Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:30:39 (2803)


[14:30]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Aðeins örstutt fyrirspurn til hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur. Hún sagði í ræðu sinni að hún óttaðist útstreymi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta til annarra landa. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju hún óttaðist það sérstaklega vegna þess að ég veit ekki betur en íslenskar heilbrigðisstéttir, bæði hjúkrunarfræðingar og læknar, hafi getað fengið vinnu erlendis ef um einhverja vinnu hefur verið að ræða einmitt vegna þeirra ástæðna sem hv. þm. tók fram, þ.e. að íslenskar heilbrigðisstéttir eru mjög vel menntaðar og það hefur verið eftirspurn eftir þeim í störf erlendis, ef þar hefur verið skortur. Þannig að ég hef aldrei almennilega áttað mig á því af hverju menn óttast útstreymi fólks héðan þar sem ég veit ekki betur en íslenskt menntafólk og ekki síst á heilbrigðissviðinu hafi getað fengið eins mikla vinnu og raunverulega hefur verið framboð á erlendis. Þannig að þetta atriði hef ég aldrei skilið og vildi spyrja hv. þm. af hverju það breytist sérstaklega núna.