Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:19:22 (2802)

[14:19]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Málið sem hér er til umfjöllunar hefur nokkuð oft áður verið komið til lokaafgreiðslu þingsins, en alltaf á síðustu augnablikum hefur hæstv. ríkisstjórnin kippt að sér höndum og hætt við að afgreiða málið. Því er mjög athyglisvert hvað er í þessu frv. nú og hvað ekki.
    Það hefur komið fram hjá öðrum sem hafa talað á undan mér að það eru brunatryggingar í landinu sem ekki eru inni í þessu frv. sem hefur verið mikill urgur út af, en hæstv. ráðherra hefur nú upplýst að hann muni leggja þau frv. fram eftir áramót og ætli sér að sætta þau sjónarmið sem þar eru uppi. En auðvitað hefur það vakið athygli allra landsmanna að Húsatryggingar Reykjavíkur ættu að vera eitthvað undanskildar öðrum tryggingum í landinu og það er auðvitað umhugsunarefni að það sem hægt er að einkavæða í þessu landi skuli menn ekki vera tilbúnir að einkavæða.
    En það er ekki það sem ég ætla að ræða heldur ætla ég aðeins að fara yfir þetta frv. um breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir. Hér hefur það verið mikið til umfjöllunar. Hjá Evrópubandalaginu eru í gildi sérstakar tilskipanir um fimm heilbrigðisstéttir, þ.e. lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, lyfjafræðinga og sjúkraþjálfa. Þessar tilskipanir hafa verið hér til umfjöllunar og menn spyrja sig að því hvort við séum að gera minni kröfur til innflytjenda frá þessum EES-löndum heldur en til þeirra sem við höfum sjálf menntað hér á landi. Það hafa komið fram ýmsar ábendingar frá þessum heilbrigðisstéttum til hv. heilbrn. Ég held að ég byrji að ræða athugasemdir tannlækna sem ég held að séu kannski þær áhyggjur sem við ættum að leggja eyru við, því það er nokkuð í þeim athugasemdum sem við þurfum eflaust að varast. Með leyfi forseta, þá eru athugasemdir Tannlæknafélags Íslands þessar:
    ,,Tannlæknafélag Íslands er uggandi um atvinnuástand íslenskra tannlækna í ljósi sameiginlegs vinnumarkaðar sem felst í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í maí 1989 lét Tannlæknafélagið kanna áætlaðan fjölda tannlækna á Íslandi á næstu árum samanborið við mannfjöldaspá. Þetta ár voru 1.080 íbúar á hvern tannlækni. Áætlunin er unnin af Helga Sigvaldasyni verkfræðingi og leiddi í ljós að 1994 mun fjöldi starfandi tannlækna vera 267 og 980 íbúar á hvern tannlækni. Árið 1999 verða starfandi tannlæknar 289 og 945 íbúar á hvern tannlækni. Kannanir hafa sýnt að bera fer á atvinnuleysi hjá tannlæknum þegar íbúar á hvern tannlækni verða færri en 1.100. Í könnun sem Tannlæknafélagið gerði 1989 á atvinnumálum íslenskra tannlækna kom í ljós að fjórðungur tannlækna taldi sig ekki hafa næg verkefni.
    Menntun tannlækna í ýmsum Suður-Evrópulöndum er víða lítil. Á Ítalíu, Spáni og í Portúgal eru starfandi tannlæknar sem lokið hafa hluta læknisnáms og mislöngum námskeiðum í tannlæknisfræðum. Starfsheiti þessara manna hefur verið nefnt ,,stomatologe``. Þótt kennsla í tannlækningum í þessum löndum sé nú orðin sambærileg við skóla annars staðar á Vesturlöndum er stór hluti starfandi tannlækna í þessum löndum með áðurgreinda menntun að baki. Spánn og Portúgal hafa gert samninga við nokkur lönd í Suður-Ameríku um að taka við ákveðnum fjölda ,,stomatologa`` á hverju ári. Lönd þessi hafa nýverið ákveðið að veita þeim ekki tannlæknaleyfi nema að undangenginni frekari menntun en fyrir er starfandi mikill fjöldi ,,stomatologa`` með starfsleyfi. Þar sem um verulegt atvinnuleysi meðal tannlækna er að ræða í þessum löndum eru tannlæknafélög í öðrum EES-löndum uggandi um það að þessir ,,stomatologar`` streymi til annarra landa í kjölfar hins sameiginlega atvinnumarkaðar.``
    Mér finnst þetta mál vera þannig vaxið að það beri að gefa því gaum, því þessir tannlæknar, ,,stomatologar``, eru ekki fullmenntaðir tannlæknar en þeir gætu fengi hér leyfi til að opna stofu. Því þurfum við að vera á varðbergi gagnvart því. Við þekkjum ferðir Íslendinga til Búlgaríu og fleiri landa og ég held að reynsla flestra sé mjög slæm af þeim heimsóknum til illa menntaðra tannlækna. Ég vil því benda hæstv. heilbrrh. á þessa hættu sem er fyrir hendi varðandi tannlækna sem hafa ekki fulla menntun á við íslenska.
