir að afkoma sjávarútvegsins hafði hríðversnað frá haustinu 1991? Í ljós kom að ríkisstjórnin hafði ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut gagnvart sjávarútveginum og hæstv. sjútvrh., sem í nóvember 1991 talaði um nauðsyn neyðarráðstafana gagnvart sjávarútveginum, sat uppi með það á vordögum 1992 að hafa engu komið fram innan ríkisstjórnarinnar. Þá bauð stjórnarandstaðan hæstv. sjútvrh. að greiða fyrir því að lög um að útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði yrðu teknar í gegnum þingið með hraði og það var sá sem hér talar sem úr þessum ræðustóli bauð m.a. upp á þetta þegar fimm eða sex dagar voru eftir af þinginu. Tveim dögum seinna kom fram

frv. um útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Hvað hélt greininni gangandi á árinu 1992? Það var innstæða upp á tæpa 3 milljarða kr. sem þá var hægt að grípa til og nota til að mæta versnandi afkomu greinarinnar. Og ég fullyrði að sjávarútvegurinn væri ekki það sem hann er þó í dag ef hann hefði ekki átt þessa innstæðu til að nota meðan ráðlaus ríkisstjórn reyndi að koma sér saman um hlutina.
    Ég held þess vegna að sagan sýni okkur það, bæði sagan í greininni og hagstjórnarsaga Íslands geri það að verkum að það er rík þörf fyrir svona verðmyndun og verðjöfnun. Hitt er svo annað mál hvort auðvelt er að koma henni við ef þannig sinnaskipti eru orðin í greininni að þar eru menn almennt orðnir á móti henni. Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. 1. þm. Vestf. að það er nokkuð vandséð hvernig þá á að framkvæma það sem menn þó telja skynsamlegt. Því ég tók hv. 1. þm. Vestf. þannig að hann teldi að verðjöfnun væri skynsamleg og hann hefði stutt slíkar ráðstafanir, en hins vegar ylli andstaða greinarinnar því nú að hann treysti sér ekki til að leggjast gegn því að sjóðurinn yrði lagður niður. Ég hefði talið að nærtækara væri a.m.k. fyrst um sinn að gera samkomulag um að sjóðurinn yrði óvirkur um skeið á meðan þessi mál væru skoðuð. En að falla algjörlega frá þeirri hugsun og fella úr lögum að unnt sé að grípa til verðjöfnunar það tel ég í reynd spor aftur á bak, því mér hefur ekki verið sýnt fram á með rökum, hvorki hvað snertir hagstjórn á Íslandi né heldur rekstrarlegar forsendur í greininni sjálfri og burði hennar, skuldsett sem hún er, til að taka á sig sveiflur, að það séu forsendur fyrir hendi til þess að leysa þau vandamál með þeim hætti sem menn vísa á, þ.e. fyrirtækin sjálf eigi að byggja sig upp og þola síðan breytilegar tekjur og breytilega afkomu.
    Vissulega er það falleg hugsun og göfug framtíðarsýn að sjávarútvegurinn á Íslandi og hin einstöku fyrirtæki verði þannig í stakk búin að þau geti mætt sveiflunum sjálf og fyrirhyggja manna verði slík að þeir eigi alltaf í handraðanum til mögru áranna. En er því að heilsa í dag? Nei, ætli það. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég get ekki með nokkru móti tekið undir það að það séu forsendur fyrir hendi, að það séu rök fyrir því, að hverfa frá þessu, þó mér séu þessir annmarkar málsins ljósir, að helstu hagsmunaaðilar hafa kosið að leggjast á þá sveif að þeir vilji þetta kerfi feigt. Það tel ég skammsýna hugsun, ég verð þá bara einfaldlega að segja það sem mér býr í brjósti um þau efni. Ég tel það vera skammsýna hugsun, ég skil hana vegna þess vanda sem menn standa í gagnvart sínum fyrirtækjum dag frá degi og menn hugsa sem svo: Mér veitir ekki af því að ná til mín öllum batanum ef hann einhvern tímann verður og einhvern tímann kemur til þess að létta á skuldunum o.s.frv. Þar með eru menn í raun að hugsa um hinn bráða vanda en ekki möguleikana til að byggja greinina upp til lengri tíma litið og þola súrt og sætt eins og hlýtur að verða hlutskipti þessarar greinar hér eftir sem hingað til.
