Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:13:33 (2754)

[00:13]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um afnám laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Ég vil minna á að allgóð sátt var um setningu þessara laga og að þar komu margir að og ég tel að það hafi verið býsna vel ígrundað þegar þessi breyting varð á frá því sem áður hafði verið. Að vísu hafa komið fram gagnrýniraddir síðan um að e.t.v. mætti eitthvað með öðrum hætti vera. Ég bendi sérstaklega á að hugsanlega væri ástæða til þess að athuga hvort ekki væri grundvöllur fyrir útgreiðslu úr sjóðnum er fyrirtæki yrðu gjaldþrota. Ég veit að hæstv. sjútvrh. þekkir þessa umræðu mætavel, eins og aðrir sem gagnrýna einstök atriði varðandi þennan sjóð. Almennt séð þá held ég að alla vega til að byrja með hafi verið góð sátt um þetta mál og mér þykir mjög miður að nú skuli hafa verið látið undan gagnrýni þeirra sem eiga aðild að sjóðnum sem meira og minna er að mínu mati komin til vegna slæmrar stöðu af öðrum orsökum. Þar af leiðandi er kannski verið að skamma vitlausan aðila þar sem ég sé ekki að það hafi verið sýnt fram á með neinum raunhæfum hætti að þessi tilhögun hafi tapað gildi sínu og þessi sjóður sé ekki fullgóð og eðlileg leið til þess að ná þeim markmiðum sem með honum voru sett. Þarna er auðvitað sérstaklega verið að tala um það að sveiflur verði jafnaðar vegna verðbreytinga. Það hefur ekkert komið í rauninni í staðinn, mér vitanlega, sem gefur tilefni til þess að fella þetta niður. Vissulega er mér ljóst að sífellt er að nást skárri árangur í rekstri og hagræðingu og það er af hinu góða. En það kemur ekki í staðinn fyrir það að hafa möguleika á því að jafna verðsveiflur og jafnvel aðrar sveiflur eins og dæmin hafa sýnt okkur að hefur verið nauðsynlegt að gera.
    Ég held að það hefði verið nauðsynlegt að þreyja þorrann núna á meðan þessi gagnrýni rís hæst og harka hana af sér, því ég er viss um að fyrr en varir hefðu menn komist að raun um að þarna væri nýtilegt tæki til sveiflujöfnunar svo sem fyrr hefur komið í ljós að var til.
    Vissulega er lag þegar inngreiðslur í sjóðinn eru ekki fyrir hendi vegna aðstæðna, en það er ekki þar með sagt að það hafi neitt breyst sem réttlætir þessa breytingu. Við verðum að gera ráð fyrir því að sveiflan er ekki bara niður á við heldur geti einnig komið upp á við. Ég hafði með mér eina ágæta bók hér í ræðustól sem ég býst við að flestir kannist við, en það er sjálf Biblían. Ég vil benda á að mönnum væri hollt að lesa undir svefninn, af því að nú er farið að líða á nótt, enn og aftur í fyrstu Mósebók 41 (Gripið fram í.) --- ég er ekki byrjuð að lesa upp úr Biblíunni en ég trúi því að hv. frammíkallandi hafi gott af því að hlýða á ekki síður en aðrir þingmenn sem hér eru viðstaddir --- um hinn merka draum faraós sem Jósef réð þar sem sjö magrar kýr og sjö skrælnuð öx merktu hallærisár en sjö vænar kýr og sjö væn öx merktu hin góðu ár. Á góðu árunum á að sjálfsögðu að safna í sjóð og það var það sem draumar faraós gengu út á. Nákvæmlega eins er ástæða til þess þegar vel árar að safna í sjóði. Þetta höfum við kvennalistakonur einatt bent á er við höfum rætt stefnu hinnar hagsýnu húsmóður. Þetta eru sannindi sem öllum eru kunn og það á ekkert að þurfa að vera að færa fyrir þeim nein afskaplega ítarleg rök vegna þess að þetta er bæði heilbrigð skynsemi og ef menn treysta henni ekki þá geta þeir lesið góðar heimildir, svo sem stefnuskrá Kvennalistans og fleira. (Gripið fram í.) Fólk getur líka lesið Biblíuna ef það treystir sér ekki til þess að leita að vísbendingum í stefnuskrá Kvennalistans. ( Gripið fram í: Leggur þingmaðurinn þessi tvö rit að jöfnu?)
    Virðulegi forseti. Hér verður hver að meta fyrir sig og ég ætla ekki að vera að svara frammíköllum því það er kannski betra að menn komi í ræðustól ef þeir hafa eitthvað brýnt fram að færa. En ég held að hv. þm. verði að meta fyrir sig, eins og ég geri fyrir mig.
    Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, segja frá því að það sem gerðist samkvæmt þessari ágætu bók, Biblíunni, var það að þegar hungrið gekk yfir allan heiminn þá var aðeins eitt land sem hafði verið fyrirhyggjusamt og gat opnað forðabúrin og ekki einasta látið sitt fólk njóta heldur jafnvel fleiri og mætti nú fyrirhyggjan oftar vera á ferðinni. Ég held að við sjáum það sérstaklega núna þegar þrengir að að það getur verið gott að hafa vissa fyrirhyggju.
    Ég vil líka geta þess sem næstu ræðumenn á undan mér hafa mjög vitnað til, að ekki er ýkjalangt síðan það sannaðist með raunhæfum hætti að það var gott að geta sótt í þennan sjóð og það var býsna mikil sátt á vordögum 1992 um að leita í sjóðinn þar sem jafna þurfti ákveðnar sveiflur, jafnvel þótt það þyrfti að gera breytingar vegna þess að sveiflurnar voru ekki vegna verðhruns á sjávarafurðum heldur vegna annarra atriða. Ég minni á að í þeirri umræðu kom það sérstaklega fram hjá fjöldamörgum hv. þm. að það væri ekki verið með þessu að bregða fæti fyrir Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Frsm. hv. sjútvn., hv. 1. þm. Vestf. sem hér hefur þegar talað, sagði t.d. í framsögu sinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil líka geta þess að mismunandi sjónarmið eru uppi varðandi Verðjöfnunarsjóð og framtíð hans. Ekki er verið að gera neitt sem gerir það að verkum að verið sé að segja að Verðjöfnunarsjóður eigi að vera um aldur og ævi eða að hann eigi að leggja niður.``
    Þetta voru orð hv. þm. á því vori. Síðan er liðið hálft annað ár og ekki heyrðist mér að hv. þm. væri ýkjakátur yfir þeirri breytingu sem hann hefur verið knúinn til að eiga aðild að.
    Ég vil líka vekja sérstaka athygli á því að þessu atriði var mjög haldið til haga af okkur stjórnarandstöðuþingmönnum á þeim tíma, að það að grípa til þessara aðgerða, að ganga í þennan sjóð vegna þess að það þurfti virkilega að jafna sveiflur, þýddi ekki að það ætti að hverfa frá því grundvallaratriði að það væri viturlegt að eiga fé í sjóði til sveiflujöfnunar. Þetta finnst mér núna að hafi því miður gleymst einum of mikið.
    Vissulega komu inn í þessar umræður upplýsingar um að nefnd væri starfandi varðandi framtíðarhlutverk Verðjöfnunarsjóðs, þessi endurskoðunarnefnd. En ég velti því fyrir mér hvernig það gerist að nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að best sé að leggja sjóðinn niður, vegna þess sem ég áður nefndi, að það er ekki bent á að neitt annað eigi að koma í staðinn. Það er í rauninni verið að láta undan órökstuddum þrýstingi. Ég held að það hefði verið miklu nær að takast á við þetta verkefni, sníða þá annmarka af sem hugsanlega voru á þessum sjóði og ekki síst að takast á við það verkefni að gera sjóðinn að þeim sveiflujöfnunarsjóði sem þörf er á að hafa og sé erfitt að tína til þær helstu sveiflur sem fyrirsjáanlegt var á þeim tíma að dyndu yfir. Við stjórnarandstöðuþingmenn hefðum eflaust getað hjálpað ríkisstjórninni til að sjá það fyrir, ef hún hefði ekki verið í stakk búin til að gera það, þá átti að sjálfsögðu að vinna það verk og vinna það vel og leysa það.
    Ég bendi líka á að jafnvel þótt það hefði ekki tekist til fullnustu þá var alltaf til sú leið að nýta þennan sjóð vegna ófyrirséðra sveiflna, en grundvallaratriðið var það að safna í sjóðinn þegar lag var til. Og ég er ekki búin að heyra eitt einasta orð í þessari umræðu --- og bið ég nú um að hæstv. sjútvrh. sé hér við til þess að heyra mitt mál. Ég bað um hæstv. sjútvrh. hingað vegna þess að enn í þessari umræðu hef ég ekki heyrt nein rök fyrir því hvers vegna ekki er ástæða til að safna í sveiflujöfnunarsjóð þegar vel

árar. Nú getur vel skeð að hæstv. sjútvrh. búi yfir þessum vísdómi og ég geri þá ráð fyrir að hann muni í máli sínu hér á eftir upplýsa okkur hver ástæðan er fyrir því að ekki er talið ráðlegt lengur að safna í sjóð ef vel skyldi nú ára. En ég yrði ekkert undrandi og ég mundi ekki lá honum ef hann ætti erfitt með að rökstyðja þetta. En ég vil sem sagt gefa hæstv. sjútvrh. tækifæri til þess að svara þessari spurningu, hver er ástæðan. Hvers vegna ekki að safna í sjóð í góðærinu?
