Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:18:59 (2812)


[15:18]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur spurt mig tveggja spurninga. Fyrst hvort læknir, þá tel ég að hann eigi við lækni á hinu Evrópska efnahagssvæði, geti opnað hér stofu. Það er alveg ljóst að ef hann hefur hlotið staðfestingu heilbr.- og trmrn. á sínu læknaleyfi þá getur hann hafið hér sjálfstæða starfsemi. Hann getur líka sótt um stöður á sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum en staðfestingin veitir honum eigi að síður engan rétt til þess að hljóta þá stöðu. T.d. kæmi til greina að hafna umsækjandanum m.a. vegna þess að hann kynni ekki íslensku eða væri mjög lélegur í íslensku og þar af leiðandi teldist ekki hæfur til þess að gegna þessu tiltekna starfi. Það skýrir kannski þennan mun sem ég var að leggja áherslu á annars vegar í sambandi við læknaleyfið og hins vegar í sambandi við gengi til embættis eða stöðu.
    Um hitt hvort við mundum taka það upp á milli 2. og 3. umr. í hv. heilbr.- og trn. að breyta þessum ákvæðum er snerta þá sem utan svæðisins standa þá held ég að ekki sé ástæða til þess. En ég vil lýsa því yfir að ég er reiðubúinn til þess að eiga náið og gott samstarf við hv. þm. Svavar Gestsson um það hvernig verið getum lagt okkar af mörkum við að móta nýja stefnu gagnvart þjóðum utan hins Evrópska efnahagssvæðis sem gæti boðið þetta fólk betur velkomið til okkar lands en nú gildir og hefur gilt allt of lengi.