Tekjustofnar sveitarfélaga

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:57:05 (2788)


[10:57]
     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 389 og brtt. á þskj. 390 um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
    Félmn. hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna frá félagsmálaráðuneytinu Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sturlaug Tómasson deildarstjóra, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann og Þórð Skúlason framkvæmdastjóra, frá Alþýðusambandi Íslands Láru V. Júlíusdóttur framkvæmdastjóra og Gylfa Arnbjörnsson hagfræðing, frá Vinnuveitendasambandi Íslands Þórarin V. Þórarinsson framkvæmdastjóra og Hannes G. Sigurðsson hagfræðing, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Ögmund Jónasson formann og Rannveigu Sigurðardóttur hagfræðing, frá Fasteignamati ríkisins Magnús Ólafsson forstjóra og Elís Reynarsson rekstrarstjóra, frá Reykjavíkurborg Eggert Jónsson borgarverkfræðing og frá Neytendasamtökunum Jóhannes Gunnarsson formann.
    Þá tók félmn. þá ákvörðun að senda nokkrum sveitarfélögum frv. til umsagnar og valdi sveitarfélög af ólíkri stærð og gerð og með misjafna staðsetningu að sjálfsögðu með tilliti til atvinnureksturs til að reyna að fá mynd af viðbrögðum sveitarstjórna við þessu frv. Nefndin fékk umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sveitarstjórn Breiðdalshrepps, bæjarstjórn Selfoss, sveitarstjórn Hofshrepps, borgarstjóranum í Reykjavík, bæjarstjórn Sauðárkróks, sveitarstjórn Laxárdalshrepps, bæjarstjórn Egilsstaðabæjar, bæjarstjórn Vestmannaeyja, bæjarstjórn Akraness, bæjarstjórn Grindavíkur, Fasteignamati ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, sveitarstjórn Hofshrepps, sveitarstjórn Hólmavíkurhrepps, bæjarstjórn Mosfellsbæjar, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, fjármálaráðuneytinu, bæjarstjórn Hafnarfjarðar, bæjarstjórn Kópavogs, bæjarstjórn Seltjarnarness og bæjarstjórn Garðabæjar.
    Meiri hluti félmn. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á 6. gr. frv. Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni. Hvað útsvarið varðar gerir frv. ekki ráð fyrir öðrum breytingum en þeim að þetta tiltekna hámark verði 9,2%. Í breytingartillögunni felst að lágmarksútsvar verði lögbundið 8,4% og eru veigamestu rökin fyrir þeirri breytingu að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verður minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins jafnari.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 10. gr. frv. sem kveður á um nýtt ákvæði til bráðabirgða. Lagt er til að aukið verði við 1. efnismgr., í fyrsta lagi til að taka af tvímæli um að viðbótarfasteignaskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á árinu 1994, sem ákvæðið veitir heimild til, skuli renna óskiptur til sveitarsjóðs og í öðru lagi að álagning og innheimta þessa skatts verði í höndum sveitarstjórnar en hún geti jafnframt falið sérstökum innheimtuaðila þá innheimtu.
    Ég vil í þessu sambandi benda á að á bls. 3 í athugasemdum með frv. sjálfu stendur undir lið 2 að lagt sé til að álagning í efra þrepi verði í samræmi við núgildandi lög um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og að samhliða því vinni félmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga að nánari útfærslu málsins með það að markmiði að skatturinn falli að núverandi fyrirkomulagi við álagningu fasteignaskatts sveitarfélaga.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. efnismgr. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að tímafrestur eigenda til að senda skrá yfir eignir ásamt tilgreindum upplýsingum miðist við árslok 1993 verði framkvæmdin sú að viðkomandi sveitarstjórn auglýsi hver frestur þessi verði, en vegna þess hve langt er nú liðið á árið er ekki mögulegt að miða við næstu áramót. Í öðru lagi er felldur brott þáttur Fasteignamats ríkisins í viðtöku skráa og upplýsinga samkvæmt ákvæðinu.
    Fram kemur á bls. 2 varðandi 10. gr. frv. að samkvæmt frv. skuli eigendur fasteigna senda Fasteignamati ríkisins, eða því sveitarfélagi sem eign er í, skrá yfir eignir sem falla undir ákvæði þetta ásamt upplýsingum um síðasta heildarfasteignamatsverð þeirra eða eftir atvikum kostnaðarverð. Enn fremur skal skrá þær upplýsingar um notkun þeirra svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem einnig er notað til annars en verslunarreksturs og skrifstofuhalds. Fasteignamat ríkisins skal útbúa viðeigandi eyðublöð í þessu sambandi. Vanræki húseigandi að senda skrá yfir eignir sem ákvæði þetta tekur til er sveitarstjórn heimilt að láta fylla út slíka skrá og nota til viðmiðunar við álagningu þar til húseigandi bætir úr.
    Við þetta komu athugasemdir og er breytingin gerð í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur hjá sveitarfélögunum að skrár yfir eignir séu sendar sveitarfélögunum auk þess sem það einfaldar framkvæmdina að hafa hana hjá einum og sama aðila.
    Í þriðja lagi er síðan lögð til viðbót við 2. efnismgr. sem er í samræmi við gildandi framkvæmd að skattyfirvöld séu ráðgjafaraðilar sveitarstjórna við framkvæmd skattlagningar. Í því sambandi vil ég benda á að c-liður 2. liðar í brtt. á þskj. 390 er einmitt um að eigendur fasteigna skuli senda því sveitarfélagi sem eign er í skrá yfir eignir sem falla undir ákvæði þetta ásamt upplýsingum um síðasta heildarfasteignamat þeirra eða eftir atvikum kostnaðarverð. Enn fremur skal skrá þær upplýsingar um notkun þeirra svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem einnig eru notaðar til annars en verslunarreksturs og skrifstofuhalds. Sveitarstjórn auglýsir frest eigenda til að skila upplýsingum þeim er að framan greinir. Vanræki húseigandi að senda skrá yfir eignir sem ákvæði þetta tekur til er sveitarstjórn heimilt að nota aðrar upplýsingar til viðmiðunar við álagningu þar til húseigandi bætir úr.
    Skattyfirvöld skulu veita sveitarstjórnum þær upplýsingar sem þörf er á í sambandi við framkvæmd ákvæðis þessa, þar á meðal skal heimila sveitarstjórnum aðgang að skrám yfir aðila sem skattlagðir voru á grundvelli V. kafla laga nr. 111 1992, um breytingar í skattamálum.
    Loks eru lagðar til breytingar á 10. gr. sem miða að því að taka af öll tvímæli um að viðbótarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði tekjustofn sveitarfélaga þar til ákvörðun hefur verið tekin um að koma þeirri skattheimtu fyrir með öðrum hætti. Markmiðið er að hinn sérstaki fasteignaskattur verði aðeins lagður á á árinu 1994, en rétt þykir, svo að réttarstaða sveitarfélaganna sé ljós að þessu leyti, að leggja til að við greinina bætist ný málsgrein þess efnis að ákvæðið verði í gildi þar til félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi unnið að nánari útfærslu málsins auk þess sem að ártöl eru felld brott úr 1. efnismgr. í sama tilgangi.
    Lagt er til að í 10. gr. frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í 26. gr. laganna segir að sveitarstjórn skuli ákveða fyrir 1. des. ár hvert hvaða hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á næsta ári og skuli tilkynna ákvörðun sveitarstjórnar til fjármálaráðuneytisins eigi síðar en 15. des. á sama ári. Með bráðabirgðaákvæðinu er lagt til að ráðherra verði heimilt, þrátt fyrir ákvæði 26. gr., að auglýsa á árinu 1993 sérstaka fresti sveitarstjórna til að ákveða hundraðshluta útsvars en tilkynning til ráðuneytis skuli hafa borist eigi síðar en tveimur dögum eftir að ákvörðun sveitarstjórnar átti að liggja fyrir. Breytingin helgast af gildistöku þessa frv. Þá er einnig lagt til að heimilt verði að miða við ákvörðun fyrra árs að viðbættu 1,5% vanræki sveitarstjórn tilkynningarskyldu sína samkvæmt ákvæðinu. Væri viðmið fyrra árs 7,5% yrði niðurstaðan þannig 9% hjá viðkomandi sveitarfélagi. Er þessi áætlunarheimild í samræmi við ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1988.

