Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:34:54 (2776)


[10:34]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða þann framgang sem þarf að hafa á málum næstu daga til þess að störfum þingsins ljúki fyrir jól eins og áformað er samkvæmt starfsáætlun. Ég tel einnig rétt að það komi hér fram að nefndarmenn í fjárln. voru boðaðir á fund í morgun kl. 8.30. Fundur stóð hér sl. nótt til klukkan að ganga þrjú og þegar nefndarmenn mættu í fjárln. var ekki hægt að halda neinn fund. Það varð að gefa það eftir að forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem átti að koma á okkar fund, færi á fund efh.- og viðskn. og það var í raun upplýst að enn væri ekki komið samkomulag á milli meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnarinnar. Þess vegna stendur enn á því að sá stjórnarmeirihluti sem hér ræður ríkjum komi sér saman um málin svo að hægt sé að afgreiða fjárlög sem er stærsta mál þingsins á haustdögum. Menn eru að tala um að setja upp skipulag fyrir þingstörf svo að þingi geti lokið á eðlilegum tíma og þingmenn komist heim til sín. Hér eru mjög margir landsbyggðarþingmenn sem þurfa að komast heim nokkru fyrir jól. Sú sem hér stendur komst ekki á síðasta þingi heim fyrr en á Þorláksmessu og ég get upplýst það að síðustu 2--3 dagana hefur ekki verið flogið til Ísafjarðar.
    Ég hef mjög margt að athuga við svona starfsemi eins og hér er lýst og vísa allri ábyrgð á stjórnarmeirihlutann að geta ekki komið sér saman um mál svo að hægt sé að afgreiða þau í þinginu.