    Ég hef heldur ekki heyrt það hjá forsvarsmönnum í sjávarútvegi að það séu nein rök fyrir þessu. Hins vegar hefur verið bent á einstaka ágalla þessa sjóðs og eins og ég gat um í upphafi máls míns þá finnst mér vel lítandi á að mögulegt sé að greiða þessar merktu innstæður sem eru í sjóðnum út að einhverju eða öllu leyti ef fyrirtæki verður gjaldþrota. Þetta er leysanlegt atriði. Ég geri ráð fyrir að þær 215 millj. sem hæstv. ráðherra sagði að væru eftir í sjóðnum séu tilkomnar að einhverju eða öllu leyti út af því að fyrirtæki hafi hætt störfum eða orðið gjaldþrota, án þess að ná sínum innstæðum út. Hér hefði hugsanlega verið hægt að fara einfaldari leið en oft er farin til þess að útvega fé sem kannski hefði getað komið fyrirtækjum til góða í greiðsluerfiðleikum, hugsanlega getað komið í veg fyrir gjaldþrot. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé alltaf hægt að gera kraftaverk í þeim efnum, en þegar staðan er orðin sú að gjaldþrot blasir við þá hefði verið hægt að ná þessum greiðslum úr sjóðnum, þessum inngreiðslum. Svo að ég sé nú nákvæmari þá á ég við að það sé ekki bara gert eftir gjaldþrot fyrirtækja heldur ef gjaldþrot blasir við.
    Nú er ég ekki búin að sjá þessar hugmyndir útfærðar, sem ég hef þó heyrt viðraðar, en ég hefði talið sæmra fyrir þessa nefnd að líta á hverjir hugsanlegir ágallar sjóðsins hefðu verið og reyna að leysa málið samkvæmt því, en ekki gefast bara upp vegna þess að á erfiðleikatímum finnist einhverjum að það þýði ekkert að púkka upp á sjóði sem sjá um sveiflujöfnun. Ég geri ráð fyrir að ef betur áraði hefðu þessar raddir ekki verið eins háværar. Ég tel að þessir þankar mínir séu mjög mikilvægir inn í þessa umræðu vegna þess að ég er ekkert farin að sjá það, miðað við þær raddir sem ég hef heyrt hér, að það sé í rauninni nokkur maður beinlínis ánægður með þessa aðgerð. Ég gat ekki heyrt það á máli hæstv. sjútvrh. að hann væri ýkjakátur yfir þessu og ég heyrði ekki betur en hann viðurkenndi að sveiflujöfnun væri frekar skynsamleg aðgerð og ég er ekki farin að sjá að vandamálin hverfi við það að einn sjóður sé lagður niður. Einhvers staðar verður að taka fé í samfélaginu, hvaðan sem það verður, ef verð sveiflast mikið og það þarf í rauninni að grípa til einhverra aðgerða þegar verðsveiflur verða svo alvarlegar að fyrirtæki komist í verulega erfiðleika. Og því að gera sér róðurinn þyngri, því ekki að vera búin að sýna fyrirhyggju eins og gert var hér forðum daga og sagt var frá í Mosebók, eins og ég vitnaði til hér áðan.
    Ég held að það hafi ekki verið mikið fleiri atriði sem ég ætlaði að koma hér að nema að mér þykir nokkuð hvimleitt að Hafrannsóknastofnun skuli vera orðin tilraunastöð björgunaraðgerða af ýmsu tagi. Það er verið að bjarga hér fjárhag Hafrannsóknastofnunar með einum hætti eitt árið og öðrum hætti annað árið og alltaf er tjaldað til einnar nætur. Það er líka gert ef þetta á að verða til þess að lappa upp á fjárhag Hafrannsóknastofnunar, því það er alveg ljóst að ef við búum ekki að vel að okkar hafrannsóknum og rannsóknum í sjávarútvegi almennt, þá erum við að gera alvarleg mistök sem geta orðið okkur alveg feykilega dýr. Og hvaða sjóð á að leggja niður næsta ár til þess að fjármagna Hafrannsóknastofnun? Kannski hæstv. sjútvrh. geti upplýst það. Það má vel vera að það sé til sjóður sem væri heppilegra að leggja niður heldur en Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. En vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið um hlutverk hans þá held ég að það sé alla vega ekki hægt að mæla með að leggja þennan sjóð niður.