Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:35:17 (2807)

[14:35]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu hefur eins og áður hefur komið fram verið rætt mjög ítarlega bæði á þessu þingi og því síðasta. Á síðasta þingi var frv. í raun og veru stöðvað vegna þess að á því voru ýmsir meinbugir að mati þeirra sem að því komu. Ég tel að upphaflegt frv. eins og það kom frá hæstv. heilbrrh. og svo breytingar hv. heilbrn. sé hvort tveggja til bóta frá því sem var þegar frv. var kynnt hér í fyrra, á því sé lítill vafi. Hins vegar er það svo að þetta frv. vekur náttúrlega upp margar spurningar. Fyrsta spurningin er auðvitað: Til hvers erum við að breyta okkar lögum með þeim hætti sem hér er gert? Er alveg óhjákvæmilegt að það verði gert? Erum við með þessu frv. og afgreiðslu þess komin í þá stöðu sem við óttuðumst mörg þegar Ísland varð aðili að Evrópsku efnahagssvæði að Alþingi Íslendinga yrði eins og póststöð sem tæki við tilskipum, fyrirmælum, niðurstöðum, úr kerfi Evrópubandalagsins þar sem við ættum í raun og veru engan annan kost en þann að fallast á það sem þaðan kæmi? Ég segi ekki að hlýða því það er út af fyrir sig þannig að við getum náttúrlega spyrnt við fótum. En staðan er auðvitað engu að síður þannig að formlega séð yrði það mjög erfitt fyrir okkur. Ímyndum okkur að við gerðum samþykkt hér og breyttum þessu frv. eins og hv. 15. þm. Reykv. var að tala hér um. Þannig að tungumálaákvæðið, íslenskuákvæðið, verði ekki aðeins látið ná yfir hið Evrópska efnahagssvæði heldur verði það í raun og veru látið ná yfir alla útlendinga sem hingað koma þannig að þeir séu undanþegnir þessu ákvæði, eða við neitum algerlega að fella tungumálaskilyrðið niður að því er varðar Evrópskt efnahagssvæði. Segjum sem svo að útlendingar, hvaðan sem þeir koma, þurfi að kunna íslensku. Hvort sem þeir koma frá Þýskalandi eða Svasílandi eða hvaðan sem þeir koma. Ímyndum okkur að þetta yrði gert. Ímyndum okkur að við neitum með öðrum orðum að aðlaga okkar löggjöf að þessu leytinu til að kröfum hins Evrópska efnahagssvæðis og samningnum um það og samningnum við Evrópubandalagið. Hvernig stöndum við þá? Hvað yrði þá gert? Staðreyndin er sú að þegar við skoðum þetta mál aðeins nánar þá komumst við að því að við erum upp við vegg. Við erum upp við vegg í þessu máli. Við eigum í raun og veru engan annan kost en þann, ef við viljum á annað borð vera í þessu kerfi, að taka við þeim fyrirskipunum, niðurstöðum, ákvörðunum, sem hið Evrópska efnahagssvæði og það kerfi allt gerir kröfu um. Þar með er þetta frv. eitt fyrsta dæmið um það hvernig við erum þannig upp við vegg eftir að Ísland varð aðili að þessu Evrópska efnahagssvæði. Síðar á þessum fundi er á dagskrá EFTA-dómstóllinn sem er auðvitað sérstakt og mikið umræðuefni og umhugsunarefni og af skyldum toga.
    Þetta vil ég nefna vegna þess að ég tel að það sé nauðsynlegt að um leið og menn afgreiða mál sem snerta Evrópskt efnahagssvæði þá sé þetta nefnt, þannig að menn fari ekki að líta á það sem alveg sjálfsagðan hlut að Alþingi Íslendinga sé flæðilína fyrir Evrópukerfið heldur staldri menn við og spyrji: Af hverju er þetta svona? Getum við losnað við þetta? Og að menn geri sér grein fyrir því að ef við ætlum að losna við þessi ákvæði þá geta hlutirnir verið eilítið snúnari heldur en kannski gæti virst í fljótu bragði.
