Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:25:46 (2850)


[17:25]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Sú var tíðin að Akureyri var gjarnan nefndur bær iðnaðarins, en því miður er svo komið að Akureyri og byggðir Eyjafjarðar eru nú í vanda staddar.
    Það er m.a. af því að frá því að núv. ríkisstjórn kom til valda hafa tapast hvorki meira né minna en 1.500 störf í iðnaði. Á sl. 5 árum hafa tapast hvorki meira né minna en um 500 störf í skipasmíðaiðnaðinum. Á hverju ári eru fluttar inn iðnaðarvörur sem mætti framleiða hér á landi fyrir hvorki meira né minna en um 20 milljarða kr. Sá hluti þessarar framleiðslu sem við Íslendingar gætum framleitt sjálfir, ef við hefðum manndóm í okkur til þess að bregðast þannig rétt og skynsamlega við, ætti að geta skapað hér hvorki meira né minna en 4--5 þúsund störf. Ég vil því í þessu sambandi segja að vegna þess hversu núv. ríkisstjórn er verklítil í þessum málum og vegna þess ekki síst hversu skipaiðnaðurinn er háþróaður, ef svo mætti segja, á Akureyri og þar er mikil verkþekking til staðar, þá getum við ekki beðið lengur. Við getum ekki beðið lengur eftir því að ríkisstjórnin bregðist við þessum vanda. Þessi atvinnugrein er að leggjast í rúst. Því vil ég mælast til þess að hv. iðnn. þingsins hafi um það frumkvæði að leita lausnar á þeim vanda sem steðjar að íslenskum skipaiðnaði --- og ég bið hv. formann nefndarinnar að leggja við hlustirnar --- og nefndin leggi fram heildstæðar og markvissar tillögur þar um fyrir Alþingi til samþykktar.
    Ég trúi því, eins og alþm. hafa talað í þessu máli, að þá sé mikill meiri hluti hér í þinginu fyrir aðgerðum í málinu og ekki síst, virðulegi forseti, vegna þess að landsfundur Sjálfstfl. samþykkti að leggja

bæri höfuðáherslu á jöfnun starfsskilyrða milli innlendra og erlendra atvinnugreina. Þannig að mér sýnist að það blasi við að það sé hér nægur meiri hluti fyrir því að kryfja þetta mál til mergjar og leita lausnar og ég treysti því að iðnn. taki forustu í þessu máli.