Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:36:48 (2757)


[00:36]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það kemur aftur og aftur fram við umræðu hér um sjávarútvegsmál að hæstv. sjútvrh. lætur ekki svo lítið að svara spurningum eða fara orðum um hugmyndir sem þar eru settar fram og það er mjög erfitt að taka þátt í umræðum um sjávarútvegsmál þegar hæstv. sjútvrh. hagar sér með þessum hætti. Ég tel að þetta sé ólíðandi og hæstv. ráðherra verði að gera sér grein fyrir því að hann þarf að rækja sitt hlutverk hér á hv. Alþingi þegar verið er að ræða um þau mál sem undir hann heyra.
    Hér hafa verið settar fram spurningar um efni og hér hafa verið settar fram hugleiðingar um t.d. hvernig eigi að fara með þá fjármuni sem verið er að tala um. Mig langar til þess að gera eina tilraun enn til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. með hvaða hætti hann ætlar að ráðstafa þessu fé á næsta ári, því það er greinilegt að með því að leggja frv. fram núna og ræða það þegar komið er fram á nótt, þá hlýtur það að vera hans hugmynd að það eigi að koma þessu máli í gegnum þingið og þetta eigi að taka gildi á næsta ári. En ég hef ekki komið auga á það í fjárlögunum hvar þessar tekjur koma niður og mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra benti mér á hvar það er. Það er a.m.k. ekki í sértekjum Hafrannsóknastofnunar því að þær hafa nú skroppið æðimikið saman frá því að gert var ráð fyrir því í fyrra að þær yrðu 500 millj. eða hátt í það, held ég, eða meira. Eitthvað í kringum hálfan milljarð áttu þær að vera í fyrra, en núna er gert ráð fyrir að sértekjur Hafrannsóknastofnunar séu 20 millj. og 900 þús. kr. Þannig að það getur varla verið að þetta sé í sértekjunum. Ég hef ekki rekist á þetta annars staðar og mig langar til þess að biðja hæstv. sjútvrh. að benda mér á hvar eigi að ráðstafa þessum fjármunum, því það er greinilegt, eins og ég sagði áðan, að hann ætlar sér að koma þessu máli í gegnum þingið.
    Ég hef miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt að eyða tíma í það að koma máli hér í gegn þegar hver þingmaðurinn eftir annan hefur komið upp og sagt að hann telji að það sé nú ekki ástæða til að leggja niður þennan sjóð. Meira að segja gekk hv. 1. þm. Vestf., hv. formaður sjútvn. þingsins, hér í ræðustólinn og sagðist að vísu ætla að styðja þetta mál, að leggja þennan sjóð niður, en lýsti því með mörgum orðum að það væri vitlaust að gera það, en hann væri svo sem ekkert að halda uppi sjóði sem útgerðarmenn vildu ekki sjálfir.     Ég verð að segja það eins og er að ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt að vera að eyða tíma þingsins í að ræða þetta mál og eyða tíma sjútvn. í að fara yfir það áður en þing fer heim í jólaleyfi eða áramótaleyfi eða hvenær það nú verður sem Alþingi lýkur sínum störfum á þessu ári og tel að það væri nú kannski eitthvað þarfara hægt að hafa fyrir stafni í þeirri nefnd. T.d. að reyna að leysa þau vandamál sem hafa verið til umræðu í kvöld, þ.e. gera betrumbætur á lögunum um stjórn fiskveiða svo það sé hægt að leysa þetta sjómannaverkfall.
    Ég verð að segja það á meðan ég fer almennum orðum um þá umræðu sem hefur verið í gangi um sjávarútvegsmál í kvöld að mér finnst það með eindæmum með hvaða hætti menn hafa tekið þátt í henni. Það hefur t.d. verið þannig að það mun einn hv. þm. frá Alþfl. hafa verið staddur í þingsalnum í kvöld en hann er löngu farinn núna. Enginn lét svo mikið að lyfta hendi til að biðja um orðið til að gera grein fyrir afstöðu Alþfl. til þessara mála. Og ekki hafa þeir verið margir þingmenn Sjálfstfl. sem hafa gengið til ræðustóls til að segja sínar skoðanir á þessum sjávarútvegsmálum. Og ég tel reyndar að það hafi kannski verið meiri ástæða til að menn gerðu grein fyrir sínum skoðunum hér í kvöld heldur en stundum áður því það liggur mikið við.