    Hitt er svo annað mál með íslenskuákvæðið. Finnst hæstv. ráðherra og hv. talsmönnum málsins hér í þessari virðulegu stofnun eðlilegt að setja íslenskuákvæðið upp eins og hér er gert og hv. 15. þm. Reykv. þráspurði um hér áðan? Að íslenskuákvæðið gildir bara gagnvart sumum? Komi hingað læknar segjum frá Indlandi, eins og dæmi eru um, eða hjúkrunarfræðingar frá öðrum heimshlutum utan hins Evrópska efnahagssvæðis þá á að gera kröfur um að þeir kunni íslensku. En sé um að ræða lækna, hjúkrunarfræðinga, sjóntækjafræðinga, sjúkraþjálfara eða hvað það er nú er frá öðrum löndum á hinu Evrópska efnahagssvæði þá eru engar kröfur í raun og veru gerðar. Þá er íslenskukrafan upphafin. Stenst þetta? Þetta stenst náttúrlega ekki rök. En stenst þetta t.d. mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að? Er eðlilegt að þjóðir heimsins sætti sig við að þessi lúxusklúbbur sem heitir Evrópusvæðið setji þannig lög handa sér og útiloki alla hina sem koma úr fátækari hlutum heimsins? Er það eðlilegt, er það sanngjarnt, er það rökrétt? Ekki er það jafnaðarstefna, svo mikið er víst.
    Þetta held ég að menn þurfi alvarlega að átta sig á. Ég hlýt þess vegna að ítreka þá spurningu sem hv. 15. þm. Reykv. bar fram hér áðan og fékk í raun engin svör við: Hver var hin efnislega niðurstaða þessa máls í nefndinni? Var það skoðað hvort þetta stæðist þá almennu alþjóðlegu mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að, að mismuna fólki með þessum hætti?
    Þetta vildi ég segja í öðru lagi, virðulegur forseti, vegna þess að ég tel að þetta sé stórkostlega hæpið, stórkostlega hæpið.
    Í þriðja lagi vildi ég víkja aðeins að spurningunni um Samábyrgð Íslands á fiskiskipunum. Hér er í raun verið að opna fyrir það að bátaábyrgðarfélögin hverfi, gömlu bátaábyrgðarfélögin og menn geta út af fyrir sig haft sínar skoðanir á því, ég ætla ekki gera neina athugasemd við það á þessu stigi, og að endurtryggingin sem hefur verið hjá Samábyrgðinni verði þar af leiðandi úr sögunni. Ég ætla aðallega að minnast á þetta vegna þess að í fyrra átti að selja Samábyrgðina. Hæstv. fyrrv. heilbrrh. ætlaði að fá að mig minnir 100 millj., var það ekki, fyrir Samábyrgð Íslands á fiskiskipum en það kom svo í ljós að hann átti ekkert í henni þannig að hann hætti við að selja hana. Það er út af fyrir sig til fyrirmyndar að menn hætti við að selja það sem þeir eiga ekki, án þess að það liggi fyrir hvað svoleiðis háttalag þýðir, en batnandi manni er best að lifa í sjálfu sér. En nú er niðurstaðan orðin sú að það er ekki bara þingið heldur líka heilbrn. sem viðurkennir að þetta frv. um að selja Samábyrgðina í fyrra var vitleysa. Ég tel það fagnaðarefni og þakka hæstv. núv. ráðherra og heilbrn. fyrir það.
    Í fjórða lagi ætlaði ég svo að víkja aðeins að Húsatryggingum Reykjavíkur og Brunabótafélagi Íslands. Ég vil í fyrsta lagi segja það að ég er sammála því sem hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði hér um Brunabótafélagið, að ég tel að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir sú yfirlýsing frá hæstv. heilbr.- og trmrh. að Brunabótafélagið sé eign vátryggingatakanna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þannig verði haldið á þessu máli og það verði tryggt að þeir sem eiga Brunabótafélagið eigi það, þ.e. sveitarfélögin. Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að sú yfirlýsing liggi hér fyrir frá hæstv. núv. ráðherra vegna þess að það eru margir býsna gráðugir í það að fá þær eigur sem þarna eru til. Þetta er satt að segja prýðilega stöndugt fyrirtæki. Þetta er í raun og veru að eiginfjárstöðu eitt allra sterkasta fyrirtæki landsins og ég tel það fagnaðarefni að hæstv. núv. heilbrrh. hefur lýst því yfir að sveitarfélögin eigi að eiga þetta eins og til er stofnað af því að það eru sveitarfélögin sem hafa byggt upp Brunabótafélag Íslands. Ég skil út af fyrir sig vel að það séu ýmsir aðilar býsna gráðugir í að fá þetta félag vegna þess að þetta eru miklar eigur og eftir miklu að sækjast, en ég met yfirlýsingu ráðherrans mikils og tel að það sé skynsamlegt að vinna á grundvelli hennar áfram.
