Veiting ríkisborgararéttar

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:25:14 (2815)


[15:25]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hér hefur hv. formaður allshn. mælt fyrir nál. nefndarinnar varðandi ríkisborgararétt. Ég sé að óvanalega margir sóttu um og get ég ekki annað en fagnað því. Ég er viss um að nefndin hefur farið yfir þessi mál með venjulegum hætti og treysti henni vel til þess og mun að sjálfsögðu samþykkja að greiða þessari tillögu atkvæði mitt, þ.e. brtt. á þskj. 401.
    Það er aðeins eitt atriði sem ég vil gera athugasemd við en er ekki athugasemd varðandi meðferð nefndarinnar á þessum málum heldur uppsetning þskj. Ég hef áður gert athugasemdir við þetta og vil spyrja hv. 6. þm. Reykv., formann nefndarinnar, hvers vegna ekki var fallist á það sjónarmið mitt að setja þskj. upp eftir íslenskum nafnreglum, þ.e. að fólki sé raðað eftir fornafni eins og er venja hér á landi. Ég sé að það gildir um suma aðila sem er raðað eftir fyrsta nafni en aðrir eftir eftirnafni. Mér finnst þetta ruglingslegt og ónákvæmt og skil ekki af hverju ekki er hægt að raða fólki upp eftir stafrófsröð.
    Ég tek eftir að nokkrum aðilum er raðað saman eftir eftirnafni en hins vegar gildir það ekki alltaf. Í einstaka tilvikum, t.d. að því er varðar nöfn númer 10 og númer 62, virðist, þó það sé ekki ljóst, að um systkini sé að ræða, annars vegar Jósefsson og hins vegar Jósefsdóttur. Ekki veit ég hvort það er svo, enda kemur mér í sjálfu sér það ekkert við, en það sem mér finnst aðalatriðið er að þskj. sé sett þannig fram að þar sé fylgt íslenskri nafnahefð. Þetta finnst mér mjög mikilvægt þar sem hér er um að ræða nýja ríkisborgara og ég býst við að ef þeir ætla sér að búa hér á landi þá muni þeir í megindráttum ætla sér að fylgja íslenskri nafnahefð og muni gera það með svipuðum hætti og þeir erlendu aðilar sem ég þekki til gera að því er varðar nöfn þó að þau séu af erlendum uppruna og hljómi framandi fyrir íslenska tungu.