Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:11:15 (2844)


[17:11]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Iðnn. Alþingis hefur á undanförnum vikum og mánuðum fjallað sérstaklega um stöðu skipasmíðaiðnaðarins. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram að nefndin hefur farið mjög rækilega yfir þessi mál og kallað til sín fjölda aðila og hún hefur sent hæstv. iðnrh. sérstakt bréf þar sem hún lætur koma fram sín sjónarmið varðandi skipasmíðaiðnaðinn sérstaklega.
    Ég tel að það sé í raun og veru tvennt sem hv. Alþingi getur gert að því er þessi mál varðar, sem snúa að skipasmíðaiðnaðinum. Annars vegar að samþykkja hér með lagabreytingum jöfnunaraðgerðirnar og ég lít svo á að yfirlýsing hæstv. forsrh. hér áðan hafi verið mikilvægur áfangi í þá átt að tryggja að hér verði lögð á jöfnunargjöld til þess að treysta íslenskan skipasmíðaiðnað. Ég vil skilja yfirlýsingu hans með sama hætti og hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði hér áðan.
    Hitt er líka mikilvægt að hafa í huga að eiginfjárstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar er hrunin. Þar er í raun og veru ekkert eigið fé eftir. Það er talað um að heildarskuldir skipasmíðaiðnaðarins séu í kringum 2 milljarðar kr. og að verulegur hluti þessa, rúmur helmingur a.m.k., sé í lausaskuldum af ýmsu tagi. Það er því alveg ljóst að jafnvel þó að Alþingi samþykki jöfnunaraðgerðir, þá dugir það ekki til. Það þarf að fara í verulegar nýjar fjármögnunaraðgerðir fyrir skipasmíðaiðnaðinn í landinu og það er í raun og veru forsenda þess að það sé hægt að halda honum áfram. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu fyrir mitt leyti, eftir að hafa rætt við fjölda aðila í skipasmíðaiðnaði, að í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga samþykki Alþingi heimildir til ríkisstjórnarinnar og réttra aðila annarra hér á landi til þess að standa fyrir verulegum fjármögnunaraðgerðum í þágu skipasmíðaiðnaðarins. Það eru forsendur til þess að gera það hér næstu daga, í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga.