Tekjustofnar sveitarfélaga

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 11:27:04 (2790)

[11:27]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í hv. félmn. og hef ekki fylgst nógu grannt með meðferð þessa máls en ég á hins vegar sæti í hv. efh.- og viðskn. þar sem við erum að fjalla um hið stóra og mikla skattafrv. ríkisstjórnarinnar og þetta tvennt tengist auðvitað saman eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns. En það mál sem hér er til umræðu, um tekjustofna sveitarfélaga, snertir auðvitað líka það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir og það vakna ýmsar spurningar varðandi stöðu þess sem ég mun koma inn á á eftir. En ég get ekki annað en hafið mál mitt á því að vekja athygli á þessum slæmu vinnubrögðum sem tíðkast í þinginu og virðast sérstaklega tengjast skattamálum. Þetta gríðarlega stóra og viðamikla skattafrumvarp sem við erum að fjalla um í efh.- og viðskn. kom fram í þinginu í lok nóvember þó að í því sé að finna atriði sem samið var um í kjarasamningum í maí. Menn sjá það fyrir að það þarf að gera viðamiklar breytingar á skattkerfinu, samt er það dregið fram undir jól að leggja þessar breytingar fram á þinginu þannig að tíminn sem Alþingi hefur til þess að fjalla um jafnviðamikið mál og lækkun virðisaukaskatts á matvælum er nánast enginn. Og það sama gildir um það frv. sem hér er til umræðu, tekjustofna sveitarfélaga, það hefur lengi verið ljóst að það þyrfti að finna leið til þess að bæta sveitarfélögunum það tekjutap sem þau urðu fyrir vegna niðurfellingar aðstöðugjalds en það er ekki fyrr en sama sagan endurtekur sig, það er rétt fyrir jól núna sem frv. er lagt fram og er til umræðu í miklu tímahraki rétt fyrir jólin. Ég verð að segja að það er algjörlega ótækt að standa svona að málum. Menn eru búnir að hafa meira en ár til þess að undirbúa þetta mál um tekjuöflun sveitarfélaganna, gott ef það eru ekki komin tvö ár síðan aðstöðugjaldið var fellt niður, og það hefur iðulega verið spurt um það í umræðum hvernig ætti að bæta sveitarfélögunum upp tekjutapið, hver yrði hin varanlega lausn, en síðan er það nokkrum dögum fyrir jól sem Alþingi fær að fjalla um þetta mikilvæga mál. Mér finnst þetta vera vinnubrögð sem við þurfum virkilega að taka á og ég trúi því ekki að það sé ekki hægt að standa betur að verki í ráðuneytunum, hvort sem það er félmrn. eða fjmrn., að mál geti ekki verið tilbúin fyrr þannig að það gefist tími til að vinna þau almennilega.
    En ef ég reyni að setja þetta mál um tekjustofna sveitarfélaganna í samhengi við aðrar breytingar sem verið er að gera í skattamálum þá er auðvitað raunin sú að ríkið er fyrst að lækka sinn tekjuskatt um 1,5%, hækkar hann síðan um 0,35% og ætlar sveitarfélögunum að fá inn 1,7%. Það á að innheimta meira en það sem ríkið ákvað til bráðabirgða að taka af sínum tekjuskattstofni og færa yfir til sveitarfélaganna. Það var reyndar ljóst að þessi 1,5% hækkun á tekjuskatti mundi alls ekki skila því sem þurfti til að bæta upp u.þ.b. fjögurra milljarða kr. tekjutap sem sveitarfélögin urðu fyrir. Því lít ég þannig á að með því að hækka útsvarsprósentuna er verið að ná þar inn meira en því sem var borgað úr ríkissjóði.
    Samhliða þessum breytingum, þ.e. hækkun á tekjuskatti og hækkun á útsvari, þá kemur auðvitað þar á móti lækkun á virðisaukaskatti af matvælum sem er þó mjög óljóst hvað þýðir fyrir fjölskyldurnar í landinu, þ.e. hvernig sú lækkun jafnast niður á fjölskyldurnar í landinu. En þær upplýsingar sem við höfum fengið í hv. efh.- og viðskn. benda til þess að þessi lækkun á virðisaukaskatti af matvælum komi betur út fyrir þær fjölskyldur sem meira hafa vegna þess að það gefur auga leið að því meira sem fólk eyðir í matvæli því meira græðir það á þessari lækkun þó að útgjöld til matarkaupa vegi auðvitað þyngra í útgjöldum láglaunafjölskyldna.
