Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:18:33 (2847)


[17:18]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins upplýsa í tilefni af því að hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði hér áðan í blaðafréttir um að álagning jöfnunargjalda væri ekki á dagskrá í fjmrn. Það er ekki rétt. Þann 18. maí sl. samþykkti ríkisstjórnin að fela fjmrh. ásamt fleirum að skoða útfærslu á jöfnunargjaldi í skipasmíðaiðnaði. Menn hafa verið að vinna með það mál í fjmrn. síðan og sú vinna er á lokastigi. Hins vegar er það ekkert einfalt mál, svo að ég nefni aðeins eitt vandamál sem upp kemur og það er að skilgreina hvert er heimsmarkaðsverð á skipasmíðum, sem þarf þá samkvæmt þeim reglum sem við miðum við og verðum að lúta um meðferð jöfnunargjalds að liggja fyrir. Þannig að við Íslendingar erum þar að ryðja brautina um jöfnunargjald í skipasmíðaiðnaði, því það er ekkert annað land sem hefur tekið upp jöfnunargjald í skipasmíðaiðnaði, þó að það sé heimilt samkvæmt alþjóðasamþykktum. En það er verið að vinna að þessum málum nú.
    Í öðru lagi þá er nú að skila af sér nefnd um verkefnastöðu skipasmíðaiðnaðarins. Til viðbótar mun sú nefnd sem ég skipaði sérstaklega að beiðni Málms hf. skila af sér í janúarmánuði. Þar er m.a. verið að skoða þau mál sem margir hv. þm. hafa hér minnst á, þ.e. slaka eiginfjárstöðu skipasmíðaiðnaðarins og hvað hægt er að gera til þess að bæta þar um, m.a. með hagræðingu og samræmingu fyrirtækja. Það starf er unnið ekki aðeins af iðnrn. heldur koma þar að bæði samgrn. og fjmrn. og eins helstu lánastofnanir skipasmíðaiðnaðarins og samtök skipasmíðaiðnaðarins, bæði fyrirtækja og launþega. Þannig að ég á von á því að mjög fljótlega, á næstu vikum, fái ég skýrslu verkefnanefndar og um miðjan janúar fái ég skýrslu þeirrar nefndar sem ég skipaði samkvæmt tillögu Málms. Það má gera ráð fyrir því að mjög fljótlega verði lagðar samræmdar tillögur fyrir ríkisstjórnina um aðgerðir til þess að varðveita skipasmíðaþekkinguna í íslenskum iðnaði.