Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:49:44 (2784)


[10:49]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 9. þm. Reykv. hlýt ég að gera athugasemd. Það hefur verið þannig að fjárln. hefur haft ágætt samstarf við fagnefndir. Ég vísa því algjörlega á bug að formaður fjárln. hafi ekki lagt sig fram um að eiga gott samstarf við formenn fagnefnda. Hann hefur lagt sig mjög fram um það í allri vinnu í fjárln. að eiga sem allra best samstarf við stjórnarandstöðuna og einnig fagnefndir. Hann boðaði m.a. til sérstaks fundar með formönnum nefnda þingsins til þess að samræma vinnubrögð og reyna að koma á betri skikkan og skipan á störf nefnda í þinginu. Ég undrast því mjög satt að segja þessa ræðu hv. 9. þm. Reykv. og vona svo sannarlega að hann átti sig á þessum staðreyndum og við getum haldið áfram að vinna í nefndunum og í þinginu eins og eðlilegt er.