    Það er önnur skattlagning sem gengur í gildi um áramótin og við eigum eftir að ræða mikið á næstu dögum en það er virðisaukaskattur sem verið er að setja á alla flutninga í landinu, flutninga bæði á landi, sjó og í lofti. Það er engum blöðum um það að fletta að sú skattlagning kemur verst við þá sem mikið þurfa að ferðast og eins og rækilega hefur komið fram í umfjöllun um málið þá eru það fyrst og fremst landsbyggðarmenn. Það eru landsbyggðarmenn sem eru á ferð og flugi vegna þess hvernig skipulagi er háttað í okkar samfélagi. Og þessi skattlagning mun auðvitað koma harðast niður á landsbyggðarfólki. En í mínum huga er nú ekki ljóst hver útkoman er úr þessu dæmi. Það er því miður erfitt að fá einhverjar raunhæfar tölur um það hvað þessar tilfæringar á sköttum þýða en það er algerlega ljóst að það er verið að auka skattbyrði á almenningi í landinu. Það er heildarútkoman úr dæminu. Það er verið að auka skattbyrði á fólkið í landinu.
    Það er kannski ekki ástæða til að vera að rekja hér hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig en niðurstaðan er auðvitað sú að skattar sem fyrirtæki greiddu hafa verið felldir niður og skattbyrðin færð yfir á fólkið í landinu. Það er auðvitað niðurstaðan. Nú voru menn sammála um að aðstöðugjaldið væri skattur sem þyrfti að breyta, bæði vegna þess að hann var óréttlátur og einnig til að samræma þessa skattlagningu því sem fram undan er í efnahagsmálum og með því að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði gengur í gildi. Ein ástæðan fyrir því að menn felldu niður aðstöðugjaldið var sú að þar með var verið að gera tilraun til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. En jafnframt er ljóst að aðstöðugjaldið vó ákaflega misjafnlega þungt hjá sveitarfélögum. Í Reykjavíkurborg hefur aðstöðugjaldið verið mikill, jafn og sterkur tekjustofn. Því kom það auðvitað verst við Reykjavíkurborg þegar aðstöðugjaldið var fellt niður. Ef ég man rétt voru það rúmir 2 milljarðar sem Reykjavíkurborg innheimti í aðstöðugjald. Og því er ljóst að það er mjög mikið í húfi fyrir Reykjavíkurborg hvernig þessum mikla tekjumissi verður mætt.
    Eins og menn vita þá tengist aðstöðugjaldið Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jöfnunarsjóðurinn er m.a. hugsaður til þess að jafna aðstöðu sveitarfélaganna í landinu, m.a. vegna mismunandi möguleika þeirra til tekjuöflunar. Það gefur auga leið að með því að búið er að leggja aðstöðugjaldið niður þá þarf að endurskoða hlutverk Jöfnunarsjóðsins og þær reglur sem um hann gilda. Og ég set fram þá spurningu hér: Hvað líður þeirri vinnu? Hvernig stendur á því eftir allan þennan tíma sem liðinn er frá því að aðstöðugjaldið var fellt niður að ekki er búið að setja nýjar reglur um Jöfnunarsjóðinn og hutverk hans? Hæstv. félmrh. hefur brugðið sér frá og ég get ítrekað þessa spurningu þegar hún kemur aftur í salinn.
    Þessi mál eru litin það alvarlegum augum af sveitarfélögunum í landinu og þar á meðal Reykjavíkurborg að sá einstæði atburður gerðist að borgarstjórn Reykjavíkur kallaði þingmenn Reykjavíkur á sinn fund. Því miður þá háttar því þannig að samband þingmanna og borgarstjórnar eða okkar sveitarstjórnarmanna er miklu miklu minna en tíðkast að ég held í öllum kjördæmum landsins og að mínum dómi að ástæðulausu því auðvitað eigum við þingmenn Reykjavíkur að fylgjast með fjárhagsstöðu borgarinnar, stöðu félagsmála og atvinnumála og því sem verið er að gera þar á bæ. En einhverra hluta vegna hefur það þróast þannig að sambandið þarna á milli er ákaflega lítið. En á þessum fundi þingmanna Reykjavíkur og borgarstjórnarinnar kom auðvitað fram að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðnar áhyggjur af þessari skattlagningu og finnst að það sé verið að fara allt of hratt í þessu máli. Enda eins og ég nefndi áðan þá liggja ekki fyrir þær reglur sem fara á eftir varðandi Jöfnunarsjóðinn. Þetta tengist líka áformum um breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem ég ætla reyndar að koma betur inn á hér á eftir.
