Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:23:22 (2849)


[17:23]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað þörf umræða að tala um atvinnumálin á Akureyri. Við vitum að atvinnulíf þar hefur verið mjög sérstætt. Þar hefur verið meira um útflutningsiðnað en kannski nokkurs staðar annars staðar á landinu miðað við fólksfjölda og kannski þó ekki sé tekið tillit til þess í almennum iðnaði. Þess vegna væri það nú svo, ef allt hefði verið með felldu á undanförnum árum og allt gengið vel, að hagur þeirra fyrirtækja ætti að vera mjög góður, þar sem raungengi er lægra nú en það hefur nokkru sinni verið, ég veit ekki hvað ég á að fara langt aftur, 10 ár, 20 ár, 30 ár, sem væri auðvitað mikill hagur fyrir fyrirtækin þar og er í raun og veru sé til þess litið.
    Á hinn bóginn þekkjum við það og vitum að sú þrautaganga sem fyrirtækin hafa þurft að ganga í gegnum, ég tala nú ekki um á árunum 1988--1991 eftir að sýndarráðstafanirnar voru gerðar þá um haustið fyrir atvinnuvegina, hefur reynst Akureyringum mjög þungar í skauti. Það er líka alveg ljóst þegar við horfum til Slippstöðvarinnar að skipasmíðaiðnaðurinn og ástandið í honum og rekstur hans endurspeglast af stöðu sjávarútvegsins á hverjum tíma. Eins og nú standa sakir hefur útgerð átt við mikla erfiðleika að stríða og það kemur auðvitað fram í þeim verkefnum sem stóru skipasmíðastöðvarnar hafa verið að sinna á undanförnum árum.
    Ég vil líka segja það að um leið og við horfum til Slippstöðvarinnar og veltum fyrir okkur hvernig við getum treyst undirstöður þess iðnaðar, sem því miður hefur verið látið undir höfuð leggjast að hyggja að, stöndum við frammi fyrir erfiðleikum líka í niðursuðuiðnaðinum fyrir norðan. Ég hef því miður ekki ráðrúm til að ræða þetta frekar, en vonast einungis til að það að þessi mál voru tekin upp nú af hv. þm. Steingrími Sigfússyni bendi til að þingmenn kjördæmisins muni vinna að þessum málum með friði og miklum samstarfsvilja.