Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:07:11 (2794)


[14:07]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra mála sem hv. þm. Finnur Ingólfsson kom inn á varðandi Brunabótafélag Íslands annars vegar og húsatryggingar hér í Reykjavík hins vegar þá vil ég segja það að það er rétt sem hann gat um að nokkur álitamál hafa vaknað varðandi eignarhald á Brunabótafélagi Íslands. Um það atriði held ég að menn séu þó sammála, að það séu auðvitað vátryggingatakarnir sem fyrst og síðast eru þar eignaraðilar og stærstu rétthafar. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og verða það áfram og ég vænti þess að þau mál skýrist með framlagningu frv. á vorþingi. Svipuðu máli gegnir um húsatryggingar í Reykjavík. Það er rétt sem fram kom í máli þingmannsins að undanþága vegna EES-samningsins var bundin annarri kynslóð. Þriðja kynslóðin er að verða og þess má vænta að á því máli þurfi að taka strax á næsta ári. Þannig að á sama hátt þá vænti ég þess að þau mál komi til umfjöllunar með einum eða öðrum hætti hér á hinu háa Alþingi á vorþingi.