Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 01:31:44 (2773)


[01:31]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það fór loks svo að það komu fram á Alþingi eftir langa mæðu þrjú frv. Frv. um stjórn fiskveiða, þróunarsjóð sjávarútvegsins og ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sem hefur verið beðið eftir æði tíma og verið innt eftir því þráfaldlega í allt haust hvenær kæmi fram. Með þessu fylgir frv. til laga um afnám laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það bregður svo við að nú er þess krafist að það frv. verði afgreitt héðan fyrir jól eins og hér sé um eitthvert smámál að ræða sem sé hægt að afgreiða á nokkrum dögum. Hér er nefnilega ekki um neitt smámál að ræða. Hér er um að ræða sjóð sem í voru milljarðar þegar núv. ríkisstjórn tók við. Þó það væri talað mikið um sjóðasukk fyrrv. ríkisstjórnar þá var greitt inn í þennan sjóð á árunum 1990--1991 2,5 milljarðar kr. Eina raunverulega aðgerð ríkisstjórnarinnar á sl. ári í sjávarútveginu var að greiða innstæður út úr þessum sjóði. Nú liggur alveg lífið á fáeinum dögum fyrir jól í miðjum jólaönnunum að leggja þennan sjóð niður til að það sé hægt að greiða úr honum það sem eftir er inn í rekstur Hafrannsóknastofnunar. Þetta er nú aldeilis frammistaða í lagi. Auðvitað liggur ekkert á að afgreiða þetta frv. Það lá ekki svo mikið á að tryggja rekstur Hafrannsóknastofnunar á yfirstandandi ári að það var ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum að afgreiddar voru á fjáraukalögum 300 millj. kr. til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Og síðan liggur svo mikið á núna að afgreiða 190 millj. á næsta ári til þessa reksturs að hér á að rúlla vandasömu máli í gegn á fáeinum dögum þegar alveg er sýnt að það gefst enginn tími til að skoða það til hlítar, það er alveg ljóst. Hér er um ágreiningsmál að ræða og alls ekki sjálfgefið svo ekki sé meira sagt að það eigi að leggja þennan sjóð niður.
    Hér er um mál að ræða sem kemur inn á efnahagsstefnuna almennt, hvort það eigi að lögbinda sveiflujöfnun í sjávarútvegi. Það er ekkert smámál. Það kann að þykja forsjárhyggja að ætla að lögbinda sveiflujöfnun í þessum efnum. En það vill svo til að forsjárhyggja á nokkuð upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn. Það kom inn í félmn. Alþingis í morgun undirskrifað bréf frá þremur ráðherrum, hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., um að lögbinda skattheimtu í þessu þjóðfélagi. Að sveitarfélögin mættu ekki leggja á lægra útsvar en 8,4%. Ef þetta er ekki forsjárhyggja þá veit ég ekki hvað. Svo liggur svo mikið á í nafni frelsisins að leggja niður þennan sjóð að það má ekki einu sinni athuga málið.
    Ef hæstv. sjútvrh. heldur að það sé lítið að gera í Alþingi þessa síðustu daga þá vil ég rifja upp örfá mál sem eiga eftir að fara í 2. umr. Það er í fyrsta lagi skattamál sem mun taka mjög langan tíma í umræðu þar sem er ágreiningur. Það er frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það er 3. umr. fjárlaga þar sem hv. form. fjárln. segir í sjónvarpsviðtali í kvöld að það sé aðeins eftir að fínpússa frv. og það sé efh.- og

viðskn. sem hafi ekki skilað áliti yfir tekjuhliðina, það sé aðeins á því sem standi. Fjárlagafrv. er ekkert tilbúið til 3. umr. og mun taka hér æðitíma. Það er frv. sem ég nefndi áðan um tekjustofna sveitarfélaga þar sem ríkisstjórnin hæstv. í nafni frelsisins er að lögbinda að sveitarfélögin megi ekki slá af útsvari sínu niður fyrir 8,4% þar sem hún er með hinni hendinni í nafni frelsisins að afnema Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og leggja hann niður. Hér sé ég að hæstv. landbrh. situr með aðstoðarmönnum sínum við að reyna að koma fram frv. um breytingar á búvörulögum sem er eitt heitasta deilumál sem ríkisstjórnin hefur fengist við. Okkur var boðað það, einnig í sjónvarpi í gærkvöldi, að það ætti að afgreiða það mál fyrir jól. Mér er nú spurn: Er hægt að bjóða upp á slík vinnubrögð ? Þar að auki eru náttúrlega öll smærri mál sem eftir eru og ég ætla ekki að tefja tímann á að telja upp.
    Ég held að hv. þm. eigi ekki að láta bjóða sér upp á slíkt. Þetta mál er þess eðlis að það þarf að ræða vel og senda það til umsagnar á eðlilegan hátt, senda það til sjútvn. og senda það síðan til umsagnar. Það er mjög hæfilegur sá tími að gefa frest um það þangað til Alþingi kemur aftur saman ( Gripið fram í: Fram á góuna.) eftir áramótin. Taka þetta síðan til afgreiðslu á venjulegan hátt þegar þing kemur saman aftur seinni partinn í vetur. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Alþingi, hv. þm. og hæstv. ráðherrar eiga að setja metnað sinn í það að vanda slíka lagasetningu, ekki síst slíka lagasetningu sem kemur inn á grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar sem hefur mikil áhrif í efnahagsmálum. Ég vil skírskota til þess að ef þessi blessaður sjóður hefði nú ekki verið til á síðasta ári þá hefði verið lítið um afrek ríkisstjórnarinnar í málefnum fiskvinnslunnar a.m.k.
    Ég vil aðeins ítreka að þetta mál á að fá vandaða meðferð og hv. þm. eiga ekki að láta bjóða sér að afgreiða þetta mál í einhverju hendingskasti á næturfundum rétt fyrir jólin.