Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:33:31 (2805)


[14:33]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Já, þetta gildir líka allt núna. Íslendingar kunna erlend tungumál núna, það breytist ekkert um áramótin. Og eins og ég sagði í mínu fyrsta andsvari þá er það þannig með Íslendinga að þeir eru ekki bara vel menntaðir og kunna fleiri tungumál en flestar aðrar þjóðir heldur eru þeir líka mjög duglegir að ná sér í vinnu erlendis ef þeir á annað borð vilja. Þess vegna hefur það verið þannig að það hefur ekki staðið fyrir fólki að fara t.d. til Norðurlanda og annarra Evrópulanda að sækja sér vinnu ef sú vinna hefur verið í boði, en eins og við vitum þá er mikið atvinnuleysi í Evrópu og það er ekki víst að þetta fólk geti stokkið í vinnu þegar því sýnist. Það er því alveg rétt sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði, þetta svar var raunverulega ekki það sem ég bjóst við að fá, vegna þess að ég sé ekki að þetta atriði breytist neitt núna. Hingað til hafa heilbrigðisstéttir getað starfað yfir landamæri alveg óháð þjóðerni, ef þær kunna málið. Það er alveg rétt að það hefur verið skilyrði mjög víða að geta talað málið sem sjúklingarnir tala.