    Hæstv. forseti. Svo vil ég segja nokkur orð um áformaða ráðstöfun eigna sem eru inni í sjóðnum. Það tel ég mikið metnaðarleysi, svo ekki sé meira sagt, að ætla að leggja það til að gera þessar eignir, nánast eins og þær leggja sig, upptækar --- í hvað? Í rekstur Hafrannsóknastofnunar. Í rekstur sem ríkissjóður hefur fram að þessu kostað sjálfur. Ég segi alveg eins og er að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi séu sáttir við þessa ráðstöfun á eignum, á sjóðmyndun, sem greinin hefur sjálf staðið undir. Af hverju gera ekki hinir eiginlegu eignaraðilar þessara verðmæta, sjávarútvegurinn, kröfur um að þær fari til uppbyggingar og til nýrra verkefna, til viðbótarverkefna a.m.k. í hafrannsóknum, en ekki bara beint í daglegan rekstur batterísins og gufi þannig upp? Mér finnst það metnaðarleysi, ég segi bara alveg eins og er. Mér finnst það algjört metnaðarleysi og ég tel að það yrði erfitt að standa gegn kröfum af hálfu hinna eiginlegu eigenda þessara innstæðna, sem er sjávarútvegurinn, um að þessar eignir rynnu til slíkrar ráðstöfunar og ég hef tillögu í því efni.
    Ég legg til að þessi sjóður gangi í byggingarsjóð skipa hjá Hafrannsóknastofnun. Fyrir því eru þau rök að þar er fram undan mikið átak sem þarf að ráðast í, að endurnýja skipakost Hafrannsóknastofnunar. Það verkefni mun vefjast verulega fyrir mönnum, nema stofnunin fái tekjur af því tagi sem hér væru til ráðstöfunar. Það liggur alveg fyrir að Hafrannsóknastofnun er í raun vanmegnug þess að sinna hafrannsóknum á þeim svæðum umhverfis landið sem mest er þörfin eða margir telja að mest sé þörfin nú um stundir, á djúpmiðunum, vegna þess að gömlu hafrannsóknaskipin hafa ekki toggetu og búnað til þess að stunda þar rannsóknir. Það hefur staðið til að fara í mikla leiðangra á djúpmiðin og kanna þar vannýttar tegundir og ókannaðar togslóðir, en það hefur strandað á því að Hafrannsóknastofnunin sjálf hefur ekki skipakost til þess og leiga á stórum og öflugum togskipum sem ráða við aðstæður er svo dýr að hún er ofvaxin greiðslugetu stofnunarinnar. Það er upplýst að það kosti um 1,5 millj. kr. á dag að leigja stóran frystitogara sem ræður við aðstæður á 700--1.000 m dýpi eða hvað það nú er, hefur togkraft og útbúnað til þess að gera þar rannsóknir.
    Þess vegna hlýtur að koma til álita og á að mínu mati að undirbúast að stofnuninni verði gert kleift að bæta úr þessu ástandi með því að auka eða endurnýja skipakost sinn að þessu leyti. Þarna er tækifæri til þess að auðvelda það með því að ráðstafa þessum fjármunum til uppbyggingar að því tagi. Það munu vera þar einhverjir peningar í sjóði frá því að hafrannsóknaskipið Hafþór var selt og þá mundu þessir fjármunir koma þar til viðbótar.
    Ef menn kyngja þessari ráðstöfun, þessari upptöku á eignum Verðjöfnunarsjóðs í rekstrarhít ríkissjóðs, því það er auðvitað ekki verið að gera neitt annað en að gera þessa eign upptæka í ríkissjóð sem hefur fjármagnað Hafrannsóknastofnun, þannig að það má nákvæmlega eins flytja um það tillögu að þetta renni í ríkissjóð eins og að vera að þeim skollaleik að merkja þetta Hafrannsókn, þá verða menn algjörlega af þessum möguleikum. Þá er það auðvitað ekkert annað en skattlagning á sjávarútveginn sem hefur borgað í formi iðgjalda inn í sjóðinn, lagt til þessa fjármuni. Það er ekkert annað en enn einar álögurnar á greinina.
    Þetta vona ég að verði tekið til rækilegrar skoðunar í hv. sjútvn. Það vill svo til að þegar sjútvn. fór yfir tekjuhlið fjárlagafrv. þá fjallaði hún ítarlega um stöðu hafrannsóknanna og reyndar kemur það sérstaklega fram í umsögn sjútvn. til fjárln. að sjútvn. hafi haft áhyggjur af þessum lið.