    Ég vil taka fram að Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta nál. meiri hlutans rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Eggert Haukdal, Einar K. Guðfinnsson og Valgerður Gunnarsdóttir.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna það að erindi barst félmn. um að binda útsvarsálagningu við 8,4% lágmark og flytur meiri hlutinn þá tillögu eins og fram hefur komið. Mér finnst mikilvægt í því sambandi að kynna þá umsögn sem fylgdi erindinu og er frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og hljóðar svo:
    ,,Óskað hefur verið eftir afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga til þeirrar hugmyndar að í frv. til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem nú liggur fyrir Alþingi, verði bætt ákvæði um að útsvar megi ekki vera lægra en 8,4%. Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni. Hvað útsvarið varðar er í umræddu frv. ekki gert ráð fyrir neinum breytingum öðrum en þeim að þetta tiltekna hámark verði 9,2%. Gert er ráð fyrir að löggjafinn ákveði að binda útsvarsálagningu sveitarfélaga við tiltekið hámark. Veigamestu rökin fyrir því að lögbinda lágmarksútsvar eru þau að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verður minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins verða jafnari. Samband ísl. sveitarfélaga gerir því ekki athugasemd við þá hugmynd að lágmarksútsvar verði lögbundið 8,4%.``
    Undir þetta ritar Þórður Skúlason framkvæmdastjóri.
    Síðara atriðið sem ég óska að nefna í lokin og er mjög mikilvægt er að komi fram að nánast öll sveitarfélög sem sendu umsögn til félmn. varðandi þetta frv., reyndar önnur en Reykjavík, tjáðu sig á þann hátt að þau teldu frv. ásættanlegt og flest þeirra hvöttu mjög til að frv. yrði samþykkt sem allra fyrst.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið framsögu fyrir meirihlutaáliti félmn.