Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:38:38 (2820)


[15:38]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki mikið um þetta mál að segja en þó. Það ber að með þeim hætti að ekki er annað hægt en að minnast á það á Alþingi í hvaða úlfakreppu og í hvaða stöðu íslenskur landbúnaður er, því miður, í þessu stjórnarsamstarfi og hversu erfitt hefur reynst á haustþingi að koma fram með frumvörp sem lúta að landbúnaði yfirleitt. Það má svo auðvitað aftur rekja til þess hvernig ríkisstjórnin er samansett og hversu mikill ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna hvað þessi mál varðar.
    Nú ber svo við, hæstv. forseti, að fjórum dögum fyrir áætlað jólaleyfi alþingismanna kemur hv. þm. Egill Jónsson með þetta frv. inn í landbn. og biður um að nefndin flytji málið. Nú vitum við, sem fylgjumst með þessum málum, að þetta frv. hefur í sjálfu sér verið tilbúið í fleiri vikur til flutnings og umræðu og afgreiðslu í þinginu því ég hygg að það ríki tiltölulega mikil sátt um málið. En auðvitað lýsir þetta því hversu erfitt virðist vera að koma fram nokkru máli sem lýtur að landbúnaði í gegnum þessa ríkisstjórn og sýnir að hæstv. landbrh. virðist vera að missa þrek sitt til þess að fylgja málinu eftir. En þarna finna þeir þó smugu í gegnum þingið að koma málinu í rauninni þessa leið, beint inn í nefndina og þaðan inn í þingið. Það ber kannski svo við að eini kratinn sem er öðruvísi gerður en flestir hinir, hv. þm. Gísli S. Einarsson af Vesturlandi, hefur lýst sig tiltölulega velviljaðan í garð landbúnaðarins. ( JGS: Góðkynja krati.) Það er talað um að hann sé . . .  ( Gripið fram í: Eðalkrati.) ( Gripið fram í: Það er búið að senda hann úr landi.) Nú berast þær fréttir í þingið að þessi eðalkrati, sem talinn er góðkynja, hafi núna rétt fyrir jólin verið sendur á brott, sjálfsagt til Brussel sem núna safnar að sér alþýðuflokksmönnum í hin stóru og feitu embætti til þess að taka við því hlutverki sem hæstv. utanrrh., Jón Baldvin, hefur verið að fela þeim, að mölbrjóta íslenskan landbúnað eins og hann hefur sagt að hann muni gera utan frá. Þess vegna er kannski rétt að fylla rétt í stöðurnar þar.
    Hvað þetta frv. varðar þá sýnist mér að hér sé fyrst og fremst verið að tryggja og koma til móts við, eins og t.d. hvað mjólkuriðnaðinn varðar, afskekkt lítil mjólkurbú --- við getum tekið Ísafjörð og fleiri --- sem auðvitað hlýtur að vera mikilvægt að halda í rekstri áfram og hagkvæmt reyndar fyrir þjóðarbúið.
    Í sjálfu sér leggst ég því ekki gegn málinu en það eru vinnubrögðin og það, sem er óþolandi, hvernig heil atvinnugrein sem fram undir þetta og er enn annar aðalatvinnuvegur Íslendinga skuli eiga orðið svo bágt hvað löggjafarþingið varðar að það er engu máli hægt að koma fram í samkomulagi og verður að fara krókaleiðir til þess meira að segja að hægt sé að fjalla um málið. Við vitum að þetta mál er þess eðlis að það þarf að afgreiða það fyrir áramótin.
    Ég lýsi þess vegna fullu vantrausti á stjórnarflokkana, á forustu hæstv. landbrh. í málefnum landbúnaðarins og hef áhyggjur af því að hv. þm. Egill Jónsson sé einnig að bresta undan þeim ofurþunga sem sækja að landbúnaðinum innan ríkisstjórnarinnar og tel að menn þurfi mjög að fara yfir í hvaða stöðu þessi atvinnugrein er nú komin.
    Á þetta vildi ég benda fyrir utan hitt að það er kannski vert að ræða það við hæstv. forseta hvort hin leiðin sé ekki eðlilegri, að mál komi fyrir þingflokka og séu flutt sem stjórnarfrumvörp í þinginu eða þingmannafrumvörp en að fara þessa smuguleið sem ég hef bent á að hafi verið sá neyðarkostur hv. þm. Egils Jónssonar til þess að halda haus gagnvart landbúnaðarmálum og landbúnaðinum í heild sinni.