Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 13:37:45 (2792)


[13:37]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hér er á ferðinni frv. til laga um breytingar á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í þessu frv. eru ýmis ákvæði sem ég tel vera til bóta. Vil ég þar sérstaklega nefna breytingar á lagaákvæðum á vátryggingarsviði og ýmislegt að því er varðar tryggingar sem verið er að færa til þess horfs að afnema einokun ákveðinna aðila á tryggingum sem ég tel vera mikið til bóta. Verð ég eftir því sem ég hef forsendur til að telja að þær breytingar sem hv. heilbr.- og trn. leggur til sem viðbót við frv. og koma fram á þskj. 397 séu einnig til bóta. En það eru í raun alveg ný ákvæði sem ekki hafa komið inn í þingið fyrr en núna rétt undir lokin þannig að ég hef ekki getað farið vandlega ofan í þann þátt. En þar sem mér sýnist að þetta séu góðar breytingar sem þarna er verið að leggja til þá sé ég ekki annað en það sé rétt að styðja þær.
    Mig langaði þó til þess, virðulegur forseti, að spyrja um nokkur atriði að því er varðar breytingu ábyrgðartryggingar í 13. gr. en í athugasemd með greininni segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna breytinga á reglum um vátryggingarstarfsemi er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að félögin geti einnig verið skráð af dómsmrh.``
    Í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að vátryggingarfélög séu viðurkennd eða skráð af dómsmrh. Í athugasemd með greininni kemur fram að í núgildandi lögum sé eingöngu gert ráð fyrir að félögin séu viðurkennd en nú er talað um að þau eigi einnig að vera skráð af dómsmrh. Ég er ekki að gera athugasemd í sjálfu sér við þetta, ég ætla bara að vita hvaða þýðingu þetta hefur, hvort þetta sé til bóta og hverjar þá þessar umbætur séu. Ég átta mig alls ekki á því af þessum athugasemdum. Þetta eru nú kannski smáatriði en þó er heldur betra að vita svona hvað í þessum breytingum felst úr því að verið er að gera breytingar. En það segir að það sé nauðsynlegt að gera þetta vegna breytinga á reglum um vátryggingarstarfsemi og þá þætti mér vænt um að vita hvað er þarna á ferðinni. Þetta er nú atriði sem ég rakst á við yfirferð málsins.
    Ég vil einnig segja að ég tel mjög til bóta að ákvæði um brunatryggingar og ýmislegt fleira hafa verið felld út úr þessu frv. og koma ekki til umræðu hér og nú. Einnig það sem kemur fram í athugasemdum við frv. að verið er að fella út og setja inn í önnur lög ýmis ákvæði sem voru inni í ákvæðum gildandi laga þegar frv. var lagt fram.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst gera að umtalsefni og ég er ekki sérlega ánægð með eru fyrstu greinar þessa frv., þ.e. breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir. Ég er almennt á því að það eigi að viðurkenna sambærileg próf frá viðurkenndum stofnunum eins og t.d. að því er varðar heilbrigðisstéttir. Þ.e. að próf frá viðurkenndum erlendum háskólum að því er varðar læknamenntun, hjúkrunarmenntun, lyfjafræðimenntun o.s.frv. Ég sé að það er kominn fundur í heilbr.- og trn. hérna út í sal. Ég vona að spurningar mínar séu ekki svo flóknar að það þurfi að gera hlé á fundinum og halda nýjan fund. Þetta eru ákaflega einfaldar spurningar. Ég er hér að vísu með fleiri spurningar þannig að mér þætti vænt um að það yrði gert hlé á fundinum á meðan ég legg fram spurningar. En þetta er ekki mjög mikið sem ég þarf að gera athugasemdir við, bara örlítið í viðbót. Þannig að það sem ég vildi fyrst og fremst gera athugasemdir við eru þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv. að því er varðar þessar heilbrigðisstéttir. Og eins og ég var að segja áðan þá finnst mér almennt að það eigi að viðurkenna próf frá erlendum háskólum sem eru sambærileg við það sem við höfum hér á landi. Ég er yfirleitt á því að við eigum að vera nokkuð sveigjanleg að því er það varðar. Þess vegna er mér mjög illa við þau ákvæði sem eru í þessu frv. hér þar sem það eru raunverulega þrenns konar leyfi sem þarf að fá hérna. Ef ég tek þá sem eiga að stunda lækningar þá er í fyrsta lagi talað um að það þurfi próf frá Háskóla Íslands eða viðurkenndum stofnunum hér á landi. Síðan kemur leyfi sem staðfest hefur verið af heilbr.- og trmrh. í EES-landi. Síðan kemur þriðja sortin og það er það sem er utan við það allt saman. Þannig að mér finnst þetta vera nokkuð flókið. Og ef við skoðum 1. gr. þá kemur að þeim sem eru utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Skilyrði þess að þeir geti fengið að starfa hér á landi er í 1. gr. c, með leyfi forseta:
    ,,Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands sem getur sett sem skilyrði að viðkomandi gangi undir próf í lögum og reglum er varða störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Læknadeild Háskóla Íslands getur krafist þess að umsækjandi sanni kunnáttu sína í læknisfræði með því að gangast undir próf.``
    Þannig að það eru nokkuð ströng skilyrði fyrir því að fá að stunda læknisstörf hér á landi ef fólk kemur frá svæðum utan Evrópska efnahagssvæðisins. En þeir sem eru á Evrópsku efnahagssvæði þurfa ekki, ef ég skil þetta rétt, að fá nein leyfi, þeir þurfa ekki að kunna íslensku, það er ekki hægt að láta þá taka próf í neinum ákvæðum er varða lög og reglur eða neitt þess háttar. Þetta finnst mér mjög mikið ósamræmi. Mér finnst svo mikið ósamræmi í því ef fólk t.d. kemur frá Bandaríkjunum þar sem er enska töluð þarf að gangast undir ströng próf og kunna íslensku en þeir sem koma t.d. frá Bretlandi þurfa þess ekki. Leit nefndin ekkert á það að það yrðu bara sett almenn ákvæði í lög um viðurkenningu á prófum frá viðurkenndum háskólastofnunum? Bara punktur og basta. Þannig að það féllu allir erlendir aðilar sem hingað kæmu undir sömu ákvæði, fólk væri ekki flokkað þannig niður að sumir þyrftu að gangast undir mjög ströng próf, bæði í íslensku og faglega, en aðrir bara alls ekki neitt. Þetta finnst mér ákaflega óeðlilegt.