    Ég vil fara fáeinum orðum um þennan sjóð en ætla ekki að eyða miklum tíma í það. Ég tel að full ástæða sé til að hafa sveiflujöfnunarsjóð í sjávarútveginum og að það hafi reyndar sannast mjög áþreifanlega á undanförnum árum. Það ætti hæstv. sjútvrh. að vera í fersku minni að það hefði kannski getað verið betra að það hefði verið öflug sveiflujöfnun í sjávarútveginum og í gjaldeyrismálum á sínum tíma þegar hann var forsrh. á árunum 1987 og þar á eftir þegar miklar hækkanir urðu á verðlagi í sjávarútvegi en menn fylgdu ákveðinni stefnu sem menn kölluðu þá fastgengisstefnu og fólst í því að gengið var fast í annan endann. Það var bullandi verðbólga í landinu en það var kallað að hafa fast gengi og sjávarútvegurinn endaði með að vera rekinn með bullandi halla þó svo að verð væru há. Þá hefði nú kannski verið ástæða til þess að hafa einhverja aðra skipan á þessum hlutum og þá hefði öflugur sveiflujöfnunarsjóður auðvitað þurft að vera til staðar.
    Mín skoðun er reyndar að það eigi að sameina í einum sjóði sveiflujöfnun og hagræðingu í sjávarútvegi. Ég tel að það geti komið sér mjög vel þegar góðærið kemur til þess að hagræða í sjávarútveginum að vera ekki alfarið með þessi tvö verkefni aðskilin, þ.e. sveiflujöfnunin og hagræðinguna í sjávarútvegi. Þetta er auðvitað hægt að gera ef menn vilja. Og ég tel að það hefði átt að vera hluti af almennum breytingum í þessu efni að leggja niður þennan sjóð, að eitthvað annað hefði tekið við, og við vitum hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að taki við, það er þróunarsjóðurinn. Hann mun ekki vera hugsaður að neinu leyti sem sveiflujöfnunarsjóður og menn ætla það greininni sjálfri, eins og hæstv. sjútvrh. lýsti áðan, að hafa það á hendi sinni að jafna sveiflurnar. Þar geta menn bara skoðað reynsluna og ég bendi á það sem ég sagði hér áðan um hana.
    Ég nefndi áðan að það er ekki gert ráð fyrir þessum tekjum að mér sýnist í fjárlagafrv. en þarna er verið að tala um tekjur til Hafrannsóknastofnunar upp á 215 millj. kr. Ég fer fram á það við hæstv. sjútvrh. að hann t.d. svari því hvort hann er ekki tilbúinn að standa að því að nota þessa peninga ekki í almennan rekstur Hafrannsóknastofnunar heldur í sérstakt verkefni sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan, þ.e. skipakaup fyrir Hafrannsóknastofnun. Og þá væri það vel ef menn á annað borð ganga þessa göngu til enda að leggja þennan sjóð niður að taka þá ákvarðanir í þessu efni í leiðinni.
    En eins og ég segi þá tel ég að það væri kannski ástæða til að eyða tíma þingsins í annað en skakast hér með mál sem greinilega engin samstaða er um í þinginu. Það þarf örugglega að fara yfir þetta mál með ýmsum aðilum eftir að sjútvn. hefur fengið það í hendurnar og tíminn til að afgreiða það er þess vegna ekki til staðar. Þess vegna held ég að það væri kannski rétt að menn tækju fyrir önnur mál en þetta til þess að reyna sig við áður en þingið fer í jólafrí. Ég ætla ekki að tefja tíma þingsins í kringum þetta mál. Ég vona bara að menn hafi vit á því að fara ekki að eyða tíma okkar sjávarútvegsnefndarmanna í það. Ég held að það væri miklu nær að sjútvn. færi í það verkefni sem við höfum margrætt í kvöld að þurfi að fara í, þ.e. að skoða með hvaða hætti er hægt að koma til móts við sjómenn í þeirri deilu sem núna er yfirvofandi og sem þingmenn og sérstaklega þingmenn stjórnarflokkanna hefðu átt að gera grein fyrir með hvaða hætti þeir hyggjast leysa. Hæstv. sjútvrh. hefði auðvitað átt að tala skýrt í kvöld og segja frá því með hvaða hætti hann ætlaði að leggja sitt lóð á vogarskálina eftir að hæstv. ríkisstjórn með hann í broddi fylkingar er búinn að fleygja inn í þingið frv. um stjórn fiskveiða og fylgifrv. þess frv. sem eru þvert á það sem sjómenn eru að fara fram á að verði gert, þ.e. að gerðar verði breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem komi í veg fyrir að hægt sé að hafa af þeim hlut þeirra.
    Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég ítreka að ég óska eindregið eftir því að hæstv. sjútvrh. gangi til ræðustóls og geri þessum fáu þingmönnum sem eftir sitja og því fólki sem hefur verið að fylgjast með þessari umræðu skýra grein fyrir því hvað hann ætlast fyrir til þess að leysa þessa deilu sem er komin upp og svari þeim spurningum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði fram áðan.