Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:43:43 (2781)


[10:43]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þetta múrverk sem fer fram í fjárln. Það er á annarra könnu og yfirstjórn hv. formanns á því öllu saman. En ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að átta sig á því hvernig starfið hefur gengið til í efh.- og viðskn. síðustu daga. Þar á meðal að það sem allur tími nefndarinnar hefur farið í undanfarna viku og þangað til síðdegis í gær, skattamálin, lá ósköp einfaldlega þannig að meiri hlutinn var ekki tilbúinn með breytingartillögur sínar og afgreiðslu á því máli út úr nefndinni fyrr en undir kvöld í gær. Og þess vegna var það ósköp einfaldlega þannig að nefndin komst ekki til þess að fara að líta á tekjuhlið fjárlaganna fyrr en á fundi í morgun. Þá tók reyndar ekki betra við því að þeir embættismenn sem höfðu átt að koma til nefndarinnar til að hefja þá yfirferð með nefndinni voru að sögn tepptir á fundum með fjárln. Það var því hálfgert uppihald í störfum efh.- og viðskn. af þeim sökum framan af morgni. Síðan liggur fyrir að það eru að koma endurskoðuð drög nýrrar þjóðhagsáætlunar. Þjóðhagsstofnun er fyrst tilbúin með það skjalfest nú um hádegið.
    Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að það liggi algerlega ljóst fyrir að tempóið í vinnu nefndarinnar takmarkast af annars vegar ósamkomulagi meiri hlutans og hins vegar því að viðkomandi stofnanir, fjmrn. og Þjóðhagsstofnun, hafa ekki verið tilbúnar með undirstöðuplögg í málinu. Og ég legg til að hv. yfirmúrarameistari, formaður fjárln., verði hógvær í orðum á næstunni umfram það sem verið hefur þegar hann sendir skeyti til annarra nefnda hvort sem það eru efh.- og viðskn. eða t.d. iðnn. sem fékk frá honum kveðjur í Alþýðublaðinu fyrir nokkrum dögum.