    Síðan kemur í d-lið: ,,Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.`` Ég get ekki betur séð og vil spyrja hv. formann nefndarinnar að því hvort þetta ákvæði gildi þá eingöngu um nám hér á landi. Ég get ekki séð annað en að þetta gildi eingöngu um nám sérfræðinga í læknisfræði.
    Síðan kemur hér líka í d-lið, 2. tölul., með leyfi forseta:
    ,,Áður en leyfi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. er veitt skal leita umsagnar landlæknis og nefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og í eiga sæti einn fulltrúi Læknafélags Íslands og tveir fulltrúar læknadeildar Háskóla Íslands og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.``
    Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta vera mikið apparat. Er þá verið að tala fyrst og fremst um þá sem hafa verið við nám í Bandaríkjunum eða hvaða lönd er helst verið að tala um? Ég átta mig ekki á því hvað þarna er á ferðinni og vænti þess að nefndin hafi farið ofan í þessi atriði til að það sé ljóst þegar fólk kemur hingað til lands hvernig það eigi að haga sér í þessum málum. Mjög svipuð ákvæði gilda um tannlækningar. Þau eru að vísu ekki eins og velti ég því nú fyrir mér þegar ég var að lesa þetta hvers vegna frv. er lagt fram með þeim hætti að ákvæðin eru svona ólík eftir því hvort um er að ræða lækna, tannlækna, lyfjafræðinga, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa og sjóntækna. Ákvæðin eru mjög mismunandi. Þau eru mjög mikið útfærð að því er varðar lækna, tannlækna og hjúkrunarfræðinga en síðan eru ákvæðin ekki eins ítarleg að því er varðar aðra. Ég vildi því gjarnan spyrja hvað þetta nákvæmlega þýðir, hvort þetta ákvæði varðandi ráðherrana og reglur sem ráðherra setur um nám sérfræðinga gildi þá bara um nám hér á landi.
    Síðan vil ég spyrja hvort það hafi ekkert komið til umræðu í nefndinni að setja bara almenn lög um réttindi erlendra aðila til að stunda störf á þessu sviði hér á landi til að þurfa ekki að vera með svona

margbreytilegar reglur eftir því hvar fólk hefur lært. Ég tel að með þessu séum við að gera mjög mismunandi kröfur til þeirra sem stunda störf hér á landi. Ég bendi t.d. á að bara í hjúkrunarfræði eru mjög miklar kröfur gerðar hér á landi til hjúkrunarfræðinga og þeir eru mjög vel menntaðir hér. Í öðrum löndum er þetta mjög lítil menntun eða miklu minni menntun þannig að þarna getum við raunverulega verið að gera auknar kröfur til ákveðinna aðila en nánast engar kröfur til annarra. Þetta tel ég að geti skapað mjög mikla óvissu og ringulreið og mér finnst þetta raunverulega sýna hvað þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði gerir okkur erfitt að gera kröfur á þessu sviði vegna þess að ég tel að hér eigi að gera almennar kröfur til allra og það eigi ekki að vera að sortera fólk svona niður með þessum hætti. Ef við teljum að eðli starfsins sé þannig, eins og ég tel t.d. að fólk sem vinnur við læknisstörf og hjúkrun og flest þau störf sem hér eru tekin til, þ.e. eru í miklum samskiptum við sjúklinga, að það sé nauðsynlegt að það skilji málið. Ég á mjög erfitt með að sjá hvernig t.d. hjúkrunarfræðingur og læknir sem annast eiga íslenska sjúklinga geti gert það ef þau kunna ekki málið. Það er ákaflega erfitt að vita hvað er að fólki ef samskiptin eru með þeim hætti, nema meiningin sé að hafa túlka.
    Þetta eru, virðulegur forseti, nokkur atriði sem ég vildi að gera athugasemdir við. Ég ætlaði ekki að fara ofan í hverja einustu grein því allar þessar fyrstu greinar eru svipaðar. Ég treysti mér ómögulega til að styðja þessar greinar af ýmsum ástæðum. Aðalástæðan er sú að þarna er verið að setja inn sérstakan rétt þeirra sem búa á hinu Evrópska efnahagssvæði, ég tel að það eigi að vera réttur allra. Það er verið að grauta þarna miklu saman og þetta er alls ekki skýrt fram sett þannig að þeir sem eiga að lesa þessi lög eða þessi ákvæði ef að lögum verða megi átta sig á því hvernig fólk á raunverulega að hegða sér. Það hefði að mínu mati verið miklu eðlilegra að taka heildstætt á þessu og vera ekki að skipta fólki upp í svona mikla flokka eftir því hvaðan það kemur.