    En það var sem sagt álit borgarstjórnar Reykjavíkur að það væri verið að fara of hratt og það var tillaga hennar að því fyrirkomulagi sem verið hefur í gildi, þ.e. um innheimtu tekjuskatts, að sveitarfélögin fengju í sinn hlut 1,5% af tekjuskatti ríkisins auk annarra framlaga, því fyrirkomulagi yrði haldið áfram og menn gæfu sér einfaldlega tíma til að skoða þessi mál í rólegheitunum í tengslum við þau áform sem uppi eru um breytta verkaskiptingu. En það þarf ekki að spyrja að því að íhaldið sér um sína og eftir þennan fund fóru náttúrlega af stað gríðarleg fundarhöld þegar menn gerðu sér grein fyrir því að íhaldið í

Reykjavík þyrfti kannski að fara að hækka útsvarið rétt fyrir kosningar sem er ekki það vinsælasta sem hægt er að gera. Og það má náttúrlega ekki setja íhaldið í meiri vanda en það er í nú þegar þannig að einhver töfraformúla var fundin upp og settur botn á innheimtu útsvara í landinu upp á 8,4%. Þetta er einhver furðulegasta ráðstöfun sem sést hefur í þinginu um árabil að því er ég hygg. Að sveitarfélögin skuli vera lögbundin til lágmarksinnheimtu skatta. Látum vera þó að menn setji hámark, það er eðlilegt að það séu einhver bönd á því hvað sveitarfélögin mega innheimta í sköttum en að krefjast þess að sveitarfélögin hafi lágmarksinnheimtu í prósentutali, það er ekki verið að setja reglu um að sveitarfélögin eigi fyrir þjónustunni, það er ekki sú regla sem við er miðað, heldur er sett þarna prósentutala um þessa innheimtu. Mér finnst þetta vægast sagt furðulegt og kalla á miklar skýringar frá þeim þremur hæstv. ráðherrum sem settust niður og sömdu þessa nýju reglu til að koma íhaldinu í Reykjavík í skjól. Þetta þarf heldur betur að skýra fyrir okkur.
    En það er ekki þar fyrir að staða Reykjavíkurborgar núna er með þeim hætti að það verður ekki hjá því komist að hækka útsvarið eða nýta þær heimildir sem eru til álagningar útsvars. Það stafar af því að ástand hér í borg hefur því miður farið mjög versnandi. Það kom fram á þessum fundi borgarstjórnar og þingmanna Reykjavíkur að borgarstjórnin er nýbúin að ákveða 110 millj. kr. aukafjárveitingu til Félagsmálastofnunar Reykjavíkur vegna þess að þörfin fyrir félagslega aðstoð er svo mikil í borginni í kjölfar atvinnuleysis, samdráttar og efnahagsörðugleika sem fjölskyldurnar í borginni eru að stríða við að staðan er nú þannig að áttunda hver fjölskylda, áttunda hver fjölskylda í borginni þarf á félagslegri aðstoð að halda. Þetta eru geigvænlegar tölur. Áttunda hver fjölskylda í borginni þarf á félagslegri aðstoð að halda. Þar á ofan kemur auðvitað það að Reykjavíkurborg hefur lagt allverulegar upphæðir til eflingar atvinnulífi í landinu en hún hefur fengið tiltölulega lítinn hluta þeirra peninga til baka. Mér þóttu það merkilegar upplýsingar sem fram komu á þessum fundi borgarstjórnar og þingmanna þar sem það er fullyrt í bréfum borgarstjórnarinnar að þau átaksverkefni sem efnt hafi verið til í atvinnumálum hafi skilað litlu. Ég vildi nú gjarnan heyra álit félmrh. á þessari fullyrðingu. Það var sem sagt fullyrt að þessi átaksverkefni hefðu skilað litlu.
    Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í þetta plagg borgarinnar sem lagt var fram vegna þessa fundar, en þar segir á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Á þessu ári voru sveitarfélögin síðan þvinguð`` --- ég bið hæstv. félmrh. að hlusta vel á þetta, hún er líka þingmaður Reykv. --- ,,til að greiða 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð í von um að framlög þeirra skiluðu sér til baka í svokölluðum átaksverkefnum en mikið vantar á að það hafi gerst.``
    Í tengslum við þetta vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvert framhaldið muni verða á þessu samstarfi sveitarfélaga og ríkisins í atvinnumálum því þetta snertir að sjálfsögðu tekjur sveitarfélaganna. Það á að lögbinda 600 millj. kr. framlag sveitarfélaganna til atvinnumála, væntanlega nú á næstu dögum. En því var haldið fram af sveitarstjórnarmönnum á þessum títtnefnda fundi að síðan yrði því lokið. Árið 1995 yrði þess ekki krafist af sveitarfélögunum að þau legðu fram fé til atvinnumála, til atvinnusköpunar. Fyrir mér eru þetta nýjar upplýsingar. Og ef maður horfir á þann gang sem verið hefur í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þá á ég eftir að sjá að þetta gangi fram og að ríkið muni ekki heimta fé af sveitarfélögum til nýsköpunar í atvinnulífinu auk þess sem sveitarfélögin eru auðvitað sjálf að gera vegna ástandsins í hinum einstöku sveitarfélögum.
