Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:37:32 (2835)


[16:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eitthvað hafa þessi fáu orð komið við hv. þm. og hæstv. landbrh. því þeir tala um að menn standi á öskrinu, ómagaorð og sparðatíning. Það munar ekkert um það. Menn sjá ástæðu til að taka töluvert mikið upp í sig og það gera menn væntanlega ekki ef ekkert hefur verið sagt, hv. þm. En eitt vil ég taka skýrt fram við hv. þm. Egil Jónsson og formann landbn. að ef hann hefur tekið orð mín þannig að ég hafi gagnrýnt að ekki væri unnið vel í landbn. er það algjör misskilningur. Gagnrýni mín beindist að framlagningu mála og hvernig ríkisstjórnin heldur á þeim málaflokkum, og einstakir ráðherrar, sem þeim er trúað fyrir. Ég get fyrstur manna vottað að í landbn. er afar mikið unnið undir forustu núv. hv. formanns hennar og ég mun aldrei halda öðru fram. ( Gripið fram í: Þetta er í rétta átt.) Þetta er allt í rétta átt, segir hv. þm. Þannig að ég held að þessi hluti ræðu þingmannsins hafi verið á nokkrum misskilningi byggður.
    Hv. þm. tók það sem svo að ég hafi nefnt handtak hans við hæstv. viðskrh. í gær af afbrýðisemi. Það er langt frá því. Ég hef ótal tækifæri til þess að taka í hendur á hæstv. viðskrh. Við heilsumst og kveðjumst þegar þing kemur saman og fer og sjálfsagt oftar. En hv. þm., það er ákveðinn kvíði í mínu brjósti þegar Sjálfstfl. tekur höndum saman við Alþfl. í landbúnaðarmálum og það eru í mínum huga og mínum augum ákveðið hættumerki.