    Það eru ýmsar athugasemdir frá öðrum heilbrigðisstéttum og hér hefur verið rætt sérstaklega um hjúkrunarfræðinga og hv. 15. þm. Reykv., Kristín Einarsdóttir, hefur einmitt gert að umtalsefni þær hættur sem í því felast ef hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir verði ráðnar hingað til lands án þess að kunna íslensku. Þetta er réttmæt gagnrýni hjá hv. þm. því það er mjög mikilvægt, hvergi mikilvægara trúlega, að það séu rétt skilaboð á milli sjúklings og þess sem á að lækna eða hjúkra viðkomandi.
    En samt sem áður, eftir að hafa farið í gegnum þetta margsinnis, þá tel ég að það sé svo framarlega, og nú endurtek ég það, svo framarlega sem nægilegt framboð er af þessum stéttum hér á Íslandi, hjúkrunarfræðingum og læknum, þá séu hverfandi líkur á því að við þurfum að óttast þetta. Því þær stofnanir sem ráða til sín þetta fólk munu að sjálfsögðu ráða til sín hæfasta fólkið. Og það er viðurkennt að íslensk heilbrigðismenntun er betri en almennt gerist í Evrópu. Þannig að það eru hverfandi líkur á því að við þurfum að óttast þetta. En samt sem áður þá þekkjum við þessi vandamál þegar í dag, þrátt fyrir að við séum ekki aðilar að EES enn þá, því það hefur verið skortur á t.d. hjúkrunarfræðingum og erlendir hjúkrunarfræðingar hafa verið ráðnir hér til landsins sem ekki hafa nægilega þekkingu í íslensku. En það sem ég óttast kannski meira í þessu sambandi heldur en að hér streymi inn innflytjendur er það að héðan streymi út fólk, vegna þess að ég býst við að það verði áskókn í að fá okkar velmenntuðu heilbrigðisstéttir til hinna EES-landanna. Það er það sem ég óttast kannski enn þá meir.
    Ég ætla ekki að gera aðrar athugasemdir að umræðuefni hér. Félag íslenskra sjúkraþjálfa segir t.d. í umsögn sinni um þetta frv., með leyfi forseta:
    ,,Félag íslenskra sjúkraþjálfa gerir ekki athugasemdir við þær breytingar sem fram koma í frv. um lög um sjúkraþjálfa, nr. 58/1976. Rétt er að benda á að lönd innan EB hafa komist að samkomulagi um lágmarkslengd á námi í sjúkraþjálfun. Ekki er tryggt að lönd sem sækja um aðild að EES uppfylli þessi skilyrði þótt heilbrigðisstjórnir viðkomandi landa viðurkenni viðkomandi skóla. Það hefur verið vinnuregla hér í landi að sjúkraþjálfarar sem fá löggildingu á Íslandi þurfa að hafa lokið námi sem telst sambærilegt við það íslenska. Það yrði mikill skaði fyrir sjúkraþjálfun á Íslandi ef ekki verður hægt að tryggja þessi lágmarksgæði og lengd námsins fyrir alla sjúkraþjálfara sem koma til með að starfa hér í framtíðinni.`` Þetta er þeirra umsögn.
    Ég ætla að láta lokið máli mínu um heilbrigðisstéttir. Ég hef oft rætt um það hér áður, en vil segja fáein orð um bátaábyrgð og tryggingar. Ég tel þá breytingu vera til bóta sem er gerð varðandi báta innan við 100 brúttólestir sem hér er gert ráð fyrir, vegna þess að smábátaeigendur hafa kvartað yfir því hversu há trygging væri á þeirra bátaflota. Þeir vilja meina að með því að þetta sé gefið frjálst og þeir geti ráðið við hvaða tryggingar þeir skipta, þá geti það lækkað þeirra tryggingagjald allt að um helming. Því er slæmt að geta ekki orðið við beiðni þeirra um að þetta taki gildi strax 1. jan., en það er talið að aðlögunartími sé nauðsynlegur fyrir tryggingafélögin sem tryggja nú þessa báta, vegna þess að þau eru búin að baktryggja sig hjá öðrum tryggingafélögum erlendis.
    En það er annað sem þessi bátatryggingarfélög hafa gert að umtalsefni við hv. heilbr.- og trn. og það er að þeim finnst ekki vera gagnkvæmt frelsi varðandi bátatryggingar vegna þess að þeir bátaeigendur sem kannski ganga út og fara til annarra vátryggenda, þeir búast við að sitja uppi með skussana, svo ég tali nú bara íslensku eins og hún kemur fyrir af kúnni. ( Gripið fram í: Það fer þér vel.) Þetta atriði er nokkuð sem mér finnst að við þurfum að skoða í framhaldi af þessu, en að öðru leyti þá geri ég ekki athugasemdir við þetta frv. Ég tel að það sé heldur til bóta, en verð að segja að það er búið að vera mjög mikill vandræðagangur með þetta mál lengi. Ég segi alveg eins og er að ég er farin að hlakka til þegar kemur að húsatryggingum, því ég er alveg viss um að það verður ekki svona slétt og fellt eins og hæstv. ráðherra kynnti hér áðan.