Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:47:25 (2758)


[00:47]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt hjá hv. 3. þm. Vesturl. að í fjárlögum fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir sértekjum hjá Hafrannsóknastofnun. En eins og ég þykist vita að hv. þm. man þá var gert ráð fyrir því fyrir þetta ár að Hafrannsóknastofnun fengi sértekjur. Og til þess að mæta þeim er þessi ráðstöfun ákveðin sem mælt er fyrir um í frv.
    Að því er varðar þær fyrirspurnir sem hv. þm. ítrekaði hér um afskipti af kjaradeildu sjómanna og útvegsmanna ítreka ég fyrri svör mín í þeim efnum. Sú kjaradeila stendur á milli sjálfstæðra félaga sjómanna og útvegsmanna. Hún er nú til meðferðar hjá ríkissáttasemjara og á þessu stigi máls er ekki tilefni til afskipta af hálfu stjórnvalda. Með því væru stjórnvöld að hlutast til um sáttastörf með óeðlilegum hætti. Hins vegar hefur legið fyrir allar götur síðan sl. vor að ég væri tilbúinn til að ræða þessi mál við báða samningsaðila.