    Jafnframt þessu hefur svo komið upp það fyrirbrigði sem heitir Húsatryggingar Reykjavíkur. Á því máli eru margar hliðar. Ein er auðvitað sú að Húsatryggingar Reykjavíkur er fínt fyrirtæki, græðir mikið af peningum og borgar slökkviliðið hér í Reykjavík. Okkur sem erum hér þingmenn fyrir Reykv. finnst það að mörgu leyti sniðugt fyrirkomulag að láta Húsatryggingarnar borga slökkviliðið. Og ég held að það borgi eitthvað meira þannig að þetta er þjóðþrifafyrirtæki að mörgu leyti. Þetta er sú hlið sem að okkur snýr, okkur sem höfum ekkert á móti félagslegum rekstri af einhverju tagi. Svo er hin hliðin, sem er spaugilega hliðin, sem snýr að Sjálfstfl. Að Sjálfstfl. hefur lent í því að verða einn helsti varnaraðili einokunar í húsatryggingum í þessu stærsta sveitarfélagi landsins. Það er beinlínis spaugilegt. Og á síðustu stundu þegar menn voru að lenda EES-samningnum á sínum tíma þá allt í einu kom þetta húsatryggingamál upp. Þá fór utanríkisþjónustan með það til útlanda að það væri til fyrirtæki á Íslandi sem þyrfti sérstaka undanþágu. Það væri Húsatryggingar Reykjavíkur. ( ÓÞÞ: Þetta getur ekki verið.) Jú, jú, tilfellið er, hv. þm., og embættismenn í Efnahagsbandalaginu sögðu einmitt eins og hv. 2. þm. Vestf., þetta getur ekki verið. En niðurstaðan varð sú að Sjálfstfl. sótti þessa einokun alveg gríðarlega fast og Alþfl. fyrir hans hönd. Og menn hafa velt því fyrir sér hvernig þær senur hafi verið þegar Alþfl. eða leiðtogar hans og embættismenn utanrn. voru að reyna að láta embættismenn Efnahagsbandalagsins stafa orðið Húsatryggingar Reykjavíkur. Menn sem hafa tekið þátt í alþjóðlegum samskiptum hafa líka gert sér það til skemmtunar að ímynda sér hvernig það mundi klingja í eyra að láta bera þetta nafn fram á frönsku, Húsatryggingar Reykjavíkur. Ég treysti mér ekki að fara í það en gæti þó reynt utan þessa ræðustóls. Þannig að allt í einu á síðustu stigum samninga um Evrópska efnahagssvæðið, þegar var verið að lenda því máli, þá var Sjálfstfl. gjörsamlega miður sín yfir þeirri nauðsyn að endilega þyrfti að tryggja einokun á húsatryggingum hér í Reykjavík, höfuðborg landsins, þar sem hver hefur ráðið? Sjálfstfl. Og hver er Sjálfstfl.? Ja, menn kynntu sér það náttúrlega niður í Brussel á þessum tíma og komust að þessari niðurstöðu að þetta væri aðalflokkur einkaframtaksins á Íslandi sem heimtaði einokun á þessum húsatryggingum. Þetta stórkostlega grín sem væri auðvitað alveg sér mál fyrir áramótaskaupið þegar þar að kemur hefur síðan þróast hér inn í frv. í þinginu með ýmsum hætti. Nú er sem sagt gert ráð fyrir því að einokunin eða þessi staða Húsatrygginga haldi eitthvað áfram en verði ekki ótímabundin heldur er gert ráð fyrir að Húsatryggingar Reykjavíkur leysist upp eftir einhvern tíma. Mig minnir að það sé einhver tími tiltekin í þeim gögnum sem við erum með hér fyrir framan okkur. Alla vega er ljóst að það verður ekki leitað eftir að um Húsatryggingar Reykjavíkur gildi einhver varanleg undanþága frá þessum almennu grundvallaratriðum hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég mundi hins vegar ekki gráta þó það væri gert og ég verð að segja alveg eins og er að mér er það auðvitað alveg sérstakt fagnaðarefni að Sjálfstfl. skuli leggja í leiðangra eins og þennan fyrir Húsatryggingar Reykjavíkur til að tryggja undanþágur frá stefnu Sjálfstfl. Ég tel það fagnaðarefni og enga ástæðu til að gangrýna það þó það sé fyndið í aðra röndina að Sjálfstfl. skuli setja málin upp með þeim hætti sem hér er um að ræða.
