Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:15:52 (2800)


[14:15]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætlast alls ekki til þess að hv. þm. svari fyrir alla nefndina. Ég spurði eingöngu hvort hann teldi þetta eðlilegt. Ég tel mjög óeðlilegt að gera svona mikið upp á milli fólks. Ef þetta er hvort sem er í valdi stofnananna, af hverju eigum við þá að gera svona strangar kröfur til fólks þó það sé frá fjarlægum heimshlutum? Ég tel að það eigi alveg eins að leyfa því fólki að starfa hér eins og fólki frá Evrópulöndum. Ég tel t.d. að fólk frá Asíulöndum og Bandaríkjunum, sem voru hér nefnd, og víðar geti alveg eins starfað á Íslandi og hafi bæði menntun og þekkingu til þess að gera það, á þessum sviðum sem hér er gert ráð fyrir, eins og fólk sem kemur frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Þannig að ég tel að það eigi ekki að mismuna fólki með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það er fyrst og fremst þetta sem ég geri athugasemdir við, að það sé verið að gera verulega strangar kröfur til ákveðins hóps, en síðan engar kröfur til annarra. Ég tel því að það eigi að reyna að stefna að því að afnema svona ákvæði í lögum þannig að allir sitji við sama borð, ef á annað borð er verið að opna þetta og breyta því. Það er auðvitað á valdi stofnana sem ráða þetta fólk til sín að meta fólk, þá metur það jafnt fólk hvort sem það kemur frá Grikklandi eða Bandaríkjunum eða Japan. Það breytir ekki öllu þegar við erum á annað borð búin að opna þetta. Ég set hins vegar ákveðnar spurningar við það að opna þetta með þessum hætti sem þarna er, svona algerlega. Að við getum ekki sett nein skilyrði um menntun eða neitt. Það má vel vera að þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið sé þannig að við megum ekki setja nokkur skilyrði. Það þykir mér auðvitað mjög slæmt. En ef við erum á annað borð að setja inn í íslensk lög svona ákvæði þá finnst mér að það eigi að gilda um alla útlendinga, við eigum ekki að mismuna fólki með þessum hætti. Ég tel það mjög alvarlegt og hættulegt.