Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:34:30 (2756)


[00:34]

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í andsvari hæstv. ráðherra kom enn ekkert fram sem breytti þeirri skoðun minni að það skortir fullkomlega rök.
    Vissulega bendir hann á að sjávarútvegsfyrirtæki geti hvert um sig fundið sína sveiflujöfnunaraðferð, en þarna var komið ákveðið kerfi sem hefur reynst vel. Ég vil benda á að hún reyndist nú ekki verr en það að hægt hefur verið að ganga í þennan sjóð og það hefur verið hægt að koma til móts við ákveðna kröfu sem hefur verið í samfélaginu þegar sveiflur hafa verið vegna annars en verðlags. Þannig að þetta hefur reynst hin nýtilegasta aðferð og ég held að það hefði verið nær að fara þá leið sem ég gerði að aðalefni í mínu máli og það er að reyna til þrautar að sníða af hugsanlega vankanta á þessum sjóði, jafnvel þó það sé erfitt, því það er ekki endilega vond lausn sem erfitt er að ná. Ég vona að það sé enginn að einfalda það. Og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það séu fundnar ákveðnar sameiginlegar lausnir, sameiginlegt kerfi sem gefst vel. Við gerum það í lífeyrissjóðakerfi, við gerum það með ýmsum hætti og við gerum það meira að segja með því að leggja sameiginlega fyrir og greiða okkar skatta og verja þeim í þágu þess sem þarf að gera sameiginlega.
    Eins lít ég á að þetta sé það stór hluti af okkar atvinnulífi að sjávarútvegurinn verði að taka sameiginlega á, jafnvel þó með sérmerktum innstæðum sé í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins eins og var.