    Hæstv. forseti. Ef hæstv. sjútvrh. er hér enn á hlaupum um hliðarsalina þá ætlaði ég að leggja fyrir hann eins og tvær spurningar, af því að ég hef þrátt fyrir allt nokkra löngun til þess að láta á það reyna í enn ríkari mæli en gert hefur verið hvort það er yfir höfuð þannig að hægt sé að eiga hér samskipti í þinginu við hæstv. sjútvrh. með venjubundnum hætti, þ.e. eins og tíðkast að þingmenn geri gagnvart ráðherrum, noti tækifærið þegar mál þeirra eru á dagskrá og leggi fyrir þá spurningar og fái við þeim svör. Ég mundi mælast til þess að hæstv. ráðherra bryti odd af oflæti sínu og legði það á sig að fara í ræðustólinn og svara, og helst bara í ræðu, sem hæstv. ráðherra hefur næg tækifæri og nægan rétt til að gera, þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar, en hlaupa ekki hér upp í einhverjum strákskap og fara með útúrsnúningum að ræða um allt aðra hluti en hann er spurður um, án þess að ég sé t.d. að skorast undan að ræða þá við sjútvrh. um t.d. stöðu sjávarútvegsmálanna í okkar flokkum, Alþb. og Sjálfstfl., ef hæstv. sjútvrh. hefur sérstakan áhuga á því. Það er alveg guðvelkomið í sjálfu sér að eiga um það dálítinn málfund með hæstv. sjútvrh.
    En ég hef verulegar áhyggjur af almennri stöðu sjávarútvegsins og það fer vel á því að ræða það í sömu andrá og hér er lagt til að leggja niður Verðjöfnunarsjóð, sem einhver skyldi ætla að væri ávísun á það að þetta væri í harla góðu standi og þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af einhverjum afkomusveiflum. Eitt af því sem er ekki par glæsilegt og er fram undan er einfaldlega rekstrarstaða sjávarútvegsins og afkoma með skuldir upp á 110 milljarða kr. eða hvað það er. Og ekki bætir það ástandið ef sjávarútvegurinn fær á sig allsherjarverkfall og stopp, þess vegna svo vikum og mánuðum skiptir núna eftir áramótin. Ég hefði talið eðlilegt ef menn væru hér almennt að ræðast við með rökum og málefnalega að manni gæfist kostur á því að heyra eitthvað um viðhorf sjútvrh. til þessarar stöðu og hann gerði grein fyrir því, þegar hann er að flytja mál sín fyrir þingi, hvernig þetta lítur út að hans mati. Það þykir t.d. ekki óeðlilegt að forsrh. geri grein fyrir stöðu efnahagsmála og reifi almennt viðhorf sín til þeirra hluta þegar mál sem undir hann heyra eru hér á dagskrá, alvenjulegt. Sama er t.d. gert þegar rætt er við hæstv. heilbrrh. um heilbrigðismál. Á grundvelli viðamikilla frumvarpa sem hann var að fara með í gegnum þingið í dag þá var hæstv. heilbrrh. í löngum og ítarlegum ræðum að reifa ýmis almenn viðhorf sín til málaflokksins og þeirrar stöðu sem þar væri uppi. Það var vel þegið af hv. þm. sem höfðu lagt fyrir hann spurningar. En hæstv. sjútvrh. hefur komið fram með allt öðrum hætti í þinginu í dag og neitað að svara spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar og í raun og veru skotið sér undan því að taka þátt í umræðum um sinn málaflokk, án þess að rökstyðja það frekar.
    Ég ætla því að lokum að leggja tvær spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. Sú fyrri er: Hvað hyggst sjútvrh. gera til að reyna að afstýra því að til verkfalls komi um áramótin í sjávarútveginum? --- Og sú seinni er svona: Er hæstv. sjútvrh. tilbúinn til þess að beita sér fyrir því í samvinnu við eða með sjútvn. Alþingis að deiluaðilar verði kallaðir til fundar, þess vegna með vitund og samþykki sáttasemjara ef mönnum þykir svo við horfa, og farið yrði yfir það hvort Alþingi geti eitthvað lagt af mörkum til lausnar deilunni áður en það fer í jólaleyfi?     Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. svari þessum einföldu spurningum.