    Nú kom það ekki fram, virðulegur forseti, í máli hv. formanns heilbr.- og trn. hver eru viðhorf tryggingageirans í þessu máli, ég tók a.m.k. ekki eftir því. Mér heyrðist að bátaábyrgðafélögin væru inn á þessari breytingu í raun og veru. En ég heyrði ekki alveg rökin fyrir því að þetta verði endilega að gerast núna um áramótin. Er það bara vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða eru einhverjar aðrar tæknilegar ástæður fyrir því? Ég mundi vilja inna eftir því.
    Jafnframt vildi ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh., af því að hann er hér viðstaddur, að því hvenær hann geri ráð fyrir því að leggja fram frv. til laga um breytingar á lögum um Brunabótafélag Íslands, þ.e. lagafrv. um eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem verður lagt fram í upphafi þings eins og hér stendur. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverju það sætir að það frv. er ekki komið fram enn þá. Er ágreiningur um það mál í ríkisstjórninni eða hvað? Hvernig stendur á því að málið er ekki komið hér enn þá? Síðan segir hér reyndar í 1. tölul. greinargerðarinnar á bls. 7:     ,,Breytingar á lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, og um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, munu lagðar fram í sérfrv. og því felldar burtu hér.`` Ég hefði viljað spyrja, hvenær er von á þessum frv. sem þarna eru nefnd?
    Með því að frv. um brunatryggingar í Reykjavík verður flutt þá birtist okkur náttúrlega um leið niðurstaðan að því er varðar Húsatryggingar Reykjavíkur. Ég geri ráð fyrir að það sé ákvæði um húsatryggingarnar sem þar verði um að ræða. Það verður út af fyrir sig fróðlegt að fjalla um það á Alþingi í umræðum um stjórnarfrumvarp í fyrsta sinn í 40 ár, en á næsta ári verða liðin rétt 40 ár frá því að þessi lög voru sett um brunatryggingar í Reykjavík sem gerðu ráð fyrir því undarlega ákvæði um að hér mundu menn búa við allt annað fyrirkomulag í þeim efnum en gerist annars staðar í landinu. Eins og kunnugt er þá gerðist það á því ári, 1953 og 1954, að brunatryggingar hjá sveitarfélögum voru boðnar út. Niðurstaðan varð sú að Samvinnutryggingar, sem þá var nýlega stofnað tryggingafélag í landinu, bauð í tryggingar í Reykjavík og ljóst var að það var hagkvæmara en þau tryggingatilboð sem lágu fyrir. Þá dreif Sjálfstfl. sig í það að stofna Húsatryggingar Reykjavíkur til þess að koma í veg fyrir að hin frjálsa samkeppni fengi notið sín, enda er Sjálfstfl. eins og kunnugt er alltaf á móti frjálsri samkeppni þegar það kemur Sjálfstfl. illa.
    Það verður sem sagt fróðlegt að rifja þá sagnfræði upp þegar að því kemur að við ræðum það frv. fljótlega. Ég hef, virðulegi forseti, lagt fáeinar spurningar fyrir hæstv. ráðherra og hv. formann heilbr.- og trn. sem mér þætti vænt um að þeir reyndu að svara eftir því sem kostur er.