    Ég nefndi það áðan að íhaldið sjái um sína og það eru þeir líka að gera í skattafrv. þar sem ákveðið hefur verið að fella niður 16. gr. frv. þar sem kveðið var á um það að fjárframlög og rekstraraðstoð sem opinberir aðilar veita þjónustufyrirtækjum skyldu verða skattskyldar. Þarna var auðvitað m.a. átt við Strætisvagna Reykjavíkur og það hefði auðvitað þýtt að íhaldið hefði orðið að hækka strætisvagnafargjöldin ofan á útsvarshækkunina. Þetta er ekki fallegt, þetta lítur ekki vel út fyrir kosningar. Það á bara að fella þetta niður. Það á að fella þetta niður til að bjarga íhaldinu. Þar með er ég ekki að segja að það sé eðlilegt að skattleggja þjónustu af þessu tagi, stuðning sveitarfélaganna við almenningssamgöngur. Það sem ég er að benda á með þessu er auðvitað það að þegar íhaldið í Reykjavík kippir í spottana þá stendur ekki á aðgerðum. Þá stendur ekki á því að bjarga málunum. Ráðherrarnir, ekki færri en þrír, setjast niður til að bjarga þeim málum. Væntanlega telur nú íhaldið sig vera búið að bjarga sér fyrir horn í þessum málum.
    Það er líka merkilegt það sem hér er að gerast þar sem verið er að færa skattinn af verslunar- og skrifstofuhúsnæði frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Og eins og menn vita, sem hér eru inni, þá er það áragamalt baráttumál Sjálfstfl. að leggja þennan skatt niður. Þeir hafa talið þetta óeðlilegan og vondan skatt á atvinnulífið. En nú er bara verið að færa þetta til íhaldsins í Reykjavík. Það er Reykjavíkurborg sem hefur að sjálfsögðu mestar tekjur af skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði eins og gefur auga leið. Nú fær Reykjavíkurborg þennan tekjustofn. Það er spurning hvort það er ekki hálfgerð hefndargjöf að senda þeim þennan pakka sem hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hefur barist gegn í áraraðir en hefur nú orðið að gleypa eins og fleira hér á hinu háa Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að nefna hér verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem vissulega tengist þessu máli. Þar minni ég aftur á það sem ég nefndi áðan að borgarfulltrúum hér í Reykjavík fannst eðlilegt að þessar tekjuöflunarleiðir sveitarfélaganna yrðu skoðaðar í samhengi við fyrirhuguð áform um breytta verkaskiptingu. Ég vil segja það hér sem mína skoðun að mér finnst ráðherrar og þessi ríkisstjórn hafa verið býsna yfirlýsingaglöð varðandi þessa breyttu verkaskiptingu og því er m.a. haldið fram að það standi til að færa grunnskólana yfir til sveitarfélaganna á árinu 1995 en að mínum dómi á mjög mikil umræða eftir að eiga sér stað um það mál. Það er mál sem þarf að skoða í mjög víðu samhengi út frá mótun menntastefnu og skilgreiningu á annars vegar hlutverki ríkisins og hins vegar hlutverki sveitarfélaganna í þeim málum. Það er engan veginn einfalt að komast að niðurstöðu í því. Ég sé ekki betur en að þessar hugmyndir um breytta verkaskiptingu þurfi auðvitað að taka til endurskoðunar í ljósi þess hve hrapallega tókst til varðandi sameiningu sveitarfélaga. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um framkvæmd þess máls þar sem ég tel að hafi verið allt of hratt farið. Ég vil taka það skýrt fram að ég er mikill fylgismaður þess að sameina sveitarfélög og tel að með slíkri sameiningu gætum við náð miklu meiri hagkvæmni og betri þjónustu fyrir fólkið í landinu en mér finnst að því miður hafi þannig verið staðið að málum varðandi undirbúning þessarar sameiningar að það var augljóst að þessu var öllu klúðrað. Þessu var öllu klúðrað. Og ég harma hvernig þar var staðið að málum.
    Mín niðurstaða er sem sagt sú að út úr þessu skattadæmi kemur hækkun sem lendir fyrst og fremst á almenningi í landinu og mín niðurstaða er einnig sú að ég tek undir þau sjónarmið borgarstjórnar Reykjavíkur að það hefði verið miklu eðlilegra að setjast niður og skoða tekjustofna sveitarfélaganna og verkaskiptinguna og fyrirhugaðar breytingar á henni og taka þetta allt í samhengi og komast að niðurstöðu í ró og næði í stað þess að vera að ana út í breytingar rétt fyrir jól, illa undirbúnar, illa útreiknaðar og að mörgu leyti í trássi við vilja stærstu sveitarfélaganna.