Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:45:13 (2821)


[15:45]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Framlagning þessa máls er dæmigerð fyrir vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutans. Ef við lítum á framlagningu mála undanfarið frá ríkisstjórn og meiri hlutanum þá gerist það þannig að annaðhvort eru mál borin fram í formi bandorms þar sem lagabreytingar, svo allt upp í tugum skiptir, eru settar inn í eitt frv. eða nefndirnar eru fengnar til þess að flytja málin. Ef það hefði verið svo að Alþingi hefði setið yfir miklum önnum á þessu haustþingi þá hefði þetta kannski verið eðlilegt. En nú er ekki svo. Ég vil nú segja, virðulegi forseti, að ef stjórnarandstöðuþingmenn hefðu haft vit á því að leggja engin mál fram í haust og fram á veturinn þá hefði Alþingi setið verklaust vikum saman. Síðan á að hrúga málum í gegn í síðustu vikunni fyrir jól. Þá kemur hvert frv. á fætur öðru. Ýmist er nefndum ætlað að flytja það, eða eins og ég sagði, í formi bandorma og einstaka stjórnarfrumvarpa. Þetta eru náttúrlega engin vinnubrögð.
    Varðandi þetta litla mál sem hér er rætt þá lá það fyrir á fyrsta degi þings í haust að þessa breytingu varð að gera og það hefði, virðulegi forseti, að mínu mati verið sjálfsögð kurteisi að hæstv. landbrh. eftir að landbn. hafði fallist á að flytja málið og forða hæstv. ráðherra frá því að daga uppi með að koma þessu í gegnum þingið á haustþinginu að hæstv. ráðherra hefði setið þingfund meðan umfjöllun fer fram.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill upplýsa að forseti hefur gert hæstv. landbrh. viðvart um að þessi umræða sé hafin og hann mun vera á leiðinni.)
    Já, það er sagt að hæstv. landbrh. sé á leiðinni. Það er út af fyrir sig gott en ég hlýt að harma það ef það þýðir að ég verð að byrja aftur á fyrri hluta ræðu minnar þegar hann er mættur.
    En hér er út af fyrir sig eingöngu um að ræða einfalda tæknilega breytingu á búvörulögunum sem lýtur að því að hægt sé að afnema þá allsherjarrekstrartryggingu sem hefur verið á mjólkurvinnslustöðvum landsins. Þessi dráttur á því að ekki var hægt að afgreiða þetta fyrr frá Alþingi gerir það að verkum að það liggur alveg ljóst fyrir að þetta ár verður að gera upp með sama hætti og gert hefur verið áður. Þar er ekki við mjólkuriðnaðinn að sakast. Hann var tilbúinn til að takast á við breyttar og nýjar aðstæður, en það strandaði á ríkisstjórninni. Það strandaði á því að ríkisstjórnin hefði forgöngu um að koma fram nauðsynlegum breytingum.
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að doka við með það sem ég hefði viljað beina frekar að hæstv. ráðherra hvað þetta snertir. Ég vona að hann sé á leiðinni. Ég vil ekki fara fram á, í það minnsta alveg næstu mínúturnar að fá að gera hlé á ræðu minni þó klukkan tifi vissulega. Ég get þó varpað nokkrum orðum til hv. þm. Egils Jónssonar, formanns landbn.
    Eins og ég sagði áðan hefur landbn. ekki fjallað um mörg mál í vetur. Við höfum m.a. spurt eftir því hvað liði viðameiri breytingum á búvörulögunum í þá veru sem nefndin var farin að vinna að og var langt komin með á síðasta vori. Nú fréttum við stjórnarandstöðuþingmenn í fjölmiðlum að það hafi orðið eitthvert samkomulag um þetta mál milli stjórnarflokkanna í gærkvöldi. Það sást í gærkvöldi þegar hv. þm., formaður landbn., handsalaði það samkomulag við hæstv. viðskrh. Hv. þm. rétti ekki bara litla fingurinn. Það var öll höndin sem var rétt. Mér fyndist afar eðlilegt við þessa umræðu núna af því að búið er að opna umræðu um búvörulögin að hv. þm., formaður landbn., gerði okkur í stuttu máli grein fyrir því hvað felst í þessu samkomulagi og þar verði ekkert dregið undan. Það vildi svo til að á fundi landbn. fyrir nokkrum dögum neitaði hv. formaður nefndarinnar þeim sem hér stendur að bera fram spurningu í þá veru hvað væri að gerast í þessum málum til fulltrúa landbrn. sem voru staddir á fundinum og upplýsti sjálfur að hann vissi ekkert hvar þetta mál væri statt eða hvað væri að gerast en nú er tækifærið komið fyrir hv. þm. að gera þingheimi og okkur landbúnaðarnefndarmönnum sem hér sitjum grein fyrir þessum breytingum.
    Virðulegi forseti. Mig er farið að lengja eftir hæstv. landbrh.
    ( Forseti (VS) : Nú getur forseti upplýst að hæstv. landbrh. er kominn í húsið.)
    Þá doka ég bara við augnablik. --- Virðulegur forseti, ég sé að hæstv. landbrh. gengur í salinn. En ástæða þess að mér fannst eðlilegt að hæstv. ráðherra sýndi landbn. þá kurteisi að sitja hér meðan þetta mál væri flutt er fyrst og fremst sú að hæstv. ráðherra átti fyrir lifandi löngu að vera búinn að leggja þetta mál fyrir Alþingi. Ég rakti það áðan að það var deginum ljósara strax í upphafi þingsins að það þurfti að gera þessa breytingu og það hversu lengi það hefur dregist gerir það að verkum að það ár sem nú er að líða verður að gera upp eftir gamla verðmiðlunarkerfinu innan mjólkuriðnaðarins. Það er því miður afskaplega djúpt á ákvörðunum og reglugerðum frá landbrn. og ég vil spyrja hæstv. ráðherra í þessu samhengi hvernig á því standi að enn er ekki búið að setja reglugerð um úreldingu mjólkursamlaga þannig að hægt sé að nýta þá fjármuni sem til eru í sjóði til slíkra hluta. Það er, virðulegi forseti, eins og það sé hæstv. ráðherra kappsmál að framfarir og hagræðing í mjólkuriðnaði tefjist sem lengst.
    Ég vil einnig, virðulegur forseti, beina sömu spurningu til hæstv. viðskrh. og ég lagði fyrir hv. formann landbn. hér áðan hvað hafi falist í því samkomulagi sem fjölmiðlar segja okkur að hafi verið gert í gærkvöldi um frekari breytingar á búvörulögunum. Við fulltrúar í landbn. og fleiri stjórnarandstæðingar höfum margsinnis spurt eftir því hvað dvelji orminn langa. Síðast á landbúnaðarnefndarfundi í vikunni leituðum við eftir þessum upplýsingum en fengum engar.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda um þetta lengra mál. Ég sá hins vegar fulla ástæðu til þess, af því að loksins kom mál frá hæstv. landbrh. fyrir Alþingi, að nota tækifærið til að spyrja

um fleiri þætti en tengjast því beint en tengjast þó búvörulögunum sem hér eru til umfjöllunar.